Hermann Stefánsson
Hermann Stefánsson
Höfundur: Hermann Stefánsson 176 bls. Bjartur 2005

ÞAÐ sem hefur verið að gerast í bókmenntum á síðustu árum og áratugum er meðal annars það að fagurfræðin hefur færst inn í bókmenntaverkið sjálft í stað þess að standa utan þess. Í stað þess að leggja fagurfræðileg drög að verkinu og vinna svo á grunni þeirra verða drögin sjálf að verkinu. Bókmenntaverk verður því hugleiðing um sjálft sig, um bókmenntir, tákn og tungumál, textinn sem höfundar skrifuðu áður fyrir sjálfa sig er tekinn með í verkið.

Ég samdi ekki textann sem hér fór á undan. Hann er lagður í munn rithöfundinum Ólafi Jóhanni sem er persóna í skáldsögunni Níu þjófalyklar sem út kom í fyrra. Sú saga er eftir Hermann Stefánsson en hann sækir þessar hugmyndir væntanlega til manna sem fjallað hafa um sjálfhverfu í bókmenntum og ekki síst um sjálfsögur, þ.e. sögur sem fjalla um sjálfar sig, vísa til eigin gangverks og til margs konar sagnaeinkenna í lífi og sjálfsmyndum fólks. Það er eitt af einkennum sjálfsagna að þar eru rofin mörk milli bókmennta og bókmenntaumræðu og í Níu þjófalyklum er fjallað um rithöfundinn Guðjón Ólafsson sem stríðir við ýmsa þráhyggju og hefur m.a. rithöfundinn Ólaf Jóhann Ólafsson á heilanum, en auk þess fjallar sagan um textatengsl í bókmenntum, um það hvernig sögur spretta hver út úr annarri og höfundar "stela" hver frá öðrum.

Lesendur kunna að spyrja hvort hugleiðingar bókmenntaverka um sjálf sig beri ekki vott um naflaskoðun höfunda sem þar með vanræki að segja lesendum sannfærandi og "grípandi" sögur - já, gangi meira að segja svo langt að láta aðalpersónur sínar vera rithöfunda sem eru með verk sín í uppnámi. Má ekki segja að slíkar sögur svipti sig lífi með listrænu harakiri, ellegar stundi einhverskonar sjálfsfróun á berangri?

Svar sjálfsöguhöfunda er að draga þessa spurningu líka inn í þann leik sem þeir bjóða lesendum að taka þátt í og byggist á því að rjúfa blekkingu eftirlíkingarinnar og sögufléttunnar, og sýna hvernig landamæri veruleika og skáldskapar liggja þvers og kruss um líf okkar.

Í nýrri skáldsögu Hermanns, sem heitir Stefnuljós, er Guðjón Ólafsson enn á ferð, bæði heima við í Reykjavík, ásamt eiginkonu sinni Helenu, og á rithöfundaþingi í Prag, og þar skrifar hann frásögn af Gregor nokkrum sem á eitthvað sameiginlegt með samnefndri söguhetju Praghöfundarins Franz Kafka. Sögusviðið í verkinu sem Guðjón skrifar er þó Reykjavík, en í framtíðinni og hafa verið teknir upp nýir siðir sem m.a. einkennast af mjög virkri sjálfsfróun á almannafæri.

Sitthvað bendir til þess að Guðjón semji einnig þá hluta textans sem gerast í samtíð hans og ímyndi sér framhjáhald Helenu konu sinnar, sem gengur mjög sjálfviljug "Tróju" á hönd og stundar þar vægast sagt djarfar íþróttir (hér eru kaflar sem vart henta viðkvæmum lesendum). Guðjón ímyndar sér ítrekað það "versta sem gæti gerst" og er það í takt við heimsslitamálverk Jan Brueghels, Sigur dauðans, en eftirmynd þess hangir í vinnustofu Guðjóns. Myndin er einnig birt í skáldsögunni og er því hluti af "texta" hennar. Það er raunar einkennilegt að Hermann skuli ekki treysta lesendum myndarinnar betur en raunin er, því hann sér ástæðu til að lýsa henni í smáatriðum og greina frá málaranum og ferli hans. Tengslin milli myndarinnar og annarra hluta sögunnar hefðu orðið áleitnari hefði hann sleppt þessari "þýðingu" eða skrifað meira skapandi fylgitexta með myndinni. Annar veikburða texti í bókinni eru kaflar úr ræðu Guðjóns á rithöfundaþinginu í Prag; klisjurnar þær eru of auðkeyptar, hvernig sem á þær er litið.

Kannski er ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hver staða gagnrýnandans sé andspænis eða í verki þar sem á undan ritdómara fer spyrjandi vitund í "opnum" texta. Ef fagurfræði verksins er í raun drög sem eru í vinnslu innan sögunnar sjálfrar, er þá ekki dauðyflislegt að bera hefðbundna gagnrýni að verkinu? Það rifjast jafnframt upp að Hermann skrifaði fyrir nokkrum misserum greinar þar sem hann kvaddi starf ritdómarans og gerði upp við tuggur bókmenntagagnrýninnar. Eina andsvarið við þessu er að leitast við að stunda gagnrýni sem einnig er verk í vinnslu innan um vinnupalla og talíur skáldverksins.

Slíkur rýnandi furðar sig að vísu á því að bókin virðist lokast utan um hann þegar yfir lýkur, og reyna að bíta í skottið á sér, eða stinga skottinu í munn sér, og rýnandinn, köllum hann Ólaf Jóhann, segir æ nei ekki hringlaga skáldsögu enn á ný, má ég þá frekar ljúka ferðinni á vígvelli Brueghels. Og hann sæti ekki fastur þar því hugskotið er ekki bara fullt af órum, eins og Guðjón grunar á einum stað, heldur er skotfæri milli óra og sagan býður upp á ævintýraleg ferðalög. Í skáldsögunni gera sumir grín að kröfum um að rithöfundar taki þátt í samfélagsumræðu, en sjálfsfróunin í sögunni er þó öðrum þræði satíra á þá sjálfselsku sem einkennir nútímafjölmiðla, pólitík og markaðssamfélagið; sjálfhverfa sem leitast við að gleypa í sig og hemja alla gagnrýni.

Í sögu Hermanns sést víða að viðleitni til sjálfskoðunar skáldskaparins vekur spurningar sem skipta miklu jafnt í einkalífi sem samfélagsmálum. Má þá fyrst nefna hina frægu spurningu "Hver mælir hér?" - og jafnframt spurningar um það hvaðan textar séu komnir og hverjir séu höfundar þeirra. Ekki síður spurningar um ímyndunaraflið - hvernig fólk og fárviðri "verða til" innra með okkur - og hvernig rithöfundar gerast sérfræðingar í slíku "manneldi" og fara þar með í hlutverk guðanna. En þeir verða líka oft áttavilltir og eiga því erfitt með að gefa stefnuljós öðrum til hagræðingar. Ekki nóg með að Helena sé Guðjóni hið myrkasta meginland, heldur eigrar hann einnig oft stefnulaus um í eigin sjálfsmynd og gerist jafnvel málþjónn sjónarmiða sem hann er ósammála.

Hermann Stefánsson hefur hæfileika til að vinna með lesmál og sögur af þessu tagi. Hann býr yfir þeirri þekkingu sem þarf til að pælingar í tilvísun texta og mörkum skáldskapar og veruleika verði annað og meira en leikur einn, en jafnframt kann hann að halda í leikinn og ydda hann með íroníu og kímni. Loks, og ekki síst, er í honum sterkur ljóðrænn strengur sem vindur sig stundum upp á yfirborðið og veldur sviptingum og ólgu í textanum og skynjun lesandans.

Ástráður Eysteinsson