Suðurland | Menntun og nýsköpun var til umræðu á fundi sem Samfylkingarfélag Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu stóð fyrir nýlega.
Suðurland | Menntun og nýsköpun var til umræðu á fundi sem Samfylkingarfélag Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu stóð fyrir nýlega.

Rætt var um stöðu héraðsins í atvinnu og skólamálum, nauðsyn aukinnar menntunar til að bæta afkomu fólks og til að dragast ekki aftur úr í þjóðfélagi, sem tekur örum breytingum. Nýleg könnun Byggðastofnunar telur meðallaun í héraðinu 26% undir landsmeðaltali. Einnig var rætt um möguleika á uppbyggingu menntastofnana og nýjum atvinnutækifærum sem byggðust á menntun.

Rætt var um uppbyggingu menntaskóla á svæðinu og möguleika á háskólanámi. Fræðasetur hafa margfeldisáhrif í atvinnuuppbyggingu. Skynsamlegt er að byggja á sérstöðu og sérþekkingu í héraðinu, sem er m.a. landgræðsla, matvælaframleiðsla, hestamennska, ferðamennska, söguslóðir, einstæð náttúra o.fl.

Alþjóðlegt fræðasetur á sviði landgræðslu og jarðvegsverndar í Gunnarsholti þykir spennandi og raunhæfur kostur, en þar hefur byggst upp mikil þekking á þessum sviðum. Fræðasetur í Njálufræðum mætti byggja upp í Odda.