— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
YFIRTÖKUNEFND Kauphallar Íslands telur að Fiskveiðihlutafélaginu Venusi sé skylt að gera yfirtökutilboð til annarra hluthafa í Hampiðjunni vegna aukningar á hlutafjáreign í félaginu sem tilkynnt var 18. nóvember síðastliðinn.
YFIRTÖKUNEFND Kauphallar Íslands telur að Fiskveiðihlutafélaginu Venusi sé skylt að gera yfirtökutilboð til annarra hluthafa í Hampiðjunni vegna aukningar á hlutafjáreign í félaginu sem tilkynnt var 18. nóvember síðastliðinn. Þetta stafi af því að hlutur Venusar og tengdra aðila í Hampiðjunni sé kominn yfir 45% af heildarhlutafé félagsins, eða í 45,65%. Kristján Loftsson, stjórnarformaður Venusar og stjórnarmaður í Hampiðjunni, segist ósáttur við niðurstöðu yfirtökunefndar.

Yfirtökunefnd "andvana fædd"

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gær kom fram, eftir að yfirtökunefnd hafði greint frá sinni niðurstöðu, að Venus hefði selt um 0,7% hlut í Hampiðjunni. Við það fór eignarhlutur Venusar og tengdra aðila undir 45% markið. Kristján sagði frekari sölu ekki á döfinni.

Kristján sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Venus hefði aldrei keypt eins stóran hlut í Hampiðjunni og raun varð á, eða tæp 2,7%, ef legið hefði fyrir með hvaða hætti yfirtökunefnd tekur tillit til lítilla eignarhluta tveggja systra Árna Vilhjálmssonar, stjórnarmanns í Hampiðjunni, en Kristín Vilhjálmsdóttir á um 0,52% hlut, og Sigríður Vilhjálmsdóttir á 0,31%. Kristján sagði það ekki vera ætlun Venusar að leggja fram yfirtökutilboð í Hampiðjuna. Það verði ekki gert nema að undangengnum einhvers konar dómi. Kristján bætti við að hann teldi yfirtökunefnd "andvana fædda".

Sameiginlegur hlutur tæp 45%

Í tilkynningu frá yfirtökunefnd til Kauphallar Íslands segir að nefndin hafi litið svo á, að Vogun, Venus og Árni Vilhjálmsson væru tengdir aðilar og færu saman með 41,84% hlutafjár í félaginu. Auk þess sé Kristján Loftsson tengdur aðili, en hann á sjálfur 0,33% hlutafjár í Hampiðjunni. Samtals hafi þessir tengdu aðilar farið með 42,17% hlutafjár í félaginu.

Eftir kaupin þann 18. nóvember var hlutur þessara fjögurra tengdu aðila í Hampiðjunni kominn upp í 44,83%. Yfirtökunefnd telur að ákvæði til bráðabirgða í lögum um verðbréfaviðskipti eigi við um þessa aðila, en samkvæmt ákvæðinu myndast yfirtökuskylda við 45% eignarhlut.