Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson fjallar um þá samþykkt íslensku ríkisstjórnarinnar að styðja árásir Bandaríkjanna á Afganistan: "Á grundvelli þessara gagna samþykkti utanríkisráðherra, fyrir hönd allra Íslendinga, að styðja árásir Bandaríkjanna á Afganistan."

ÞAÐ ER staðreynd að sigurvegarar í styrjöldum þurfa sjaldnast - ef nokkurn tímann - að sanna fyrir dómstólum sakleysi sitt, jafnvel þótt á þá sé borið að hafa gerst sekir um brot á alþjóðalögum og alþjóðaskuldbindingum um mannréttindi. Þannig hefur til dæmis enginn ráðamaður í Bandaríkjunum verið ákærður fyrir stríðsglæpi í Víetnam eða kjarnorkusprengjuárásirnar á Japan. Sama gildir um ráðamenn í NATÓ-ríkjunum vegna stríðsreksturs hernaðarbandalagsins. Rithöfundurinn, heimspekingurinn og þjóðfélagsrýnirinn, George Orwell sagði réttilega að sá sem stjórni samtíðinni stjórni einnig fortíðinni. Það sé, með öðrum orðum, réttlæti valdsins sem gildi.

Lög eða vald?

Þetta kom upp í hugann þegar greint var frá því um miðjan október að hópur Dana hefði stefnt danska forsætisráðherranum, Anders Fogh Rasmussen, fyrir dóm fyrir að brjóta dönsk lög og stjórnarskrá landsins með þátttöku í árásarstríðinu í Írak. Var þá haft eftir Henning Koch, lagaprófessor við Kaupmannahafnarháskóla, að hann væri því sammála að stríðið í Írak hefði verið ólöglegt. Hins vegar væri hann ekki viss um að dómstólarnir væru til þess bærir að fjalla um málið; stefnumótun í utanríkismálum snerist "ekki aðeins um lög heldur einnig um vald," sbr. Mbl. 12. okt. sl. Þetta er nokkuð sem við eigum aldrei að sætta okkur við. Viðureign réttlætisins við valdið kemur okkur öllum við og það á að vera stöðugt viðfangsefni í opnu lýðræðisþjóðfélagi að veita valdinu aðhald. Þegar grundvallarmannréttindi eru annars vegar, til dæmis í tengslum við styrjaldarátök, verðum við að vera á varðbergi. Við eigum ekki að taka því þegjandi að hinir sigruðu séu dregnir fyrir dómstóla en sigurvegararnir séu lausir allra mála þegar ætla má að þeir hafi gerst sekir um brot á lögum eða alþjóðlegum sáttmálum. Fram undir lok 20. aldar stóðu Íslendingar utan hernaðarátaka og gátu firrt sig ábyrgð í þeim efnum. Það er hins vegar liðin tíð.

Skýr sönnunarbyrði

Á síðustu árum hafa orðið breytingar á eðli NATÓ. Á leiðtogafundi bandalagsins í Washington 1999 var samþykkt ný öryggisstefna þar sem skilgreining á "vörnum" fékk mun víðtækari skírskotun en fram til þess tíma. Hinn 12. september 2001, daginn eftir hryðjuverkin í New York og Washington kom fastaráð NATÓ saman til fundar og lýsti því yfir að ef það sannaðist að aðilar utan Bandaríkjanna bæru ábyrgð á hryðjuverkunum jafngiltu þau árás á Bandaríkin og þar með árás á öll NATÓ-ríkin, enda litið svo á, samkvæmt hinni nýju stefnumótun, að hryðjuverk féllu undir varnarsáttmála NATÓ. Þetta er vægast umdeilt atriði en hitt er þó óumdeilt að sú skylda hvíldi á Bandaríkjastjórn að upplýsa og færa sönnur á hvernig að hryðjuverkunum var staðið. Síðan er það að sjálfsögðu skylda allra þeirra ríkisstjórna sem veita stuðning á forsendum þeirra gagna sem Bandaríkjastjórn leggur fram að standa almenningi viðkomandi landa skil á þeim upplýsingum. Þótt NATÓ taki sér í auknum mæli vald sem Sameinuðu þjóðirnar einar hafa, m.a. íhlutunarvald í málum einstakra ríkja utan bandalagsins, stendur sáttmáli Sameinuðu þjóðanna óhaggaður. Samkvæmt honum er ríkjum ekki leyft að beita valdi gegn öðrum ríkjum nema í brýnni sjálfsvörn eða að fengnu samþykki Öryggisráðsins. Flestir sérfræðingar í þjóðarrétti telja því að árásirnar á Afganistan og Írak hafi verið ólöglegar. Vandinn er sá að óprúttnir ráðamenn hafa iðulega komist upp með að afvegaleiða fjölmiðla og almenning með því að láta í veðri vaka að þeir búi yfir upplýsingum sem við nánari eftirgrennslan hafa hins vegar reynst vafasamar, jafnvel upplognar. Þannig kom í ljós að stríðið gegn Írak var háð á upplognum forsendum. Oftast reynist erfitt, og í sumum tilfellum útilokað, að afla upplýsinga um málavöxtu. Hér þurfa Íslendingar að líta í eigin barm. Ríkisstjórn Íslands þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum, ekki síður en aðrar ríkisstjórnir sem stutt hafa, eða átt aðild, að stríðsrekstri. Nú er það svo að aðalritari NATÓ lýsti því yfir að ríkisstjórnum NATÓ-ríkjanna hefðu verið kynnt sönnunargögn um ábyrgð Al Qaeda á árásunum í New York og Washington hinn 11. september árið 2001. Á grundvelli þessara gagna samþykkti utanríkisráðherra, fyrir hönd allra Íslendinga, að styðja árásir Bandaríkjanna á Afganistan. Er ekki kominn tími til þess að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, geri grein fyrir þeim gögnum sem þessar ákvarðanir voru byggðar á?

Höfundur er formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.