Condoleezza Rice
Condoleezza Rice
Washington. AFP, AP.

Washington. AFP, AP. | Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varði í gær meðferð bandarískra yfirvalda á meintum hryðjuverkamönnum þegar hún gaf út ítarlegustu yfirlýsingu bandarískra ráðamanna til þessa í deilunni um meint fangelsi bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Austur-Evrópu.

Rice neitaði því ekki að CIA starfrækti leynileg fangelsi í Evrópu og sagði að ríkin, sem ynnu með Bandaríkjastjórn, gætu sjálf veitt upplýsingar um samstarfið. "Það eru ráðamenn í þessum ríkjum og íbúar þeirra sem þurfa að ákveða hvort þeir vilja vinna með okkur til að afstýra árásum hryðjuverkamanna á eigið land eða önnur lönd, og ákveða að hve miklu leyti hægt sé að gera viðkvæmar upplýsingar opinberar," sagði í yfirlýsingu frá Rice áður en hún hélt í vikulanga ferð til Þýskalands, Rúmeníu, Úkraínu og Brussel.

Segir flutninginn löglegan

Rice viðurkenndi að bandarísk yfirvöld hefðu flutt fanga milli landa til yfirheyrslu en neitaði því að fangarnir væru pyntaðir. Hún lagði áherslu á að yfirheyrslurnar færu fram í samræmi við bandarísk lög og alþjóðlega sáttmála um meðferð á föngum.

Rice sagði að samkvæmt þjóðarétti væri leyfilegt að flytja fanga milli landa þegar ekki væri hægt að koma hefðbundnu framsali við. Bandaríkin og fleiri lönd hefðu lengi tekið þátt í flutningum á meintum hryðjuverkamönnum milli landa. Hún nefndi sem dæmi að Frakkar hefðu flutt hryðjuverkamanninn "Sjakalann Carlos" frá Súdan eftir að hann náðist þar árið 1994 og Mannréttindanefnd Evrópu hefði úrskurðað að sá flutningur stæðist lög.