Geir Dalmann Jónsson fæddist í Dalsmynni í Norðurárdal 14. apríl 1925. Hann lést á heimili sínu 5. nóvember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Hvammskirkju 12. nóvember.

Hann Geir í Dalsmynni er horfinn á vit feðra sinna og Norðurárdalurinn hefur séð á bak einum sinna ágætustu sona.

Fyrstu kynni mín af Geir voru þannig að ég var á leið vestan af Patreksfirði með konu og börn. Þetta var fyrir 30 árum. Það fór svo að varadekkið fór undir sunnarlega á Barðaströnd. En ekki nóg með það heldur sprakk í annað sinn við Bjarnardalsá. Og nú voru góð ráð dýr. Það var orðið kvöldsett, myrkur og rigning. Þá varð mér til happs að ég fékk að sitja í hjá öðrum vegfaranda niður að Dalsmynni. Þar bankaði ég upp á og leitaði ásjár Geirs. Viðbrögð hans eru mér minnisstæð enn þann dag í dag. Það voru ekki höfð mörg orð en strax lagt af stað upp að á. Þar tók Geir konuna mína og börnin yfir í sinn bíl ásamt varadekkinu og hélt til baka. Mér lánaði hann loftdælu og tókst mér að komast niðureftir með því að dæla í dekkið með stuttu millibili. Geir var þá búinn að gera við og ekki vildi hann þiggja borgun fyrir hjálpina. Við komumst farsællega og höfðum eignast góðan vin í leiðinni. Geir rak á þessum tíma vörubíl og vann löngum hjá Vegagerðinni. Vinnustaðarandi þar var eins og í stórri fjölskyldu. Ef til vill hef ég notið þess. Kynni okkar Geirs urðu þó ekki mjög náin fyrr en síðustu árin eftir að ég fór að sjá um girðingamál hjá Vegagerðinni. Þá heimsótti ég hann nokkrum sinnum og alltaf voru móttökurnar jafn hlýjar og góðar. Geir var afar heilsuhraustur og er mér sagt að honum hafi naumast nokkurn tíma orðið misdægurt fyrr en hann lagðist til hvíldar að kvöldi og vaknaði ekki aftur að morgni. Hann var svo lánsamur að ástvinir hans voru í heimsókn og því ljóst strax að morgni hvernig komið var. En jafnvel þó svo hefði ekki verið má fullvíst telja að vinir hans á næstu bæjum hefðu strax saknað hans ef ekki hefði sést til hans á laugardaginn.

Vinir Geirs úr "Vegagerðarfjölskyldunni" sakna hans nú sáran og minnast hans um leið með hlýhug og virðingu. Samtímis vottum við ástvinum hans innilega samúð okkar allra.

Jenni R. Ólason.