Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Fram, sækir hér í leik gegn ÍR, þar sem Tryggvi Haraldsson er til varnar.
Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Fram, sækir hér í leik gegn ÍR, þar sem Tryggvi Haraldsson er til varnar. — Morgunblaðið/Ómar
LEIKIR átta liða úrslita bikarkeppni karla í handknattleik fara fram í kvöld og annað kvöld, tveir leikir hvort kvöld. Í kvöld mætast Fram og Fylkir á heimavelli Fram í Safamýri og HK fær Íslandsmeistara Hauka í heimsókn í Digranes.

LEIKIR átta liða úrslita bikarkeppni karla í handknattleik fara fram í kvöld og annað kvöld, tveir leikir hvort kvöld. Í kvöld mætast Fram og Fylkir á heimavelli Fram í Safamýri og HK fær Íslandsmeistara Hauka í heimsókn í Digranes. Annað kvöld heldur Stjarnan norður yfir heiðar og mætir Þór á Akureyri á sama tíma og FH telur á móti ÍBV í Kaplakrika. Reynir Stefánsson, þjálfari KA, rýndi aðeins í leikina fyrir Morgunblaðið.

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is
Viðureign Fram og Fylkis er sennilega aðalleikur átta liða úrslitanna," segir Reynir. "Bæði lið hafa komið verulega á óvart í deildinni. Fylkismenn hafa ekki tapað fimm leikjum í röð og eru komnir í hóp efstu liða. Ég held samt sem áður að Fram hafi betur að þessu sinni og þar ráði heimavöllurinn úrslitum, ef svo má segja.

Framliðið leikur afar agaðan leik undir stjórn Guðmundar Guðmundsson. Fylkisliðið er skipað baráttumönnum sem gefa lítið eftir. Þrátt fyrir það er mín spá sú að Fram vinni með einu marki í framlengdum leik og þar muni reynsla Guðmundar þjálfara skipta miklu máli," sagði Reynir.

Íslandsmeistarar Hauka sækja bikarmeistara ársins 2003, HK, heim í Digranes. Miklar breytingar hafa átt sér stað á liði HK á fáeinum árum og fáir leikmenn liðsins nú voru í eldlínunni þegar það varð bikarmeistari fyrir tæpum þremur árum. Reynir segir HK hafa valdið vonbrigðum á leiktíðinni og því sé bikarkeppnin e.t.v. síðasti möguleiki liðsins til þess að reka af sér slyðruorðið. Hann reiknar því með að HK leggi Íslandsmeistaralið Hauka og tryggi sér sæti í undanúrslitum. "HK vinnur í miklum markaleik. Það er einhver doði yfir Haukum um þessar mundir og það mun koma niður á þeim í þessum leik," segir Reynir.

Annað kvöld tekur Þór á móti Stjörnunni í íþróttahöllinni á Akureyri. Reynir er ekki bjartsýnn fyrir hönd sveitunga sinna. "Ég tel Stjörnuliðið vera sterkara og að það verði aðeins of stór biti fyrir Þór. Þórsarar hafa verið hálfdaufir upp á síðkastið í deildinni. Eigi að síður hafa þeir verið með yfirlýsingar uppi um að þeir ætli sér langt í bikarkeppninni. Ég tel því miður fyrir þeirra hönd að sú verði ekki raunin. Til þess sé Stjörnuliðið of sterkt."

Eyjamenn með skemmtileg lið

Reynir telur að ÍBV muni sækja sigur til Hafnarfjarðar annað kvöld þegar liðið sækir FH heim í Kaplakrika. "Lið ÍBV er skemmtilegt en hefur reyndar ekki vegnað sem best á útivelli í vetur. Leikmenn liðsins vita hins vegar vel út á hvað leikir sem þessi ganga og ég tel því að þeir hafi betur að þessu sinni í heimsókn sinni í Hafnarfjörðinn," segir Reynir Stefánsson, þjálfari handknattleiksliðs KA á Akureyri.