Helga á Mælifellsá með skagfirska rósavettlinga eftir sig.
Helga á Mælifellsá með skagfirska rósavettlinga eftir sig. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is "ÉG get víst ekki hrósað mér fyrir að eiga hönnunina á vettlingunum. Árið 2003 kom út bókin Skagfirskir rósavettlingar. Í henni er sögð saga rósavettlinganna og sýnt hvernig þeir voru gerðir.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is

"ÉG get víst ekki hrósað mér fyrir að eiga hönnunina á vettlingunum. Árið 2003 kom út bókin Skagfirskir rósavettlingar. Í henni er sögð saga rósavettlinganna og sýnt hvernig þeir voru gerðir. Ég var svo hrifin af þessu að ég fór að fikta við að gera þá og stæla upp úr bókinni," segir Helga Þórðardóttir frá Mælifellsá í Skagafirði. Helga var valin til að sýna vettlingana sína á jólasýningu Handverks og hönnunar í ár.

"Forverar mínir, konur á 19. og 20. öld í Skagafirði, prjónuðu vettlingana í höndunum en systir mín, hún Sesselja Þórðardóttir, tók sig til og hannaði uppskrift að vettlingunum svo ég gæti prjónað þá í prjónavél og svo handsauma ég mynstrið í þá." Helga hefur gert sum mynstrin sjálf en styðst þá við mynstrin í bókinni og breytir þeim.

"Ég vil halda í gamla svipinn á vettlingunum en það eru eiginlega alltaf blóm sem eru saumuð í þá. Svo þróast þetta í höndunum á manni og það getur vel verið að mynstrin eigi eftir að breytast hjá mér."

Pantaðir í pakkann

Það er um eitt og hálft ár síðan Helga byrjaði á að gera rósavettlinga en að eigin sögn hefur hún haft gaman af handavinnu frá æsku.

"Það var nú út af bókinni sem ég ákvað að byrja á þessu og ekki síst vegna þess að þetta er sér skagfirskt handverk. Ég hef aldrei lagt í að leggja saman hvað ég er lengi með hvern vettling. Ísaumurinn tekur lengstan tíma, ég prjóna í höndunum neðstu röndina á vettlingnum því það er ekki hægt að gera garðaprjón í prjónavélinni, svo eru þeir þvegnir og þæfðir smá. Í vettlingana þarf fínt ullargarn og nota ég aðallega kambgarn frá Ístex. Konurnar í gamla daga notuðu fínna garn en ég svo þetta var mikið listaverk hjá þeim."

Rósavettlingarnir hennar Helgu eru til sölu í Upplýsingamiðstöðinni í Varmahlíð og á jólasýningunni.

"Þeir seljast svo vel að ég hef ekki undan að gera þá. Ég er sauðfjárbóndi og viðurkenndur bókari þannig að vettlingarnir eru frístundavinna," segir Helga sem er meðlimur í handverksfélaginu Alþýðulist í Skagafirði.

"Ég hef tekið mynd af flestöllum vettlingapörum sem ég hef gert og stefni á að setja þær á netið svo fólk geti pantað pör með vissu mynstri. En engir tveir vettlingar verða eins."

Helga segir vettlingana vera vinsæla hjá börnum og barnabörnum sínum og nú þegar sé búið að panta nokkur pör í jólagjöf.