Málverk Kristínar Gunnlaugsdóttur, Land vonarinnar.
Málverk Kristínar Gunnlaugsdóttur, Land vonarinnar. — Morgunblaðið/Sverrir
Út febrúar 2006.

Á AÐVENTU og fram á næsta ár prýða málverk Kristínar Gunnlaugsdóttur og leirverk Margrétar Jónsdóttur anddyri Hallgrímskirkju og á umgjörðin vel við verk þeirra beggja. Margrét Jónsdóttir er menntuð leirlistarkona og hefur einnig lært mósaíkgerð, hún vinnur einkum við gerð nytjahluta á borð við leirtau og mósaíkflísar á veggi og gólf. Í Hallgrímskirkju sýnir hún spiladósir, jólaplatta og sérkennilega og fallega leirmuni sem hún nefnir Trú, Von og Kærleik. Leirtau og leirmunir Margrétar hafa yfir sér andblæ gamalla leirmuna frá slóðum Miðjarðarhafs, eins og mætti ímynda sér að hægt væri að finna á litlum sjarmerandi markaði í fjallaþorpi á Ítalíu. Jólaplattarnir eru í þessum anda, gamalhvítir, dálítið þykkir og brúnirnar óreglulegar. Gerðarlegir en fínlegir í senn. Spiladósirnar og hleðsluskúlptúrarnir eru skemmtileg blanda af húmorísku ofhlæði og elskulegum fígúrum, það er yfir þeim viðkunnanleg lífsgleði. Málverk Kristínar Gunnlaugsdóttur eru ekki síður falleg en af öllu andlegri toga, hér sýnir hún tvö verk, Land vonarinnar og Engil vonarinnar. Landslag í málverkum Kristínar er miðaldalandslag. Landslagsmálverk sem slík urðu ekki til fyrr en á sautjándu öld, allt fram að því var landslag í málverkum fyrst og fremst táknrænt, líkt og listin öll. Landslag á miðöldum var bakgrunnur, og aldrei eftir fyrirmynd heldur ímyndað landslag. Málverk fjórtándu aldar málarans Ambrogio Lorenzetti eru ágætt dæmi um slíkt landslag. Málverk Kristínar, Land vonarinnar, er við fyrstu sýn afar óraunverulegt líkt og tíðkaðist á miðöldum en minnir um leið á sérkennilegar klettamyndanir Sinaifjallsins í Egyptalandi. Land vonarinnar er þannig kannski ekki eins langt frá raunveruleikanum og ætla mætti en aðferð listakonunnar við málverkið er auðvitað ekki raunsæi eins og flestir vita sem þekkja myndir hennar, landslagið tekur á sig ójarðneska mynd eins og því er ætlað. Málverkið Engil vonarinnar má síðan sjá á veggnum andspænis, engillinn er æðrulaus á svip eins og persónur á málverkum Kristínar eru jafnan. Þessar myndir eru ekki jafnlitsterkar og áferðarfallegar og oft er raunin hjá listakonunni og verða fyrir vikið nálægari og áleitnari. Er von í þessum hörmungaheimi, virðast þær spyrja, og leggja svarið í huga áhorfandans. Það fer ekki mikið fyrir þessari litlu sýningu Kristínar og Margrétar en hún er sannarlega heimsóknar verð, listin er góð stoppistöð á þessum árstíma.

Ragna Sigurðardóttir