ÞEGAR nær dregur jólum hríslast oft talsverður jólafiðringur um Ljósvaka þegar hann heyrir skemmtileg jólalög í útvarpinu á leið til vinnu. Annar fylgifiskur jólanna á öldum ljósvakans er aukið magn auglýsinga.
ÞEGAR nær dregur jólum hríslast oft talsverður jólafiðringur um Ljósvaka þegar hann heyrir skemmtileg jólalög í útvarpinu á leið til vinnu.

Annar fylgifiskur jólanna á öldum ljósvakans er aukið magn auglýsinga. Hvimleitt þegar lögin ná ekki að hljóma í heild sinni vegna ágangs auglýsenda en skiljanlegt þar sem jólin eru jú mesta gróðatímabil margra verslana.

Við hlustun á margar þessara útvarpsauglýsinga renna þó gjarnan tvær grímur á Ljósvaka. Setningar á borð við "Það er ekki of seint að parketleggja fyrir jólin!" láta mann ósjálfrátt leiða hugann að því hvort fólk viti yfir höfuð af hverju við höldum jól. Allavega á ég erfitt með að sjá mikilvægi nýparketlagðrar stofu í jólaundirbúningnum.

Jólaundirbúningurinn, sem að mínu mati ætti að snúast um bakstur, jólakortagerð og almenn huggulegheit, er nefnilega, ef marka má margar auglýsingar í útvarpi, farinn að vera kapphlaup við tímann um að ná sem mestu og gera sem flest fyrir jólin.

"Er jólastressið að drepa þig? Við sjáum um kvöldmatinn fyrir þig..." Svona hljómaði auglýsing frá einni skyndibitakeðjunni. Jólastressið? Ég veit með vissu að sumir kvíða jólunum vegna þess að þeir eiga um sárt að binda eða geta ekki verið með sínum nánustu yfir hátíðarnar. Ég efast þó um að það hafi verið markhópur auglýsingarinnar. Heldur er verið að beina orðum til þeirra sem taka mark á æsingnum og ná að stressa sig yfir því að ekki nóg af jólagjöfum sé komið í hús, eða ekki sé nóg til af kökusortum á heimilinu, já eða yfir því að stofan sé óparketlögð!

Birta Björnsdóttir