HINGAÐ til hefur lágmarksrefsing við því að skila innheimtum virðisaukaskatti of seint til skattyfirvalda verið sekt sem nemur tvöfaldri fjárhæðinni. Alþingi hefur nú samþykkt lög sem breyta þessu og er með þeim fellt niður ákvæði um lágmarkssekt við slíku broti, að því gefnu að staðið hafi verið skil á verulegum hluta upphæðarinnar eða viðkomandi hafi miklar málsbætur.
Frumvarpið var flutt með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra lagði það fyrir Alþingi í fyrra og þá sem þingmaður. Þar sem hann er nú orðinn ráðherra mælti hann ekki fyrir frumvarpinu að þessu sinni enda er um að ræða þingmannafrumvarp en ekki stjórnarfrumvarp.
"Ég tel að með þessari samþykkt Alþingis sé gífurlegt mikið réttlætismál í höfn. Af samtölum hef ég kynnst ótrúlegum dæmum um menn sem voru grátt leiknir vegna þessara laga um lágmarkssekt. Jafnvel þó menn hafi borgað stærstan hluta af skattinum, eftir að að gjaldþrotsúrskurður var kveðinn upp, fengu þeir ekki metnar neinar málsbætur. Eftir að hafa greitt skattinn fengu þeir samt sem áður á sig gríðarlegar sektir sem leiddu til þess að þeir áttu sér ekki viðreisnar von eftir það," sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.
Sjaldnast einkenni skattsvika
Í greinargerð með frumvarpinu segir að ástæðan fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar skili ekki inn innheimtum virðisaukaskatti á réttum tíma, þrátt fyrir að hafa skilað inn upplýsingum um hversu mikinn skatt þau innheimtu, sé oft á tíðum sú að erfiðleikar steðji að atvinnurekstrinum. Slík vanskil á innheimtum vörsluskatti hafi sjaldnast einkenni skattsvika heldur stafi af því að viðkomandi hafi lent í mótbyr í atvinnurekstri og jafnvel gjaldþroti.Með því að fella niður lágmarkssekt í þessum tilfellum sé dómstólum gefið meira svigrúm til að ákveða refsingu og geti því tekið meira tillit til málsbóta þeirra sem í hlut eiga.
Meðal annarra nýmæla í lögunum sem voru samþykkt daginn fyrir jólafrí Alþingis, er að nú verður skattrannsóknarstjóra heimilt að ljúka málum með sektum en þarf hvorki að vísa málum til meðferðar fyrir dómi né til yfirskattanefndar, kjósi hann svo.