Stúlknasveit Rimaskóla í yngri flokki, talið frá hægri, Ingibjörg Ásbjörnsdóttir, Ingvar Ásbjörnsson liðsstjóri, Hrund Hauksdóttir, Brynja Vignisdóttir, Eva Rós Birgisdóttir og Elísabet Ragnarsdóttir.
Stúlknasveit Rimaskóla í yngri flokki, talið frá hægri, Ingibjörg Ásbjörnsdóttir, Ingvar Ásbjörnsson liðsstjóri, Hrund Hauksdóttir, Brynja Vignisdóttir, Eva Rós Birgisdóttir og Elísabet Ragnarsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1. og 5. desember 2005
UM langt árabil hefur Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og Taflfélag Reykjavíkur haldið jólaskákmót fyrir grunnskóla borgarinnar. Hver skóli hefur haft færi á að senda lið í eldri flokki (8.-10. bekk) og lið í yngri flokki (1.-7. bekk). Í ár fór keppnin í eldri flokki fram á fullveldisdaginn, 1. desember sl. og tóku sjö sveitir þátt. Rimman um efsta sætið stóð á milli Norðurlandameistara Laugalækjarskóla og Rimaskóla. Í innbyrðis viðureign sveitanna fór jafntefli, tveir vinningar gegn tveimur. Laugarlækjarskóli missti niður hálfan vinning í viðureign sinni gegn Réttarholtsskóla og það var nóg til þess að Rimaskóli bar sigur úr býtum í keppninni þar sem liðið vann allar sínar skákir nema gegn Laugarlækjaskóla. Lokastaðan varð því þessi:

1. Rimaskóli 22 vinninga af 24 mögulegum.

2. Laugarlækjarskóli 21½ v.

3. Réttarholtsskóli a-sveit 16½ v.

4. Réttarholtsskóli b-sveit 8½ v.

5. Húsaskóli 7 v.

6. Austurbæjarskóli a-sveit 6 v.

7. Austurbæjarskóli stúlknasveit 2½ v.

Ingvar Ásbjörnsson, Sverrir Ásbjörnsson, Júlía Rós Hafþórsdóttir og Júlía Guðmundsdóttir skipuðu sveit Rimaskóla en lið Laugarlækjarskóla var skipað þeim Daða Ómarssyni, Vilhjálmi Pálmasyni, Matthíasi Péturssyni og Einari Sigurðssyni. Athygli vakti að Austurbæjarskóli hafði á að skipa tveim sveitum og þar af einni stúlknasveit en enginn annar skóli hafði sveit sem eingöngu var skipuð stúlkum.

Jólamótið í yngri flokki fór fram sunnudaginn 4. desember sl. og var líkt og eldri flokkurinn haldinn í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12. Alls mættu 14 sveitir til leiks og þar af var meira en helmingur sveitanna frá tveimur skólum, þ.e. fjögur lið voru frá Rimaskóla og fjögur lið voru frá Engjaskóla. Yfirburðir a-sveitar Rimaskóla voru miklir en liðið fékk fullt hús vinninga annað árið í röð eða 24 vinninga af 24 mögulegum. Stúlknasveit skólans hafði einnig mikla yfirburði yfir stallsystur sínar en sú sveit, b-sveit Rimaskóla, lenti í öðru sæti í heildarkeppninni. Lokastaða mótsins varð þessi:

1. Rimaskóli a-sveit 24 vinninga af 24 mögulegum.

2. Rimaskóli b-sveit 17 v.

3. Laugarnesskóli 16½ v.

4. Rimaskóli c-sveit 13½ v.

5.-6. Melaskóli og Laugalækjarskóli 12 v.

7. Engjaskóli a-sveit 11½ v.

8. Rimaskóli d-sveit 11 v.

9.-11. Húsaskóli a-sveit, Engjaskóli b-sveit, Húsaskóli b-sveit 10½ v.

12. Engjaskóli 9½ v.

13. Borgaskóli 7½ v.

14. Engjaskóli d-sveit 2 v.

Það hefur ekki gerst áður í sögu keppninnar að sami skólinn vinni hana tvö ár í röð með fullu húsi vinninga. Eins og svo oft áður sá Ólafur H. Ólafsson um skákstjórn mótsins og að þessu sinni var Torfi Leósson honum til halds og trausts en Soffía Pálsdóttir frá ÍTR var mótsstjóri. Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á vefsíðunni www.skak.is.

Heimsbikarmót FIDE

Þessa dagana fer fram í Khanty Mansyisk í Rússlandi Heimsbikarmót FIDE. Mót þetta er í öllum meginatriðum álíkt heimsmeistarakeppni FIDE sem haldin hefur verið með útsláttarfyrirkomulagi. Verðlaunasjóður mótsins er 1,5 milljónir dollara og margir af öflugustu skákmönnum heims taka þátt. Stigahæsti keppandinn, Vassily Ivansjúk (2748), féll úr leik í annarri umferð gegn búlgarska stórmeistaranum Ivan Cheparinov (2619). Cheparinov þessi er 19 ára og hefur á undanförnum misserum verið aðstoðarmaður heimsmeistarans Veselins Topalovs. Í þriðju umferð tefldi Cheparinov við undrabarnið norska Magnus Carlsen en sá norski hefur vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sína þar eð í fyrstu umferð lagði hann Zurab Azmaiparashvili (2658) að velli og í þeirri næstu Farrukh Ammonatov (2572). Þegar þessar línur eru ritaðar er einvígi Cheparinov og Carlsen ekki lokið en spennandi verður að fylgjast með hvort eini fulltrúi Norðurlandaþjóðanna nái enn lengra í mótinu. Hægt er að fylgjast með skákum mótsins í beinni útsendingu á skákþjóninum ICC sem og á heimasíðu mótshaldara á vefslóðinni: http://www.worldchesscup2005.com/.

HELGI ÁSS GRÉTARSSON