HÆTTA!-hópurinn hefur kallað til rithöfunda í textalega upphitun undir tónleikana Ertu að verða náttúrulaus? með Björk, Sigur Rós og fleiri stórstjörnum 7. janúar. Kárahnjúkavirkjun er komin til að vera, með steypu á stærð við Esjuna og rosalegt lón. Við þetta hefur orðið vakning ... And-Esjan er komin í nýra landsins. Undur og stórmerki, allt í einu á að rokka og hætta að vera sama. Ég hef burðast með alhliða áhyggjur af geirfuglinum síðan ég var unglingur og er voða fegin að geta nú létt þeim af mér og látið lesendur taka hlut.
En fyrst ætla ég að finna til með þeim sem bera ábyrgðina. Orkan fyrir austan er hrein og verið að virkja hana til að framleiða ál í flugvélar sem allir nota, en stór náttúruspjöll eru eftir sem áður glæpur. Talað er um fórn og synd eftir á, eins og eftir að hraðbrautin var lögð yfir Vatnsmýrina í stað þess að setja hana í stokk. Við fórnum einstæðum auðnum og landi gæsa og hreindýra til þess að draga úr mengun orkufreks álvers annars staðar á jörðinni, sem er nú fallegt. Álver menga og gott er og gilt þannig séð að taka að sér hluta af skít heimsins á Reyðarfirði, því að við erum hluti af heiminum. Líka er gott að veita erlendum verkalýð vinnu, ekkert á móti því, né því að gera þjóðina ríkari og peppa upp fasteignir og móral á Austurlandi. Vandamál heimsins eru stór og málið marglitt frá öllum hliðum séð, þess vegna studdu stjórnmálamenn það. Það svíður samt undan sárinu við Kárahnjúka, því það skaðar ímynd landsins. Ekkert er þó að gera úr því að svona er komið nema lágmarka lýðræðisleg náttúruspjöll hér eftir. Það er ekki lítið.
Ímynd hinnar hreinu Fjallkonu sem ann tungu, landi og þjóð féll með styttunni af Maó og Stalín og það þýðir ekkert annað en aðlagast. Við erum hluti af hinum skítuga heimi, með útlenskan verkalýð, kvikasilfur í stórfiskinum og eðlilega skítuga tungu.
Rómantík 19. aldar sagði grófa, grimma og villta náttúruna fagra í sjálfri sér. Ísland varð þá allt í einu skilyrðislaust fallegt, ekki bara grænu blettirnir í góðu veðri. Síðan hefur í 150 ár verið póetískt rétt að elska auðnir Íslands og sjá í þeim fegurð. Pólitískt rétt hefur aftur á móti verið að láta fénað naga uppblásið land og hugsa um magann á sínu fólki. En nú eru fellibyljir orðnir óðir og vistkerfið við að tryllast. Alhliða umhyggja fyrir lífheimi og náttúru er orðin pólitísk nauðsyn. Rómantík er skyndilega ofan á því að það er vísindaleg staðreynd að við erfum skuggaveröld ef við verðum menn Saurons frekar en vinir álfanna. Við verðum því að vera með góða liðinu og bjarga heiminum.
Dýrkunin á steinaríkinu sem rómantísku skáldin vöktu upp þegar verið var að hanna í okkur þjóðernisvitund fól ekki í sér raunverulega umhyggju fyrir hinni dauðu náttúru, heldur var þjóðbygging í gangi. Ástin á dýrinu í kvæði Jónasar - þar sem samúðin er með rjúpunni sem kerlingin sýður - og umhyggjan í tímaritinu Dýravininum fyrir öld síðan var þó einlæg, en hefur fyrir löngu mátt víkja fyrir veiðimannatískubúðum og gróðahyggju í landbúnaði. Ef kýrin mjólkar ekki sem metfé er hún nú strax skorin. Skjóta mátti landnámsseli og útdeyða á stórum svæðum Breiðafjarðar því þeir voru taldir koma hringormi í þorsk, skjóta mátti krumma í heilum sveitum, öllum var sama. Tuddaskapur var við völd. Nú er að rokka og strokka smjörið og snúa við blaðinu. Taka rómantíkina alla leið því hún bjargar jörðinni. Rómantík er bara næmi og sönn fágun.
Eftir heimstyrjaldir kom aftur næm bylgja sem fól í sér ást á allri menningu og náttúru heimsins, ekki bara sinni eigin. Þetta er hugmyndafræði framtíðarinnar, dýrkun á sköpunarverkinu í heild sinni: Maðurinn er ekki eina miðja dýraríkisins, jörðin ekki eina miðja sólkerfisins, sólin ekki eina miðja alheimsins. Miðjan er alls staðar, líka í moskítóflugunni. Þetta nýja næmi afstæðrar miðju umhyggjunnar náði ekki að ganga í efnasamband við hraðsókn Íslendinga til velmegunar. Hugsjónin var útlensk og tilheyrði hér örlitlum hópi. En í framtíðinni verður grátið yfir hverjum einasta stað sem var eyðilagður og hverri einustu dýrategund sem gengið var illa í skrokk á eða útrýmt. Fjalakötturinn var endurbyggður í Aðalstræti sem framhlið eða leikmynd galtómur að innan. Íslendingar verða eins og aðrir að læra að vernda öll sín verðmæti. Við erum orðin nógu rík til að hafa efni á því að vera næm og gera skilyrðislaust rétt.
Háskaleg mengun, útrýming dýrategunda og skemmdir einstakra náttúruperlna er glæpur gagnvart sköpunarverkinu. Þetta er absolút viðmið sem allir viðurkenna. Einstein sagði að umhyggjan væri sterkasta aflið í manninum. Þegar hið nýja næmi afstæðrar miðju er komið á nær samlíðun yfir í dýraríki, jurtaríki og steinaríki. Þá verður ekki lengur hægt að menga, skjóta, skemma og meiða. Þetta er ekki lítið prógramm. Það er álíka stórt hugmyndafræðilega og upphaf æðri trúarbragða eða þjóðernisvæðingin. Hvort tveggja tókst heldur betur og þetta mun líka takast. Málið er í fullum gangi út um allan heim - rokkið gegn náttúruleysi 7. janúar er angi af því.
Höfundur er rithöfundur og sagnfræðingur.