Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

BORGARSTJÓRINN í Reykjavík segir að þó að leikskóla- og grunnskólakennarar muni sjálfsagt miða við nýgerðan kjarasamning við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar við næstu samningagerð, séu hinir nýju samningar ekki þess eðlis að þeir setji samninga við þessar stéttir í uppnám. Ekki komi til greina að breyta núgildandi samningum við leikskólakennara þó að eðlilegt sé að þeir horfi til nýju samninganna, þegar samið verði við þá í október á næsta ári.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði ekki búist við harðri gagnrýni frá leikskólakennurum vegna samninganna. Hafa yrði í huga að langstærsti hópur ófaglærðra starfsmanna á leikskólum yrði áfram með lægri laun en leikskólakennarar og að aðeins væri um að ræða fá tilvik á leikskólum þar sem ófaglærðir fengju hærri laun en leikskólakennarar í sömu stöðu. Ýmist væri um að ræða ófaglærða starfsmenn með mikla starfsreynslu í deildarstjórastöðum eða háskólamenntaða starfsmenn leikskóla, sem væru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Steinnun Valdíst sagði verið væri að taka saman upplýsingar um þetta efni sem yrðu lagðar fyrir borgarráð um leið og atkvæðagreiðslu lýkur hjá félögunum.

Samið við stéttirnar á mismunandi tímum

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að samningarnir við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkur leiða m.a. til þess að 45 ára ófaglærður deildarstjóri verður með hærri laun en leikskólakennarar í sömu stöðu. Deildarstjóri sem er í starfsmannafélaginu verður einnig með hærri laun en leikskólakennari í sömu stöðu. Ef tekið er dæmi af 28 ára leikskólakennara með þriggja ára starfsreynslu verður hann með 179 þúsund á mánuði, ófaglærður starfsmaður Eflingar með 161 þúsund og starfsmaður í Starfsmannafélagi Reykjavíkur með 204 þúsund.

Í samtali við Morgunblaðið ítrekaði Steinunn Valdís að tvö helstu markmið borgarinnar hefðu náðst, þ.e. að hækka þá lægst launuðu og leiðrétta kynbundinn launamun. Spurð hvers vegna leikskólakennurum hefðu ekki verið boðnar sambærilegar kjarabætur, en þar væri um að ræða stétt sem telji sig ekki ofhaldna í launum og er að miklum meirihluta skipuð konum, sagði Steinunn Valdís að samningar við þá hefðu einfaldlega ekki verið lausir nú.

"Það er samið við stéttir á mismunandi tímum og þær setja fram misjafnar kröfur. Nú undanfarið höfum við setið undir því að erfitt hefur verið að manna störf sem ófaglærðir hafa sinnt, svo sem við heimaþjónustu og umönnun aldraðra," sagði hún. Samfélagið hefði kallað eftir því að við þessu yrði brugðist og það hefði Reykjavíkurborg nú gert.

Ekki hreyft við kjörum einstakra starfsmanna

Steinunn Valdís bætti við að sér hefði lengi fundist að laun þessara umönnunarstétta væru of lág og talið þörf á að þau yrðu hækkuð umfram önnur laun. Aðspurð hvort um stefnubreytingu væri að ræða af hálfu borgarinnar, sagði hún að það mætti kannski segja sem svo, en þetta væri þó fremur í takt við það sem samfélagið hefði kallað eftir.

Aðspurð hvort til greina kæmi að hækka laun leikskólakennara vegna samninganna við Eflingu og starfsmannafélagið, sagði hún að samningarnir væru ekki lausir en það væri eðlilegt að þeir litu til þessara samninga. Ekki væri heldur hreyft við kjörum einstaklinga á miðju samningstímabili, s.s. faglærðum deildarstjórum sem munu fá lægri laun en ófaglærðir. Þar að auki væri aðeins um fáa starfsmenn að ræða og þeir ófaglærðu starfsmenn sem fengju hærri laun en leikskólakennarar hefðu mikla starfsreynslu, en sú staðreynd hefði ekki komið nægilega skýrt fram.

Er tal um hækkun lægstu launa bara í nösunum á fólki?

Þá væri það marklaust að gagnrýna borgina fyrir að slíta sig frá launanefnd sveitarfélaganna í þessu máli, staðreyndin væri nefnilega sú að borgin hefði aldrei samið við starfsmenn innan Eflingar eða Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar í samfloti með hinum sveitarfélögunum. Aðspurð hvort borgin myndi semja við leik- og grunnskólakennara undir hatti launanefndarinnar næst, sagði Steinunn Valdís að miðað við umræðuna nú væri það umhugsunarefni.

Af viðbrögðum ýmissa við samningunum væri greinilegt að margir telji að það sé aldrei rétti tíminn til að hækka laun hinna lægstlaunuðu, ekki í þenslu, ekki í samdrætti og ekki þegar kosningar séu í nánd. "Því spyr maður sig hvort tal um hækkun lægstu launa sé bara í nösunum á fólki," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir.