Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson
Eftir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra: "ÁTAKIÐ Verndum bernskuna er nú komið vel á veg en það hófst í september með samstilltu átaki forsætisráðuneytisins, þjóðkirkjunnar, umboðsmanns barna, Velferðarsjóðs barna og Heimilis og skóla."
ÁTAKIÐ Verndum bernskuna er nú komið vel á veg en það hófst í september með samstilltu átaki forsætisráðuneytisins, þjóðkirkjunnar, umboðsmanns barna, Velferðarsjóðs barna og Heimilis og skóla. Í áramótaávarpi mínu í sjónvarpinu fyrir rétt rúmu ári sagði ég m.a.:

"Við vitum að börn þarfnast umhyggju foreldra sinna og tíma fyrir leik og samræðu. Nútímaþjóðfélagið hefur breytt lífsmynstrinu og í kjölfarið hafa samverustundir fjölskyldunnar tekið breytingum.

Hverju er um að kenna? Langur vinnudagur margra er auðvitað nærtæk ástæða, en örugglega ekki eina skýringin. Er mögulegt að ýmiss konar afþreying tefji svo fyrir börnum og fullorðnum að heimanám, elskulegur agi og uppeldi líði fyrir? Er ástæða til að sjá fjölskyldugerð fyrri tíma í hillingum? Hefur stórfjölskyldan gefið um of eftir? Látum við aðra um uppeldi barna okkar - dýrmætustu eignina í lífinu?

Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi. Þann kjarna þarf að styrkja og treysta."

Daginn eftir flutti biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson, ávarp sitt og kom þar einnig inn á þessi sömu mál með svipaðar áherslur. Þessi samhljómur í áramótaávörpum okkar er upphaf þessa átaks sem gengur undir nafninu "Verndum bernskuna".

Nú er hátíð barnanna á næsta leiti, sjálf jólin. Fjórða heilræðið af tíu er nú birt, það er stutt en í felst mikill sannleikur; Verum til staðar fyrir börnin. Þetta heilræði rímar vel við þær áhyggjur sem ég lét í ljós hinn 31. desember. Við verðum að muna að börnin okkar þurfa tíma og við þurfum að gefa þeim þann tíma. Við megum ekki gleyma okkur í jólaundirbúningnum, megum ekki gleyma börnunum. Í bæklingi sem aðstandendur átaksins sendu inn á hvert heimili nú í haust segir m.a. um heilræði desembermánaðar:

"Það er mikilvægt að þú gefir þér tíma til að njóta samvista við barnið þitt, takir eftir því sem það er að gera og deilir með barninu gleði þess og sorgum."

Síðar segir:

"Barnið þarf að finna skjól og öryggi á heimili sínu. Þú vinnur traust og trúnað barnsins með því að vera til staðar þegar það þarf á þér að halda. Náin samskipti og tengsl á milli ykkar eru dýrmætari en nokkuð annað."

Við þurfum að takast á við þetta verkefni, að styrkja fjölskylduna og gefa okkur tíma fyrir alla meðlimi hennar. Stór þáttur þess er að vera til staðar fyrir börnin. Slík nærvera getur oft reynst besta jólagjöfin.

Eftir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra