NÝLEGA birtust greinar í Morgunblaðinu frá bæjarfulltrúum D- listans, þeim Erlu Guðjónsdóttur, formanni skipulagsnefndar, og Sigríði Rósu Magnúsdóttur, formanni bæjarráðs. Í greinum þeirra er því haldið fram að tillaga D-listans um miðsvæðið sé vönduð og eftir óskum íbúanna. Þó vita flestir Álftnesingar að tillagan er í meginatriðum andstæð sjónarmiðum íbúanna frá tveimur íbúaþingum. Í greinunum eru ýmsar rangfærslur t.d. þegar fullyrt er að Álftaneshreyfingin hafi ekki kosið samvinnu um málið. Þetta er alrangt enda hvatti Álftaneshreyfingin sérstaklega til þess að leitað yrði víðtækrar samstöðu um skipulagsmálin og að þau væru unnin á opin og lýðræðislegan hátt. Eins er reynt að gera mótmæli íbúanna tortryggileg og kvartað undan því að bæjarfulltrúar Álftaneshreyfingarinnar hafi kvatt íbúana til að notfæra sér lögbundinn rétt til athugasemda við tillögu meirihlutans. Þannig virðast þessar ágætu konur halda að bæjarfulltrúar megi ekki taka þátt í grasrótarstarfi íbúanna. Ekki trúi ég að almennir sjálfstæðismenn taki undir svona kreddur, alla vega ekki þeir sem nú taka þátt í baráttu fyrir virku íbúalýðræði.
Verktakadekur sjálfstæðismanna
Fyrir skömmu var stofnuð íbúahreyfing Betri byggð á Álftanesi og safnar nú fólk á hennar vegum athugasemdum frá þeim íbúum sem eru andsnúnir deiliskipulagi miðsvæðisins. Að þessum samtökum eða baráttuhópi standa almennir sjálfstæðismenn eins og stuðningsmenn Álftaneshreyfingarinnar. Þetta fólk vill aðra valkosti, vill hægari uppbyggingu og að íbúarnir fái t.d. í sérstakri íbúakosningu að velja milli einstakra tillagna um skipulag svæðisins. Margt af þessu fólki gagnrýnir meirihlutann líka fyrir dekur við verktakana sem vilja aðeins byggja mikið og hratt. Engu sé líkara en þröngir verktakahagsmunir reki áfram forystu sjálfstæðismanna á Álftanesi.
Hrokafull afstaða bæjarfulltrúa D-listans
Bæjarfulltrúar D-listans sem nefndir voru hér að framan virðast ekkert hafa lært frá því í vor, en þá voru þeim afhent skrifleg mótmæli, gegn deiliskipulaginu, frá u.þ.b. 500 Álftnesingum. Þeim undirskriftum var stungið undir stól og látið sem allt væri í stakasta lagi. Reyndar sögðu forystumenn sjálfstæðismanna að lítill vandi væri að safna þannig mótmælum frá fólki sem ekki þekkti vel til skipulagsmálanna. Þessi afstaða til mótmæla íbúanna ber vott um hroka og dómgreindarleysi. Íbúar sem mótmæla skriflega skipulagstillögum gera það aðeins ef þeir eru upplýstir. Fjölda mótmæli fólks eins og komu fram í vor átti að sjálfsögðu að virða og leita sáttaleiða eins og Álftaneshreyfingin lagði til. Allt skipulagsferlið hefur reyndar verið kostulegt, þannig kom það í hlut Álftaneshreyfingarinnar að kynna tillögur D-listans í sérstöku dreifirit. Meirihlutinn sem þó hefur verið duglegur í útgáfu á málgagni sínu Grásteini sá aldrei ástæðu til að senda íbúunum kort, eða kynningu á skipulagstillögu sinni.
Bæjarstjórinn með hótanir
Hliðstæð sjónarmið og í tilvitnuðum greinum bæjarfulltrúanna hafa komið fram í síðasta blaði Víkurfrétta, í viðtali við bæjarstjórann Guðmund Gunnarsson. En tilefni viðtalsins er viðtal í Víkurfréttum vikunni áður við tvo sjálfstæðismenn sem nú hafna stefnu D-meirihlutans.Í viðtalinu, sem er fullt af gremju, er gengið lengra en í greinunum í Morgunblaðinu og íbúunum óbeint hótað ef auglýst skipulag fái ekki framgang. Þar er sagt að mótmælin geti spillt því glæsilega uppbyggingarferli sem unnið sé að.
Hér er staðreyndum snúið á haus, því ef auglýst skipulag verður staðfest er troðið á réttmætum óskum íbúanna, slíkur gjörningur kynni að hafa alvarleg áhrif á þróun byggðar á Álftanesi. Vonandi snýst forystu sjálfstæðismanna hugur í þessu máli og ef fram koma síðar í desember athugasemdir frá hundruðum Álftnesinga verður tekið mark á þeim.
Höfundur er bæjarfulltrúi Álftaneshreyfingarinnar.