Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Eftir Guðna Th. Jóhannesson: "...að sumt í Reykjavíkurbréfinu kallar á nýjar spurningar og svo vekur það einnig talsverða athygli, jafnvel undrun, hvað var alls ekki fjallað um."

ÞAÐ GERIST víst ekki oft að heilu Reykjavíkurbréfi sé varið í umfjöllun um eina bók eins og nú hefur gerst í tvígang undanfarnar helgar. Síðastliðinn sunnudag var rætt um Hugsjónaeld, hina stórmerku bók Sólveigar Einarsdóttur um föður sinn, Einar Olgeirsson, og sunnudaginn þar á undan skrifaði höfundur Reykjavíkurbréfs um nýtt verk mitt, Völundarhús valdsins, sem fjallar um stjórnarmyndanir og stöðu forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns. Ýmislegt gott og gagnlegt var þar sagt um bókina og því mætti jafnvel kalla það kjánalega óskammfeilni að leita eftir frekari viðbrögðum við henni. Þá freistingu var þó ekki hægt að standast vegna þess að sumt í Reykjavíkurbréfinu kallar á nýjar spurningar og svo vekur það einnig talsverða athygli, jafnvel undrun, hvað var alls ekki fjallað um.

Fyrst skal það nefnt að höfundur Reykjavíkurbréfsins segir að því megi halda fram að Kristján Eldjárn komist nálægt því að gera "beinlínis meira úr sínum hlut en efni standa til". Þótt dagbækur Kristjáns og segulbönd séu ómetanlegar heimildir um eina mestu umbrotatíma íslenskrar stjórnmálasögu þá er þetta mat á misskilningi byggt. Oft er Kristján Eldjárn sögumaður frekar en söguhetja og ég fæ hvergi séð að hann reyni að ýkja eigið mikilvægi, enda hefði fátt verið fjær honum eins og ritstjórar Morgunblaðsins í forsetatíð hans vita örugglega mjög vel. Þar að auki staðfesta gögn Kristjáns það sem aðeins hefur verið hægt að fjalla lauslega um áður, til dæmis á síðum þessa blaðs, að hann var tvisvar kominn á fremsta hlunn með að mynda utanþingsstjórnir. Og þau staðfesta líka að forseti getur haft mikil pólitísk völd í stjórnarmyndunarviðræðum; "úrslitaorð um hin allra mikilvægustu efni", eins og Bjarni Benediktsson sagði um miðja síðustu öld. Mér sýnist Morgunblaðið í stuttu máli ganga fulllangt í því að gera sem allra minnst úr pólitísku hlutverki forsetaembættisins, hvernig sem á því kann að standa.

Í bókinni er rakin saga þingrofsins árið 1974 og verður ekki sagt að það hafi áður verið gert svo rækilega. Nú má því til dæmis spyrja hvað Morgunblaðinu þyki um þá eindregnu ósk eða kröfu Hannibals Valdimarssonar, Gylfa Þ. Gíslasonar og Geirs Hallgrímssonar, sem lýst er í bókinni, að forseti neiti að verða við þingrofsbeiðni Ólafs Jóhannessonar? - Kröfu sem Kristján Eldjárn vísaði á bug með þeim orðum að "forseti gæti ekki með nokkru móti brugðið fæti fyrir forsætisráðherra nema með því að steypa sér og embætti sínu í ógurlegan háska og trufla stórkostlega allan gang stjórnmálanna". Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, áleit greinilega um þessar mundir að forseti ætti að leggja pólitískt mat á beiðni forsætisráðherra, og hafna henni. Styður Morgunblaðið þá túlkun Geirs á stjórnarskránni og stöðu forseta gagnvart forsætisráðherra?

Í Reykjavíkurbréfinu er ekkert að finna um þann hluta bókarinnar þar sem Morgunblaðið sjálft er í brennidepli. Sumarið 1978 varaði blaðið forseta við því að veita Alþýðubandalaginu stjórnarmyndunarumboð undir forystu Lúðvíks Jósepssonar - eða "afhenda kommúnistadeildinni á Norðfirði stjórn Íslands" eins og blaðið komst að orði. Í bókinni kemur fram að svo mætir menn sem Baldur Möller, Jóhannes Nordal og jafnvel Geir Hallgrímsson studdu eða voru ekki andvígir þessari ákvörðun Kristjáns Eldjárns. "Það var svo ríkt í huga Kristjáns", er haft eftir Jóhannesi, "að með því að ganga fram hjá Lúðvík einum til að reyna stjórnarmyndun væri hann að taka pólitíska ákvörðun og mismuna mönnum". Því verður að spyrja hvort Morgunblaðið sé enn þeirrar skoðunar að sumarið 1978 hefði forseti ekki átt að veita formanni Alþýðubandalags stjórnarmyndunarumboð? Og ef ekki, hvað forseti hefði þá átt að gera? Var það ekki í raun misráðið af Morgunblaðinu að krefjast þess að einn flokkur, næststærsti flokkurinn á þingi, ætti hreint ekki að sitja við sama borð og aðrir? Ég veit að Morgunblaðið hefur þau svör á reiðum höndum að "ungir sagnfræðingar" geti ekki skilið þann hita kalda stríðsins sem réð afstöðu blaðsins. En hvað voru Baldur Möller og Jóhannes Nordal þá að hugsa? Ekki voru þeir ungir sagnfræðingar!

Í Reykjavíkurbréfinu segir að í bókinni sé mikinn fróðleik að finna um stjórnarmyndanirnar 1971 og 1980, "en í sjálfu sér engin ný tíðindi". Hér sýnist mér mælikvarðinn vera sá að þar sem höfundur bréfsins veit manna mest um gang stjórnmálanna á þessum árum komi honum fátt eða ekkert á óvart. Kannski væri sanngjarnara að hafa aðra en þann mikla viskubrunn til hliðsjónar í þessum efnum.

Um stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens er þó sagt í Reykjavíkurbréfinu að þar komi fram ein "söguleg uppljóstrun". Er þá vísað í þau orð Gunnars eftir kosningar árið 1974 að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur geti því aðeins myndað stjórn að Ólafur Jóhannesson eða Gunnar sjálfur, sem þá var varaformaður Sjálfstæðisflokks, verði í forsæti. Morgunblaðið hafi talið hin síðari ár að hugmyndir Gunnars um að mynda ríkisstjórn undir sínu forsæti hafi vaknað í nóvember 1979 en nú sé komið á daginn að það hafi verið í júlí 1974.

Ekki skal ég draga úr því að ummæli Gunnars Thoroddsens frá því ári eru fróðleg. Þau geta þó tæplega talist hin mikla uppljóstrun sem höfundur Reykjavíkurbréfs heldur fram. Í fyrsta lagi er beinlínis vitnað til þess í bókinni að í Valdatafli í Valhöll, bók Anders Hansens og Hreins Loftssonar sem kom út árið 1980, er svipaðra orða getið þótt þau séu að vísu ekki höfð beint eftir Gunnari þar. Í öðru lagi verður stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 ekki útskýrð með því einu að frá sumrinu 1974 hafi hann talið sjálfan sig hæfari í embætti forsætisráðherra en Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Vilji er allt sem þarf, sagði Gunnar eitt sinn á forsætisráðherrastóli en víst er að veturinn 1979-80 þurfti öðrum að mistakast að mynda stjórn áður en hann gæti látið til sín taka.

Morgunblaðið á vissulega það svar við slíkri röksemdafærslu að Geir Hallgrímsson hafi ekki getað náð samkomulagi við formenn annarra stjórnmálaflokka því þeir hafi frekar viljað vinna með Gunnari og kljúfa þannig Sjálfstæðisflokkinn. Þótt fram komi í bókinni að Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi vitað "alla skapaða hluti um intrígur Gunnars" eins og Kristján Eldjárn las inn á segulband sitt stenst kenning Morgunblaðsins ekki. Ætli blaðið engu að síður að halda henni til streitu þarf það helst að svara ýmsum spurningum:

Verður "leiftursóknin" fyrir desemberkosningarnar 1979 til dæmis ekki að teljast afskaplega misráðin, svo misráðin að hún hafi veikt stöðu Geirs Hallgrímssonar talsvert? Og heldur Morgunblaðið ekki að öllum öðrum en þeim, sem voru í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, finnist það stórtíðindi að forseti hefur eftir Geir Hallgrímssyni seint í janúar 1980 að Gunnar Thoroddsen sé með "ellióra" og standi í "einhverju brölti"; eftir Ólafi G. Einarssyni um svipað leyti að "ekki einn einasti þingmaður" muni fylgja Gunnari "út í þessa ævintýramennsku", og svo eftir Birni Bjarnasyni í febrúarbyrjun "að það væri töluvert mikil stemmning" meðal almennra sjálfstæðismanna fyrir stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens?

Mega það ekki líka teljast mistök hjá Geir Hallgrímssyni og helstu ráðgjöfum hans í stjórnarkreppnunni 1979-80 að binda vonir við þjóðstjórn sem nær enginn annar studdi, í stað þess að láta reyna til þrautar á hinar "sögulegu sættir" við Alþýðubandalagið sem Morgunblaðið mælti svo sterklega með? Hefði Geir ekki átt að þora það, rétt eins og Ólafur Thors þegar hann myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944 og þegar Bjarni Benediktsson lét í veðri vaka 1969-70, eins og rakið er í bókinni, að það væri "nú alla vega hægt að vinna með Lúðvík"? Í ársbyrjun 1980 virtist málum svo komið að meirihlutastjórn yrði því aðeins mynduð á Alþingi að Sjálfstæðisflokkur ynni með Alþýðubandalagi en eins og Kristján Eldjárn sagði um stöðu mála í Sjálfstæðisflokki: "Það hafa verið menn, harðlínumenn einhverjir í flokknum, sem hafa bara lamið í borðið og sagt: Við förum aldrei í stjórn með kommunum." Telur höfundur Reykjavíkurbréfs þetta rétt metið hjá forseta Íslands? Lá vandi Geirs Hallgrímssonar, þess mæta og varkára manns, kannski allt eins í þessu frekar en "brölti" Gunnars Thoroddsens sem hann vissi af og gerði svo lítið úr?

Svona mætti halda áfram en að síðustu skal þó þakkað af einlægni fyrir fögur orð um bókina og þann virðingarverða áhuga sem Morgunblaðið sýnir rannsóknum á Íslandssögunni. Og fyrst verið er að ræða um mistök skal ég fúslega líta í eigin barm hér í blálokin og benda á vonda innsláttarvillu í Völundarhúsinu þar sem óeirðirnar við Alþingishúsið 30. mars 1949 eru sagðar gerast degi síðar. Við gerum öll mistök á lífsleiðinni, líka Geir Hallgrímsson og Styrmir Gunnarsson.

Höfundur er sagnfræðingur.