[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is Kristín Bjarnadóttir, skáld og leikkona með meiru, lifir og hrærist í tangóheiminum. Hún hefur dansað á ófáum "milongum" í Buenos Aires þar sem tangóinn á uppruna sinn.
Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is

Kristín Bjarnadóttir, skáld og leikkona með meiru, lifir og hrærist í tangóheiminum. Hún hefur dansað á ófáum "milongum" í Buenos Aires þar sem tangóinn á uppruna sinn. "Tangó er stór hluti af lífi mínu, kemur að mér úr ólíkum áttum og fyllir oft upp í hvern krók og kima," segir Kristín innan um danstímarit, tölvu, bækur, myndir og veggspjöld á heimili sínu í Gautaborg þar sem hún hefur búið frá árinu 1990.

Bók um tangó

"Heimsins besti tangóari er heitið á nýrri bók sem Kristín sendi nýverið frá sér en vettvangur sögunnar er einmitt Buenos Aires og tangóstaðirnir þar. Bókin er bæði á íslensku og spænsku í sama eintaki og er það viðeigandi þar sem margir sem hafa áhuga á tangó hafa líka áhuga á spænsku, eins og Kristín bendir á. Spænska heitið er El mejor tanguero del mundo en Kristinn R. Ólafsson þýddi.

Kristín hefur skri fað um dans undanfarin ár, ljóð, frásagnir og hugleiðingar, og birt texta í tímaritum bæði á Íslandi og í Svíþjóð en fannst kominn tími til að senda frá sér eitthvað í bókarformi. "Mér fannst þessi litla saga fínt upphaf, aðgengileg kynning á því sem ég er að fást við, kynning á tangóheiminum. Bókin virkar eins og sambland af skáldskap og fræðslugrein um tangó. Kristín er bara ánægð með þá upplifun lesanda. "Ég er að lýsa ákveðnum menningarheimi þar sem sú er söguna segir er gestur og hefur þurft að laga sig að nýjum umgengnisreglum og ég vil alls ekki að lesandinn þurfi að hlaupa upp um alla veggi í leit að þýðingu á hugtökum tangóheimsins, hvað orð eins og milonga, tanda og cortina standa fyrir. Frekar að hann spyrjist fyrir um næstu milongu...ég vil að hinum óinnvígða finnist að hann gæti átt heima í þessum leik. Já, líklega blanda ég ólíkum aðferðum þegar ég þarf. Ljóðin mín verða stundum eins og leikrit eða sendibréf og mér finnst þau ekki hætta að vera ljóð fyrir því. Prósinn rúmar að mínu viti sagnfræði, heimspeki, landafræði, ást...hvað sem hann vill og þarf í sömu sögu. En ég held það sé engin sérstök hilla í búðunum fyrir fagurbókmenntir sem ekki eru skáldskapur. Þetta minnir mig á að ég gaf söguna út sem skáldskap en svo þegar hún fór í búðir þá flaug hún upp í hillu með ljóðum í einni og fræðibókum í annarri. Ég vakti athygli á þessu og var þá spurð hvort hún væri skáldsaga og mér fannst eitthvað flott að hafa hana með fræðibókunum svo ég svaraði, já, en það er allt satt sem stendur í henni.

Tangó býr yfir aðdráttarafli

Kristín kynntist argentínskum tangó fyrst fyrir alvöru þegar hún sá sýningu í Danmörku árið 1992 þar sem saga tangósins var sögð í tónum og dansi. Þá komst hún á bragðið og vissi að þetta yrði hennar dans. Það tók tíma að finna kennara en hún tók sín fyrstu alvöru tangóspor fyrir níu árum og tveimur árum seinna gat hún ekki lengur hugsað sér lífið án tangós. "Mér hefur alltaf þótt lífsnauðsynlegt að dansa en tangóinn býr yfir aðdráttarafli sem ég hef ekki kynnst í öðrum pardönsum. Kannski af því drunginn fær að vera með og treginn að kallast á við gáskann, auðmýktin við stoltið. Tónlistin með öllum sínum ólíku höfundum nær yfir svo breitt tilfinningasvið og dansinn er alltaf að leitast við að tjá þessa breidd. Það er auðvelt að verða háð honum því hann veldur sífelldum á rekstrum, einhverri hindrun sem tekur tíma að læra á. Stundum held ég að hindrunin sé í þeim sem ég dansa við, langar til að dansa við eða vil ekki dansa við og fyrr eða seinna átta ég mig á hvernig ég bý hana til. Þannig séð er dansinn sjálfskönnun um leið og hann getur verið mjög ríkur í sinni orðlausu tjáningu. Enda vinsæll líka sem sviðsdans."

Á sviðinu í Iðnó

Kristín kom síðast til Íslands í ágúst ásamt argentínska tangótónskáldinu Carlos Quilici sem lék á bandóneon, argentínskt hljóðfæri sem líkist harmónikku. "Við vorum með sameiginlega dagskrá í Norræna húsinu, einleik á bandóneon og ljóð fyrir skemmtilega blandaðan hlustendahóp; bókmenntafólk, tónlistar- og tangóáhugafólk og fleiri. Svo brilleraði Carlos aftur á menningarnótt og ég naut þess líka að vera með honum á sviðinu í Iðnó um kvöldið. Þá vorum við orðin fjögur því Hany Hadaya og Bryndís Halldórsdóttir voru með okkur á sviðinu og dönsuðu. Þetta var svona draumadagskrá sem varð að raunveruleika þarna, samsetningin ljóð, tónlist og dans. Tangóhátíð er orðinn árviss viðburður á íslensku hausti en bók Kristínar kom einmitt út í tengslum við síðustu hátíð og er tileinkuð íslensku tangófólki. Kristín bendir á að Íslendingar séu ætíð fljótir til og tileinki sér nýjustu strauma og stefnur í hverju sem er, líka tangó. Nýja tangóbylgjan, þ.e. endurreisn argentínska tangósins, átti sér upphaf árið 1983 með sýningunni Tango Argentino sem var frumsýnd í París og sló í gegn. "Hafdís í Kramhúsinu var nú ekki sein að taka til sín nýju tangóbylgjuna, og með Hany Hadaya og Bryndísi Halldórs komst kennsla í argentínskum tangó í traust horf. Þau eru ótrúleg, gæta þess alltaf að ferðast til að mennta sig, ná í það nýjasta og bjóða upp á það besta. Og svo Tangóhátíðin! Ekkert smá skemmtilegt dæmi," segir Kristín sem sjálf kemur árlega til Íslands, fer á tangóböll og -hátíðir eða sest við tölvuna, hvort tveggja er góður tjáningarmáti fyrir hana, hvar sem hún er stödd.

* Milonga = tangódansleikur

* Tanda = fjögurra laga syrpa

* Cortina = hlé eftir töndu

Síðasta tangóballið fyrir jól verður haldið í Iðnó í kvöld, þriðjudagskvöldið 6. desember, og þar verður bók Kristínar til sölu.

Leiðrétting 9. desember - Fleiri tangóböll

Missagt var í grein um nýja bók Kristínar Bjarnadóttur á þriðjudag að síðasta tangóballið fyrir jól yrði haldið þriðjudagskvöldið 6. desember.

Hið rétta er að þá var síðasta tangóballið í Iðnó fyrir jól.

Tangóböll eru haldin á hverju miðvikudagskvöldi á Café Cultura í Alþjóðahúsinu.

www.tango.is