ROMARIO, sem á árum áður var aðalframherji brasilíska landsliðsins í knattspyrnu, gerði sér lítið fyrir og varð markakóngur í heimalandi sínu með því að skora 22 mörk fyrir Vasco da Gama, en Romario er 39 ára gamall.

ROMARIO, sem á árum áður var aðalframherji brasilíska landsliðsins í knattspyrnu, gerði sér lítið fyrir og varð markakóngur í heimalandi sínu með því að skora 22 mörk fyrir Vasco da Gama, en Romario er 39 ára gamall. Hann skoraði úr tveimur vítaspyrnum í lokaumferðinni en lið hans sigraði í leiknum, 3:1.

"Það vita það flestir að ég er að nálgast endalok ferilsins og það er því gaman að fá slíka viðurkenningu. Mér líður hinsvegar vel og líkamlega er í stakk búinn að halda áfram," sagði leikmaðurinn við fjölmiðla eftir leikinn en hann fékk gríðarlega mörg tækifæri í lokaleiknum þar sem samherjar hans sendu boltann á hann við hvert tækifæri.

Romario varð markahæstur árið 2001 í Brasilíu er hann var 35 ára gamall og var markahæstur á HM í Bandaríkjunum árið 1994 þar sem hann skoraði 5 mörk ásamt tveimur öðrum leikmönnum en hann var valinn knattspyrnumaður ársins af FIFA það sama ár en Brasilíumenn urðu heimsmeistarar árið 1994.