Skraufaþurrt hellisferlíki Athygli vekur að enginn leki hefur verið í stöðvarhússhelli Kárahnjúkavirkjunar í Valþjófsstaðarfjalli.
Skraufaþurrt hellisferlíki Athygli vekur að enginn leki hefur verið í stöðvarhússhelli Kárahnjúkavirkjunar í Valþjófsstaðarfjalli. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur austurland@mbl.is "ÆTLI mönnum þar ytra hafi ekki helst komið á óvart hve vel gekk að grafa stöðvarhellinn í Fljótsdal þrátt fyrir ýmis vandamál sem upp komu," segir Matthías Loftsson á Hönnun hf.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur austurland@mbl.is
"ÆTLI mönnum þar ytra hafi ekki helst komið á óvart hve vel gekk að grafa stöðvarhellinn í Fljótsdal þrátt fyrir ýmis vandamál sem upp komu," segir Matthías Loftsson á Hönnun hf. Hann er nýlega kominn heim af norrænni jarð- og bergtækniráðstefnu í Osló þar sem meðal annars var fjallað var um virkjunarframkvæmdirnar í Valþjófsstaðarfjalli í Fljótsdal.

Á vef Kárahnjúkavirkjunar segir að Matthías sé einn þriggja höfunda ítarlegrar greinar um gröft stöðvarhellis Kárahnjúkavirkjunar sem lögð var fram á ráðstefnunni og er birt á Kárahnjúkasíðunni á ensku. Meðhöfundar eru Ægir Jóhannsson á VST og Einar Erlingsson hjá Landsvirkjun. Ægir flutti erindi um málið á ráðstefnunni. Hún er árlegur viðburður í Noregi í nóvember og ber heitið Fjellsprengningsdagen. Þar koma saman helstu sérfræðingar og verktakar í jarðgangagerð á Norðurlöndum og bera saman bækur sínar.

Stöðvarhellir Kárahnjúkavirkjunar telst til meiriháttar framkvæmda í heiminum á sína vísu, einkum þegar horft er til jarðfræðilegra aðstæðna. Hann er 120 metra langur, 14 metra breiður og mesta lofthæð er 35 metrar. Í grein þremenninganna er fjallað um gröft hellisins, forsendur verkhönnunar, flókna jarðfræði, spennu í bergi, bergstyrkingar og bergtæknileg vandamál. Fram kemur hvernig brugðist var við vandamálunum og þau leyst með þeim árangri að framkvæmdin var talsvert á undan áætlun þrátt fyrir að styrkja þyrfti bergið talsvert umfram það sem gert var ráð fyrir í upphafi.

"Jarðlögin á Íslandi eru mjög ólík því sem menn venjast í gangagerð annars staðar á Norðurlöndum," segir Matthías. "Sprungur og misgengi eru hér algengari og umfangsmeiri en víðast annars staðar. Einmitt í því ljósi vakti athygli á ráðstefnunni í Noregi að tæpast er hægt að tala um nokkurn vatnsleka í stöðvarhellinum og göngunum í Fljótsdal. Reyndar kom þetta okkur sjálfum líka á óvart."