HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og til að greiða 25 ára gömlum manni sem hann réðst á tæplega 750.000 krónur í bætur. Mennirnir voru í heimahúsi þegar þeim varð sundurorða.
HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og til að greiða 25 ára gömlum manni sem hann réðst á tæplega 750.000 krónur í bætur.

Mennirnir voru í heimahúsi þegar þeim varð sundurorða. Þeim ber alls ekki saman um það sem gerðist, sá sem varð fyrir árásinni sagði að hinn hefði fyrirvaralaust staðið upp frá borði og slegið hann í andlitið. Hinn ákærði sagði hjá lögreglu að hann hefði slegið frá sér í sjálfsvörn en breytti síðan framburði sínum fyrir dómi og sagðist ekki hafa slegið hnefahögg heldur hafi þeir kútvelst á gólfinu í átökum.

Við höggið sem maðurinn hlaut kjálkabrotnaði hann vinstra megin og var óvinnufær í 3-4 vikur.

Í niðurstöðu dómsins segir að enginn annar en hinn ákærði hefði getað veitt manninum þessa áverka og hann hafi ekki gefið trúverðugar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Var hann því dæmdur til að greiða honum bætur, þar af voru rúmlega 460.000 krónur vegna vinnutaps. Einnig var hann dæmdur til að greiða málskostnað og málsvarnarlaun.

Hjörtur O. Aðalsteinsson kvað upp dóminn. Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum, sótti málið og Jón G. Valgeirsson hdl. var til varnar.