SÍÐUSTU dagana í nóvember bárust tvö bréf inn úr dyrunum. Þau voru frá Íslandsbanka. Þar var mér boðið upp á að sækja jóladagatal Lionsmanna fyrir barnabörnin sem dvelja tímabundið í Ameríku en hafa fasta búsetu hér. Það er ekki að orðlengja að ég dreif mig af stað létt í spori, ekki skyldi standa á ömmu að koma jóladagatölunum alla leið.
Undrun þessarar ömmu var ekki lítil þegar hún fékk dagatölin í hendurnar. Hér voru komin súkkulaðidagatöl Lionsklúbbsins Freys og Íslandsbanki annast dreifinguna. Til að bíta höfuðið af skömminni var svo tannkremstúpa í farteskinu. Gat þetta verið satt? Hlaut þetta ekki að vera einhver misskilningur? Tímaskekkja?
Nokkrum dögum seinna voru sömu jóladagatöl auglýst í dagblöðum og sagt að allur ágóði rynni til líknarmála.
Sem ég stóð á bankagólfinu birtust mér árlegir jólaföstubardagar áttunda og níunda áratugarins í eldsnöggu endurliti. Þá hopuðu myndadagatölin en súkkulaðið sótti fram. Börnin mín áttu erfitt með að kyngja því að þetta gæti verið óhollt fyrst aðrir fengu súkkulaði daglega. Ég tala nú ekki um fengju þeir tannkrem líka! Og svo var þetta allt í góðgerðarskyni. Já, einmitt! Ég benti þeim á að taka þátt í söfnuninni "Brauð handa hungruðum heimi" ef þau vildu láta gott af sér leiða og það stóð ekki á því en það var erfitt að verða af súkkulaðimolanum.
Síðan þetta gerðist hefur mikið vatn runnið til sjávar. Stóraukin umræða um hollustu og óhollustu hélt ég að hefði ekki farið fram hjá neinum. Manneldisráð hefur ítrekað varað við sykuráti og hreyfingarleysi. Er ekki verið að takmarka sælgætisát við nammidaga einu sinni í viku? Var það misheyrn?
Minnstu munaði að ég berði glaðlega afgreiðslukonuna með dagatalinu þegar ég skilaði því aftur. Það hefði hún þó alls ekki átt skilið enda hélt hún að Ísandsbanki hlyti að hugsa sinn gang næst. Ég vona að hún komist til metorða innan bankans.
Ég ber mikla virðingu fyrir Lionshreyfingunni sem hefur komið mörgu góðu til leiðar. Hún á allt gott skilið en þarna ætti Lionsklúbburinn Freyr þó að hugsa sinn gang. Skaðinn er skeður í ár en fyrr en varir eru komin önnur jól. Látið ykkur detta eitthvað frumlegra í hug næst, drengir mínir. Sýnið börnunum okkar, fjölskyldum þeirra og heilsu allra landsmanna virðingu. Látum súkkulaðidagatölin hverfa!
Gleðileg jól.
Höfundur er rithöfundur.