PEPSÍ sækir nú fast að Coca-Cola-risanum sem allt frá kauphallarskráningu þess árið 1919 hefur verið verðmætasti kólaframleiðandinn og þekktasta vörumerkið. En það hefur dregið saman með keppinautunum á undanförnum árum.
PEPSÍ sækir nú fast að Coca-Cola-risanum sem allt frá kauphallarskráningu þess árið 1919 hefur verið verðmætasti kólaframleiðandinn og þekktasta vörumerkið. En það hefur dregið saman með keppinautunum á undanförnum árum. Gengi bréfa Pepsí hefur hækkað um 16% á þessu ári en gengi Coca-Cola um 4% og er nú svo komið að markaðsverðmæti Coca-Cola er 101 milljarður dala en verðmæti Pepsí er komið í 99 milljarða dala. Fyrir aðeins um áratug var markaðsverðmæti Pepsí tæplega helmingur af verðmæti Coca-Cola að því er segir í frétt Berlingske Tidende.
Vaxtartími Coca-Cola liðinn
Írinn Neville Isdell, sem nú stýrir Coca-Cola, getur nú huggað sig við að kók selst sem fyrr mest allra kóladrykkja í heiminum og hann getur sömuleiðis bent á að um helmingurinn af hagnaði Pepsí er kominn frá dótturfélagi þess, Frito-Lay, sem framleiðir kartöfluflögur og annað nasl. Og hann getur einnig vísað til þess að tiltrú manna á Coca-Cola-vörumerkið er afar mikil sem sést kannski á því að velta Pepsí-samstæðunnar er um helmingi meiri en Coke-samstæðunnar. En sú staðreynd að Pepsí er nú komið nær upp hlið Coca-Cola að því er varðar markaðsverðmæti bendir til þess að tími Coca-Cola sem fyrirtækis í vexti sé hugsanlega að renna út en að minnsta kosti hefur Neville fært niður langtímaspár um vöxt Coca-Cola. Félagið hefur á undanförnum árum auk þess fengið á sig ákærur frá samkeppnisyfirvöldum í Evrópu og enn er ólokið rannsókn vestra á bókhaldsóreiðu hjá fyrirtækinu.