Breska blaðið Sunday Times sagði í gær að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefði gefið skipun um að undirbúa hugsanlega skyndiárás á kjarnorkutilraunastöðvar Írana ekki síðar en í mars næsta ári. Yrði beitt flugvélum en einnig herliði sem ráðast myndi inn í Íran frá meintum leynilegum stöðvum Ísraela í Írak.
Nýr forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, hefur meðal annars hótað að leggja Ísrael í eyði en margir óttast að Íranar muni innan fárra ára eða jafnvel mánaða geta smíðað kjarnorkusprengju.
Ísraelska leyniþjónustan er sögð hafa tjáð Sharon fyrir skömmu að Íranar stunduðu tilraunir með að auðga úran í kjarnorkusprengjur og kæmu tilraunastöðvum fyrir í þéttri íbúabyggð. Ísraelskir embættismenn sögðu að frétt Sunday Times væri byggð á getgátum. Ísraelska blaðið Haaretz hafði þó eftir Amos Gilad, ráðgjafa í varnarmálaráðuneytinu, að betra væri að ríki heims beittu pólitískum þrýstingi til að stöðva tilraunir Írana. En Gilad gekk ekki svo langt að vísa hugmyndinni algerlega á bug, "það er ekki hægt að segja fyrirfram að allar [slíkar] lausnir verði útilokaðar".