Á morgun verður haldin Lúsíuhátíð í Svíþjóð.
Á morgun verður haldin Lúsíuhátíð í Svíþjóð. — Morgunblaðið/Jim Smart
Á morgun, 13. desember, er Lúsíudagurinn haldinn hátíðlegur. Heilagrar Lúsíu er sérstaklega minnst í Svíþjóð en fleiri þjóðir muna þó eftir henni líka.

Á morgun, 13. desember, er Lúsíudagurinn haldinn hátíðlegur. Heilagrar Lúsíu er sérstaklega minnst í Svíþjóð en fleiri þjóðir muna þó eftir henni líka. Skólabörn á öllum aldri syngja fyrir foreldra og kennara á þessum degi og klæðast hvítum kyrtlum eins og Lúsía, eða þá að þau klæða sig sem jólasveinar eða piparkökukarlar og syngja viðeigandi lög. Undir söng og samveru eru borðaðar lúsíubollur með saffrani, piparkökur og kaffi eða jólaglögg.

Lúsíubollur

(Lussekatter)

50 g ger

100 g smjör

5 dl mjólk

250 g kesella, þ.e. mjúkostur,

má t.d. nota rjómaost

1 g saffran

1½ dl sykur

½ tsk. salt

u.þ.b. 17 dl hveiti

rúsínur

1 egg

Myljið gerið í skál. Bræðið smjörið og bætið mjólkinni svo út í þannig að blandan verði fingurvolg. Hellið henni yfir gerið og hrærið svo að það leysist upp. Bætið við rjómaosti, muldu saffran (gott að mylja í mortéli með sykurmola), sykri og salti og meirihluta hveitisins. Hnoðið þar til deigið verður glansandi og mjúkt. Breiðið viskustykki yfir og látið hefast í hálftíma. Hnoðið svo á ný á hveitistráðu borði og skiptið í um 35 stykki sem er rúllað í lengjur og snúið upp á svo minnir á krúsídúllu-s. Setjið á bökunarpappír á plötu, skreytið með rúsínum. Látið hefast í 20-30 mínútur. Hitið ofninn í 225 gráður. Penslið með hrærðu eggi og bakið í miðjum ofni í 5-7 mínútur. Látið kólna á grind.