Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is BORGARSTJÓRINN í Reykjavík segir að ekki komi til greina að breyta núgildandi samningum við leikskólakennara.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

BORGARSTJÓRINN í Reykjavík segir að ekki komi til greina að breyta núgildandi samningum við leikskólakennara. Það sé þó eðlilegt að leik- og grunnskólakennarar horfi til nýrra samninga við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í næstu samningagerð en samningar við leikskólakennara verða lausir í október á næsta ári. Hún segir að hinir nýju samningar séu ekki þess eðlis að þeir setji samninga við þessar stéttir í uppnám.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, að hún hefði ekki búist við harðri gagnrýni frá leikskólakennurum vegna samninganna. Langstærsti hópur ófaglærðra starfsmanna á leikskólum yrði áfram með lægri laun en leikskólakennarar og að aðeins væri um að ræða fá tilvik á leikskólum þar sem ófaglærðir fengju hærri laun en leikskólakennarar í sömu stöðu. Ýmist væri um að ræða ófaglærða starfsmenn með mikla starfsreynslu í deildarstjórastöðum eða háskólamenntaða starfsmenn leikskóla, sem væru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.

Af viðbrögðum ýmissa við samningunum væri greinilegt að margir teldu að aldrei væri rétti tíminn til að hækka laun hinna lægstlaunuðu, ekki í þenslu, ekki í samdrætti og ekki þegar kosningar væri í nánd.

Samanburður er drifkraftur

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði ljóst að fengju aðrar stéttir sömu hækkanir og kæmu fram í samningum borgarinnar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar muni holskefla verðbólgu ríða yfir landið.

"Drifkraftur allrar launabaráttu er samanburður og nú eru menn komnir með samanburð," sagði hann.