Forngripur Eigandi kambsins fallega hefur væntanlega týnt honum í einhverju útihúsi að Útskálum í Garði.
Forngripur Eigandi kambsins fallega hefur væntanlega týnt honum í einhverju útihúsi að Útskálum í Garði. — Ljósmynd/Fornleifastofnun Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Garður | Vel varðveittur hárkambur frá því á tólftu öld hefur fundist við fornleifauppgröft við gamla prestbústaðinn á Útskálum í Garði. Ekki er vitað til þess að slíkur gripur hafi áður fundist hér á landi.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is

Garður | Vel varðveittur hárkambur frá því á tólftu öld hefur fundist við fornleifauppgröft við gamla prestbústaðinn á Útskálum í Garði. Ekki er vitað til þess að slíkur gripur hafi áður fundist hér á landi.

Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafa unnið að uppgreftri og rannsóknum á bæjarhólnum á Útskálum vegna undirbúnings framkvæmda sem fyrirhugaðar eru við Útskálahúsið á vegum Menningarsetursins að Útskálum. Hefur verið grafið í gegnum tvö mannvirki frá seinni öldum og niður í torfhús með vel varðveittu timbri sem gjóskulög tímasetja fyrir seinni hluta tólftu aldar. Uppgreftri þar er ekki lokið en líkur eru taldar á því að um einhverskonar útihús sé að ræða.

Kom á óvart

Ekki hefur fundist mikið af gripum við uppgröftinn, þar til í þessari viku að þar fannst í hruni í elsta mannvirkinu hárkambur úr beini. Guðrún Alda Gísladóttir, sem stjórnar rannsókninni, segir að kamburinn sé einstaklega vel varðveittur. Tennurnar eru fínar og nánast allar heilar. Þá er kamburinn fallega skreyttur með depilhringamunstri.

Guðrún telur að kamburinn sé innfluttur. "Við vitum ekki um að kambur af þessu tagi hafi fundist hér á landi. Til eru dæmi um svipaða kamba frá Noregi en þeir eiga að vera yngri, frá 13. öld," segir Guðrún Alda.

Vegna þess hversu fáir gripir hafa fundist við uppgröftinn kom fundur kambsins vísindamönnunum á óvart. "Þetta breytir ekki Íslandssögunni en bætir við hana," segir Guðrún um þýðingu fundarins. Kamburinn er moldugur en honum hefur nú verið komið í hreinsun og forvörslu hjá Þjóðminjasafni Íslands. "Við bíður spennt eftir að sjá gripinn þegar búið verður að hreinsa hann," segir Guðrún Alda.

Fornleifafræðingarnir eru að ljúka við rannsókn á elsta mannvirkinu í grunninum við Útskálahúsið og uppgreftri verður hætt að þeirri vinnu lokinni og þá hefst undirbúningur framkvæmda við sjálft húsið.