Nýja steypustöðin á iðnaðarlóð Loftorku við Engjaás í Borgarnesi var reist til að mæta aukinni eftirspurn. Framleiðslugetan er um 50 rúmmetrar á klukkustund.
Nýja steypustöðin á iðnaðarlóð Loftorku við Engjaás í Borgarnesi var reist til að mæta aukinni eftirspurn. Framleiðslugetan er um 50 rúmmetrar á klukkustund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is LOFTORKA ehf.
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

LOFTORKA ehf. í Borgarnesi er að taka í notkun nýja steypustöð á athafnasvæði sínu við Engjaás til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir steypu, en nýja stöðin er þrefalt afkastameiri en þær tvær stöðvar sem fyrir eru.

Nýja steypustöðin er ein sú stærsta á landinu en hún er með sex sementssíló og sex malarsíló. Hún er svokölluð turnstöð með tveimur tveggja og hálfs rúmmetra blöndurum sem geta framleitt um 150 rúmmetra á klukkustund. Stöðvarnar sem fyrir eru geta framleitt samanlagt um 50 rúmmetra af steypu á klukkustund.

Mikil breyting

Sigurður Sigurðsson og Konráð Andrésson stofnuðu Loftorku 1962 og byrjuðu með eina loftpressu. "Þannig varð nafnið til," segir Konráð, en fyrstu verkefnin fólust í vinnu við götur í Borgarnesi. Fyrirtækið hefur eflst með hverju árinu og sérstaklega á undanförnum árum. Reyndar hefur það skipst í tvö fyrirtæki, Loftorku í Reykjavík, sem er í eigu fjölskyldu Sigurðar, og Loftorku í Borgarnesi, þar sem Andrés Konráðsson er framkvæmdastjóri og aðaleigandi.

Loftorka hóf framleiðslu á steinsteypu 1969 þegar fyrirtækið keypti Rörasteypu Borgarneshrepps. Í fyrstu var notuð einföld hrærivél og 1974 var reist steypustöð með fullkomnum vigtunarbúnaði. Annarri stöð var bætt við 1981 og 1998 var eldri stöðinni skipt út fyrir aðra. Til að mæta aukinni eftirspurn eftir steypu var á liðnu ári sett upp stöð við hlið hinnar og afkastar hún um 25 rúmmetrum á klukkustund.

Forspennt steypa felst í því að vír er komið fyrir í steypunni og hann pressar hana saman þannig að hún verður miklu sterkari fyrir vikið. Hjá Loftorku hefur eftirspurn eftir forsteyptum byggingahlutum eins og veggeiningum, forspenntum og slakbentum fíligranloftplötum, holplötum og svalaeiningum aukist mjög mikið.

Fyrir rúmlega 20 árum hóf Loftorka framleiðslu á húseiningum í Borgarnesi og fljótlega varð sú framleiðsla stærsti þátturinn í rekstrinum. Fyrirtækið sérhæfir sig í forsteyptum húseiningum og segir Konráð að þar sem forsteyptum verkefnum fjölgi stöðugt þurfi aukna steypu.

Því þurfi nýja steypustöð. "Við erum með þrjár steypustöðvar og þær hafa ekki undan," segir hann.

Framleiðsla á steinrörum hefur líka stóraukist hjá Loftorku og verða framleiddir yfir 110 kílómetrar af rörum á þessu ári. Stór hluti þeirra er stærri en einn metri í þvermál og stærstu rörin eru þrír metrar í þvermál. Allt þetta kallar á meiri steypu og styttri afgreiðslutíma og stór og afkastameiri steypustöð var því óhjákvæmileg.

Uppsetning nýju stöðvarinnar hefur gengið vel en hún var flutt inn til landsins í 30 gámum og sett upp á steyptar undirstöður. Vinna við uppsetningu og frágang er á lokastigi og framleiðsla hefst fljótlega.

Samhliða stækkun steypustöðvarinnar er verið að stækka steypuskálann um 3.500 fermetra en þar verða framleiddar veggeiningar og er gert ráð fyrir að framleiðslugetan stóraukist með tilkomu nýja rýmisins.