Geir H. Haarde
Geir H. Haarde
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is VIÐRÆÐUR milli Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli munu hefjast á nýjan leik á næstu mánuðum.
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is
VIÐRÆÐUR milli Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli munu hefjast á nýjan leik á næstu mánuðum. Bandaríkin munu eiga frumkvæði að því að viðræður hefjist á ný, en þær hafa legið niðri síðan í október. Þetta var niðurstaðan af fundi Geirs H. Haarde utanríkisráðherra og Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra, sem fer með pólitísk málefni í bandaríska utanríkisráðuneytinu í gær, en fundurinn fór fram að ósk Bandaríkjanna í Ljubljana í Slóveníu þar sem fram fer ráðherrafundur ÖSE.

Geir sagði að á fundinum hefði verið farið yfir næstu skref í varnarviðræðunum og niðurstaðan hefði verið sú að koma þeim í farveg á nýjan leik og Bandaríkin myndu stíga fyrsta skrefið í þeim efnum. "Það er öllum ljóst að það eru hagsmunir beggja landanna og reyndar allra NATO-landa að hraða viðræðunum og það er engum í hag að gera það ekki," sagði Geir aðspurður hvenær viðræður gætu hafist að nýju.

Hann benti jafnframt á að svona hlutir tækju sinn tíma í bandaríska stjórnkerfinu og því erfitt að fullyrða hvenær viðræður hæfust, en ljóst að þar væri alla vega um nokkrar vikur að ræða.

Geir sagði að það hefði verið ríkjandi ákveðið tómarúm varðandi þessar viðræður eftir málalyktirnar í október. Nú væri málið komið í ákveðinn farveg og Bandaríkjamenn myndu eiga frumkvæði að því að hefja viðæður að nýju. "Ég tel að þessi fundur hafi verið mjög jákvæður," sagði Geir.

Hann sagði að Burns hefði undirstrikað það mjög ákveðið að það vekti ekkert annað fyrir Bandaríkjunum en að standa við varnarsamninginn frá 1951. Geir sagði að hann hefði mikla sérstöðu hjá Bandaríkjamönnum og þeir litu á hann sem alþjóðlega skuldbindingu sem þeim bæri að virða.

Afgerandi yfirlýsing

Geir sagði að í lok fundarins með Burns hefði hann tekið upp meint ólögmætt fangaflug Bandaríkjanna um íslenskt yfirráðsvæði. Burns hefði vísað til yfirlýsingar Condoleezzu Rice, sem þá var væntanleg, vegna fyrirspurna ýmissa landa, þar á meðal Íslands. Sú yfirlýsing fyrir hönd Bandaríkjastjórnar væri komin og "ég tel að hún sé mjög afgerandi og svari þeim spurningum sem við höfum haft í þessum efnum. Þar með tel ég að það sé kominn ákveðinn botn í það mál,"