Rúnar Óskarsson
Rúnar Óskarsson
Jólatónleikar Svansins. Flutt voru verk eftir John Tatgenhorst, Jan de Haan, Dave Wolpe, Ted Ricketts, Jacob de Haan, Camille Saint-Saëns, Tom Skjellum, Leroy Anderson og Árna Björnsson. Einleikari: Þorvaldur Ólafsson. Stjórnandi: Rúnar Óskarsson. Sunnudag kl. 20.
ÞAÐ er lán hvers liðs að eiga góðan stjórnanda. Lúðrasveitin Svanur getur sannarlega hrósað happi að hafa fengið Rúnar Óskarsson klarinettuleikara sem stjórnanda. Gagnrýnandi þekkir vel til verka Rúnars á öðrum vettvangi - bæði sem einleikara, úr dúóleik með Söndru de Bruin, úr kammermúsík með Hnúkaþey, Caput og fleirum, en þessa hlið Rúnars hafði hann ekki upplifað fyrr en á Jólatónleikum Svansins í Ými á sunnudagskvöld. Það fer ekki alltaf saman að vera góður hljóðfæraleikari og góður stjórnandi - um það eru mörg dæmi, sum jafnvel sorgleg. En Rúnar hefur þetta gjörsamlega í hendi sér í orðsins fyllstu merkingu. Taktslagið var skýrt og öruggt og músíkölsku leiðbeiningarnar beinskeyttar og ákveðnar. Svanurinn var líka eins og leir í höndum hans og spilaði glæsilega. Rúnar er afburða músíkalskur, gegnheill og flinkur tónlistarmaður - sama í hvers konar tónlist er borið niður og leikur Svansins endurspeglaði það.

Efnisskrá jólatónleikanna var ekkert tengd jólum, nema lokalagið, Sleðaferðin eftir Leroy Anderson. Það sem hæst bar var Satchmo! syrpa Teds Ricketts, lítil svíta með lögum sem Louis Armstrong gerði fræg á sínum tíma. Þar spilaði Svanurinn feiknarvel og skapaði áhrifamiklar andstæður milli hægu og ljúfu laganna, What a wonderful world , og St. Louis Blues , og hinna kraftmiklu og fjörugu When the saints go marching in og Hello Dolly . Útsetning Ricketts bar þess merki að hann er flinkur útsetjari - enda lengi á mála hjá Disney við að útsetja, semja og spila. Ammerland eftir Jacob de Haan var líka fallegt verk - náttúrustemning frá svissnesku Ölpunum, sem hófst á dimmum og nánast mystískum inngangi tréblásaranna.

Einleikari kvöldsins, Þorvaldur Ólafsson var stórfínn í litlu lagi Wolpes, Turn yourself around , og ekki síðri í kompaníi við hina þrjá básúnuleikara sveitarinnar í standardasyrpu eftir Tom Skjellum. Þar fóru trompetarnir á kostum í Tico Tico , klarinetturnar möluðu munúðarfullt Petit fleur í mögnuðu lagi Sidneys Bechets, básúnurnar blésu I'm getting sentimental over you og saxófónarnir voru frábærir í sveiflunni í Four brothers . Þarna heyrðist vel hvað hver og ein rödd Svansins er fín og pottþétt - engin ástæða til að ætla að þær raddir sem ekki fengu sóló séu neitt síðri. Discovery fantasían eftir Jan de Haan var prýðilega leikin, en verkið ekkert sérstakt. Dagskránni lauk á jafn glæsilegan hátt og hún hófst, með Sleðaferðinni sem gneistaði af hneggjandi sveiflu og fjöri.

Aukalagið, Gamlir félagar eftir Árna Björnsson var fínn útgöngumars eftir stórskemmtilega og lifandi jólatónleika Svansins.

Bergþóra Jónsdóttir