Stykkishólmur | Tryggingamiðstöðin opnaði fyrir skömmu skrifstofu í Stykkishólmi. Skrifstofan er til húsa á Aðalgötu 20, þar sem VÍS hafði áður skrifstofu.
Eggert Halldórsson er umboðsmaður TM í Stykkishólmi. Hann tók við umboðinu árið 1987. Síðan þá hefur starfsemin verið að aukast, að hans sögn. Hann hefur fengið til liðs við sig Sigurð Kristinsson og reka þeir skrifstofuna saman.
Eggert segist greinilega finna vilja hjá fólki til að geta sótt tryggingaþjónustuna á heimaslóð. Það sé allt annað heldur en þurfa að eiga öll sín viðskipti í gegnum síma við einhvern sem þú þekkir engin deili á. "Nálægðin skapar traust á milli aðila og það kann viðskiptavinurinn að meta," segir Eggert og bætir við: "Í ekki stærra bæjarfélagi þekkjast allir. Við viljum hafa tryggingataka ánægða með okkar starf og erum að færa út kvíarnar í þeim tilgangi að veita betri þjónustu."
Í tilefni af opnun skrifstofunnar færði TM tryggingar Lionsklúbbi Stykkishólms peningagjöf til styrktar uppsetningu veðurskiltis sem klúbburinn hefur komið upp í bænum.