Dagbjört Björnsdóttir (Dallý) Meistaravöllum 23, fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1950. Hún lést á líknardeild Landspítalans laugardaginn 26. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Björn Jónasson, f. 12. september 1928, d. 29. nóvember 1999, og Sesselja Einarsdóttir, f. 29. september 1928, d. 9. júní 1972. Systkini Dagbjartar eru Einar Helgi, f. 19. júlí 1948, og Herdís, f. 5. júní 1953.

Dagbjört giftist Sebran Wesley Kemp, f.18. ágúst 1953. Þau skildu. Synir þeirra eru Leon Sebran Kemp, f. 11. maí 1972, og Joseph Björn Kemp, f. 26. maí 1977.

Dagbjört starfaði í fiskvinnslu, bæði í Vestmannaeyjum og Reykjavík, en fluttist ung til Bandaríkjanna og var búsett þar í 18 ár. Eftir að hún fluttist til Íslands aftur, starfaði hún bæði við fiskvinnslu og á veitingahúsum. Eftrlifandi sambýlismaður hennar er Guðmundur Sigursteinsson.

Útför Dagbjartar fór fram í kyrrþey, að ósk hinnar látnu, mánudaginn 5. desember.

Elsku Dagbjört mín. "Rokkarnir eru þagnaðir" stendur einhvers staðar, en ég hef þá trú að þínir rokkar þagni seint. Varla eru til nógu sterk lýsingaorð til að lýsa manngæsku þinni, vina mín. Alltaf skein ljós þar sem þú varst og fórst. Þú vissir ekki hvað var að hallmæla fólki, hjálpsemi og fórnfýsi í garð vina og vandamanna var þér í blóð borin. Öll höfum við bresti, bæði meðfædda og áskapaða en af þeim hafðir þú fáa, sem vart bitnuðu á öðrum eins og oft vill verða með okkur sem höfum ekki alltaf ratað rétta veginn.

Mína dýpstu samúð votta ég aðstandendum og vinum. Starfsfólki Líknardeildar Landspítalans í Kópavogi þakka ég sérstaka umönnun og hlýhug. Sérstakar þakkir fær Gísli Ásmundsson fyrir aðstoð og alúð á þessum þungbæru stundum. Með brottför þinni frá okkur lýkur kafla sem erfitt er að sætta sig við að lokið sé. Guð fylgi þér ávallt. Ég sakna þín, Dagbjört.

Þinn vinur,

Guðmundur Sigursteinsson.

Elsku Dagbjört mín, nú skilur leiðir að sinni. Mikið var ljósið sem umkringdi þig og okkur þegar þú varst að kveðja þetta líf. Fegurðin í því augnabliki var ólýsanleg, þú varst svo falleg og friðsæl á sama tíma. Þetta augnablik er greypt í hjarta mitt að eilífu.

Takk fyrir allt, elsku Dagbjört mín.

Þegar við vorum litlar stelpur þá kenndi mamma okkur þessa fallegu kvöldbæn:

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

Þín systir

Herdís.

Nú er hún dáin, hún mágkona mín, hún Dagbjört. Hún átti bæði viðburðaríka og erfiða ævi, sem um mætti skrifa stóra bók.

Við kynntumst fyrst þrettán ára gömul á Austurbarnum og höfum fylgst að nánast alla tíð síðan. Við skutum okkur hvort í öðru á unglingsárum og hún var fyrsta stelpan sem ég hélt í höndina á í bíó. Einhverju sinni komumst við að því í eldhúsinu hjá ömmu í Skipasundi, að við værum frændsystkin, þótt langt aftur í ættir væri, og unglingshugurinn brást þannig við þeim fregnum að samband okkar þróaðist í vináttu sem hefur staðið óslitin síðan.

Dagbjört flutti ung til Bandaríkjanna og upplifði þar allt sem hægt var, bæði að hafa lítið eða ekkert og að lifa í vellystingum. En bréfin þaðan lýstu henni alltaf vel. Þar bað hún ekki "að heilsa öllum", heldur taldi upp hvern einasta einstakling, hvert einasta nafn, því að henni þótti vænt um hvern og einn sérstaklega.

Dagbjört var einstök sál. Hún var umfram allt stór kærleiksbangsi, því að hún hugsaði alltaf um aðra umfram sjálfa sig. Hún var sígefandi, bæði andlega og veraldlega, alltaf að hjálpa öðrum og hugsa um aðra. Og gjafirnar voru aldrei ein í einu, heldur margar, því að aldrei þótti henni nógu vel gert við vini sína og fjölskyldu. Hún reyndist mér ómetanleg á erfiðum stundum og þann kærleik og vináttu fæ ég aldrei fullþakkað.

Einurð Dagbjartar lýsti sér með ýmsum hætti. Þegar tengdafaðir minn dó fór hún að gefa mér alls kyns gjafir sem ég skildi ekki hvað áttu að fyrirstilla. Fyrsta árið svarthvítan fótbolta og þá hélt ég að væri farið að slá út í fyrir vinkonu minni. Næsta ár kom KR-húfa, svo KR-trefill og þar með var ljóst að hún hafði ákveðið að taka við því starfi af föður sínum að gera mig að KR-ingi, og það hlutverk tók hún alvarlega.

Guðirnir leggja mest á þá sem þeim þykir vænst um og Dagbjört fékk sinn skerf af erfiðleikum í lífinu. Sjúkdómurinn sem við áttum sameiginlegan varð henni þungur í skauti, en ólíkt flestum öðrum var Dagbjört aldrei reið eða sár yfir því sem á undan hafði gengið. Hún leit aldrei um öxl, heldur horfði áfram og hélt áfram sínu lífi. Hún hallmælti heldur aldrei nokkrum manni eða tók þátt í slæmu umtali. Og ólíkt mörgum öðrum sem þannig er ástatt fyrir hélt hún alltaf sambandi við gömlu vinina, sem voru margir og góðir og henni þótti vænt um.

Við Dagbjört vorum saman á Vogi, hvort í sinni grúppunni eins og kallað er, en töluðum auðvitað mikið saman. Fólk tók eftir þessum vinskap okkar og fljótlega fór fólk úr hennar grúppu að koma til mín og spyrja hvort hún hefði virkilega lent í öllum þeim hremmingum, sem hún sagði frá í grúppunni þeirra. Fólk trúði varla þeim lýsingum, en þó hefur Dagbjört örugglega dregið úr þeirri ótrúlegu sögu allri frekar en hitt. Það var ævintýralegt lífshlaup.

En hún var full æðruleysis gagnvart óláni sínu. Ég man að við vorum eitt sinn á heimleið af AA-fundi þegar hún sagði upp úr eins manns hljóði: "Heyrðu, Bjarni minn, þeir eru varla byrjaðir að drekka, þeir sem eru með okkur á fundum." Þannig upplifði hún samanburðinn við sitt eigið líf, en svo var það ekki frekar rætt.

Hin seinni árin náði Dagbjört betra jafnvægi í lífi sínu, sérstaklega eftir að hún kynntist Gúnda, sem hefur verið henni mjög góður og traustur. Sama má segja um aldavin hennar, Gísla, sem sýndi henni mikla alúð og virðingu í veikindum hennar.

Dagbjört lék sérstakt hlutverk í fjölskyldu minni; ekki einasta var hún fyrsta unglingsskotið mitt, heldur var hún æskuvinkona fyrri konu minnar, Jennýjar, og systir núverandi konu minnar, Herdísar. Dætur mínar, Katrín og Bjarney, voru miklar vinkonur hennar og nutu örlætis hennar, vináttu og kærleiks alla tíð enda var ekkert kynslóðabil til hjá Dagbjörtu.

Ég hef stundum sagt að ef Dagbjört hefði aldrei smakkað vín hefði hún örugglega orðið einn af máttarstólpum samfélagsins. Og ég kann ekki að lýsa því betur en svo, að hún er besti meðkokkur í jólasteikinni sem ég hef haft.

Í þeim jólaveislum verður nú mikið tómarúm. Hennar verður sárt saknað, en þeim söknuði fylgir einlægur hlýhugur og væntumþykja.

Dagbjört dó með mikilli reisn, ekki úr sjúkdómnum sem setti mark sitt á líf hennar, heldur krabbameini. Undir lokin sagði hún við systur sína að jarðarfarir væru svo erfiðar fyrir eftirlifendur að hún vildi verða jörðuð í kyrrþey. Meira að segja undir lokin var hún að hugsa um fólkið sitt - hún vildi ekki leggja of mikið á það.

Ég bið systkinum Dagbjartar og sonum styrks í sorginni.

Bjarni Geir Alfreðsson.

Elsku besta frænka mín. Elsku Dagbjört mín, við höfum átt margar góðar og skemmtilegar stundir saman. Þú varst alltaf svo góð við alla og varst alltaf að gefa öllum eitthvað.

Þegar ég var lítil passaðirðu mig oft, sem mér þótti alveg ofsalega gaman. Við vorum mjög oft saman og gerðum margt skemmtilegt. Við fórum líka nokkrum sinnum út á land, t.d. þegar við fórum til Vopnafjarðar sumarið 2004, þá var alveg rosalega gaman hjá okkur.

En það sem mér fannst skemmtilegast var þegar við fórum saman í Bláa lónið í ágúst árið 2005 og Gúndi kom með okkur, það var rosalega gaman þá.

Þar varstu orðin smá veik og læknarnir sögðu að þú værir með blóðtappa og að það væri mjög líklega hægt að laga það.

Ég var rosalega hrædd um þig þá og bað fyrir þér á hverju einasta kvöldi, og ég fór oft til þín í heimsókn með mömmu og pabba.

Ég man þegar þér fannst maturinn á spítalanum ótrúlega vondur og þú pantaðir þér bara pitsu, sniðug varstu þá.

Svo kom í ljós að þetta var ekki blóðtappi sem þú varst með, heldur var það krabbamein. Þegar ég fékk þá frétt brá mér ofsalega mikið og brast þá í grát. Ég bað oft fyrir þér og fór oft með mömmu í heimsókn til þín.

2. nóvember þá áttirðu 55 ára afmæli og var það haldið heima hjá mér. Það var gaman og það komu margir vinir þínir og fjölskyldan líka.

Svo var talið að það væri komið að lokum en allt í einu hættirðu við að fara. Við mamma komum til þín og þá gastu borðað, talað og hreyft þig, sem var ofsalega gaman, ég grét meira að segja af gleði.

Svo var komið að því að þú fórst 26. nóvember. Mamma fór til þín snemma um morguninn og var hjá þér þegar þú fórst frá þessum heimi.

Pabbi kom upp til mín um morguninn og sagði mér að þú værir farin, og ég grét og grét.

Við pabbi fórum svo til þín og kvöddum þig ásamt fjölskyldunni og vinum, sem var alveg ofsalega erfitt.

Mamma fór með mér inn í herbergið til þín að kveðja þig fyrir fullt og allt, þú varst svo falleg og friðsæl þegar ég sá þig að ég grét og grét.

Þú ert uppáhalds frænka mín og munt alltaf vera það. Þú átt mjög stóran stað í hjarta mínu og ég mun aldrei gleyma þér, elsku besta Dagbjört mín. Þín verður sárt saknað, elsku engillinn minn.

Láttu þér líða vel þarna uppi, og, Guð, passaðu hana vel.

Bjarney Bjarnadóttir.

Hún er falleg myndin sem ég á í minningunni af vinkonu minni Dagbjörtu Björnsdóttur, þegar hún kom unglingur til Vestmannaeyja til að vinna í fiski. Við vorum á líku reki og tókst með okkur góð vinátta, sem stóð upp frá því.

Hún var þá strax og alltaf síðan einstaklega vel gerð manneskja, trú og traust og alltaf vinur í raun og má segja að hún hafi mest lifað fyrir aðra og reyndist öllum vel og var alla tíð einstaklega hjálpsöm.

Dagbjört bjó lengi í Bandaríkjunum með manni sínum, Wesley S. Kemp, og eignuðust þau tvo syni, Leon og Joe. Eftir að leiðir þeirra skildu flutti Dagbjört aftur heim til Íslands og fékk þá vinátta okkar nýtt líf.

Sem fyrr var Dagbjört sannur vinur og reyndist mér bjargvættur þegar dimmviðrið var sem mest í mínu lífi og átti þátt í að mér tókst að þræða rétta braut og ganga til móts við ljósið. Sú skuld verður aldrei að fullu greidd.

Dagbjört greindist með krabbamein í liðnum júlímánuði og fljótt varð ljóst hvert stefndi. Hún tókst á við sjúkdóminn vonda með sama æðruleysi og hugrekki og hún hafði mætt öðru mótlæti í lífi sínu. Reisn, kjarkur og hetjulund fylgdu henni til hinstu stundar.

Margir reyndust Dagbjörtu vel á lokakaflanum, einkum sambýlismaður hennar Guðmundur Sigursteinsson og synir hennar sem komu frá Bandaríkjunum til að vera hjá móður sinni. Systkini hennar, Einar og Herdís, og Bjarni Alfreðsson mágur hennar sýndu henni mikla ræktarsemi og elsku og vildu allt fyrir Dagbjörtu gera.

Líf okkar verður fyrir miklum áhrifum frá því fólki sem við mætum á lífsleiðinni. Dagbjört sýndi með lífi sínu bæði mér og öðrum sem þekktu hana að sönn gleði verður tærust, þegar maður hjálpar náunga sínum.

Í mínum huga var Dagbjört ein af hetjum samtímans og í þeirri röð gekk hún ekki aftast, ekki fyrir miðju, hún var heldur ekki næstfremst. Hún var fánaberi og fór fremst.

Ég er þess viss að Dagbjört er líka í fararbroddi á nýjum og betri stað og hefur þegar hafist handa við að hjálpa, gleðja og sinna öðrum - á stað sem hentar henni betur og er henni samboðinn.

Vertu sæl, vinkona.

Gísli Ásmundsson.

Fyrir rúmum fimm árum sátum við fjórar æskuvinkonurnar saman nýkomnar úr jarðarför vinkonu og skólasystur. Nú sitjum við hér þrjár á sama kaffihúsi og minnumst þín, elsku Dallý.

Að hafa þekkt þig frá unglingsárum og sumar frá Ísaksskóla var sérlega skemmtilegt enda varst þú litríkur persónuleiki.

Alltaf vorum við velkomnar í Þverholtið til þín á unglingsárunum þótt herbergið undir súðinni hafi ekki verið stórt. Stutt var í hláturinn enda margt brallað og mikið hlegið að uppátækjum gærdagsins og lagt á ráðin um þann næsta.

Fáir hafa lifað jafnlitríka ævi sem þú enda varstu fljót að leggja land undir fót, fyrst til Vestmannaeyja og síðan hinnar stóru Ameríku. Ferðin átti að taka eitt ár, en þau urðu miklu miklu fleiri enda kynntist þú fyrrverandi manni þínum þar, settir upp heimili í Flórída og eignaðist tvo yndislega og fallega drengi, Leon og Joe.

Ógleymanlegar eru heimsóknir þínar til gamla Fróns og var þín beðið með mikilli eftirvæntingu. Okkur leið alltaf eins og við hefðum hist daginn áður þótt Atlantshafið hafi skilið.

Frásagnarhæfni þín var svo sannarlega skemmtileg enda komstu víða við, t.d. á fyrstu Woodstock-hátíðinni og eftir því sem við best vitum varst þú, Dallý, önnur af tveimur Íslendingum sem voru viðstaddir þann stórviðburð sögunnar. Ævihlaup þitt væri svo sannarlega efni í eina ef ekki tvær bækur, sem fæstir mundu geta lagt frá sér eftir að lestur væri hafinn.

Elsku vinkona, þú áttir stóran vinahóp sem við þekkjum ekki allan, en ósjaldan minntist þú á Gísla stórvin þinn sem ávallt stóð með þér í blíðu og stríðu og eigi hann bestu þakkir fyrir það. Við vitum fyrir víst að þú hefur endurgoldið þá vináttu.

Elsku Dallý, þú verður alltaf í huga okkar sem einstakur vinur, trygglyndi þitt, skemmtilegi hási hláturinn og orðheppni þín enda varstu skörp og mikill bókaormur. Yfir þér hvíldi alltaf mikil ró og æðruleysi og aldrei nokkurn tímann höfum við heyrt þig hallmæla nokkurri sálu enda hefði það verið langt fyrir neðan virðingu þína.

Elsku Leon, Joe, Gúndi og fjölskylda. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum sem alltaf.

Guð, gef mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Æðruleysisbænin.)

Hvíldu í friði, elsku vinkona.

Þínar vinkonur,

Helga, Jenný, Lilja.

Elsku Dagbjört, eða Dallý eins og þú vildir láta kalla þig. Þú barðist eins og hetja í gegnum lífið og öll þín veikindi, og fjölskylda þín hefur staðið við hlið þér.

Þú varst hugur allra manna. Þú varst alltaf tilbúin til þess að hjálpa vinum þínum, sama hvernig þér leið. Við þökkum þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur.

Hún er sem viti lífs á leiðum

er logar stillt og rótt,

og vegamerki á háum heiðum

og himnaljós um nótt.

Hún mýkir djúpu mannlífssárin,

hún mildar heitu, stríðu sorgartárin,

hún glæðir vonir, gefur þrótt

og gjörir bjarta dauðans nótt.

Ég bið að ég láti vilja minn

lúta vilja guðs.

Ég bið að ég njóti handleiðslu í dag

svo ég viti hvers guð ætlast af mér.

Við vottum fjölskyldu þinni og sambýlismanni innilega samúð okkar:

Sólveig Andrésdóttir

og Vigfús Birgisson.

Okkur systkinin langar að kveðja þig, elsku Dallý, með nokkrum fátæklegum orðum.

Þú varst sannur vinur sem hiklaust lagðir lykkju á leið þína til að koma vinum þínum til hjálpar með alla þá hlýju og kærleik sem Guð blessaði þig með og aldrei heyrðum við þig barma þér, þó oft hafi okkur fundist ástæða til.

Þú kenndir okkur dýrmæta lexíu sem er: Að við erum öll jafningjar, okkur ber að standa saman og að fegurðin kemur frá hjartanu. Það var sama hvernig vindar lífsins blésu, þá lést þú aldrei neinn svipta þig náungakærleiknum.

Þúsund þakkir, elsku Dallý, ljós þitt mun lifa og lýsa og erum við ríkari fyrir.

Sendum fjölskyldunni allri sem og vinum innilegustu samúðarkveðju okkar.

Elís Helgi og Jenný.