Gunnar I. Gunnsteinsson
Gunnar I. Gunnsteinsson
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is STJÓRN Bandalags sjálfstæðra leikhúsa (SL) mótmælir því harðlega að 10 milljóna króna aukning til starfsemi atvinnuleikhópa skuli hafa runnið óskipt til Leikfélags Reykjavíkur. Að mati Gunnars I.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

STJÓRN Bandalags sjálfstæðra leikhúsa (SL) mótmælir því harðlega að 10 milljóna króna aukning til starfsemi atvinnuleikhópa skuli hafa runnið óskipt til Leikfélags Reykjavíkur. Að mati Gunnars I. Gunnsteinssonar, framkvæmdastjóra SL, var undarlega staðið að málum þar sem formaður fjárlaganefndar gerði upphaflega tillögu um 10 milljóna kr. hækkun á framlagi til starfsemi atvinnuleikhópa sem skyldu renna til Leikfélags Reykjavíkur vegna starfsemi leikhópa í Borgarleikhúsinu.

Í framhaldinu sendi stjórn SL fjárlaganefnd bréf dagsett 2. desember sl. þar sem bent var á að með þessum hætti væri verið að grípa fram fyrir hendur leiklistarráðs, sem hefur umsjón með því að úthluta þeim fjármunum sem sjálfstæðum leikhópum er úthlutað samkvæmt faglegu mati á grundvelli umsókna frá leikhópum. "Um þennan framgangsmáta hefur frá upphafi ríkt sátt milli menntamálaráðherra og ráðsins," sagði í bréfinu og á það bent að í ljósi þessa væri undarlegt að fjárlaganefnd skyldi grípa fram fyrir hendur leiklistarráðs með því að úthluta fyrirfram hluta þeirra fjármuna sem ætlaðir væru starfsemi atvinnuleikhópa.

Hefði verið að taka fram fyrir hendurnar á leiklistarráði

Að sögn Gunnars tók fjárlagafrumvarpið í framhaldinu ákveðnum breytingum milli annarrar og þriðju umræðu þar sem viðbótarfjárhæðin var aftur dregin frá framlaginu til starfsemi atvinnuleikhópa og settur undir nýjan lið merktum LR og stóð sú breyting þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt sl. fimmtudag. "Þeir hafa væntanlega áttað sig á því að þeir væru á gráu svæði, að taka fram fyrir hendurnar á leiklistarráði og því kippt þessu aftur út," segir Gunnar í samtali við Morgunblaðið og bendir á að fjárlaganefnd virðist ekki hafa áttað sig á því að LR sé ekki sjálfstæður leikhópur heldur sjálfseignarstofnun sem hefur tekið að sér rekstur Borgarleikhússins og fær rekstrarstyrk frá Reykjavíkurborg til þess.

"Innkoma atvinnuleikhópa í Borgarleikhúsið er til komin vegna samnings LR og Reykjavíkurborgar vegna reksturs á Borgarleikhúsinu, en LR samþykkti að taka inn a.m.k. tvo leikhópa á ári og veita þeim aðstöðu," segir Gunnar og bendir á að sá samningur feli ekki í sér að LR eigi að vera með nein fjárútlát vegna atvinnuleikhópa. "Enda greiðum við fyrir alla þá þjónustu sem við fáum í Borgarleikhúsinu samkvæmt samkomulagi sem gert hefur verið milli SL og LR," segir Gunnar og tekur fram að hann geti ekki skilið úthlutunina öðruvísi en sem svo að milljónirnar 10 séu eyrnamerktar rekstri LR. Að sögn Gunnars reyndu forsvarsmenn SL ítrekað að fá svör frá formanni fjárlaganefndar, Magnúsi Stefánssyni, áður en fjárlögin voru samþykkt, en án árangurs.

Vildu sjá fjármagnið skila sér til einkaframtaksins

Að sögn Gunnars fundaði stjórn SL með fjárlaganefnd fyrr á árinu til að vekja athygli á starfi atvinnuleikhópa og óska eftir hækkun á fjárframlögum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að 47 milljónir renni til starfsemi atvinnuleikhópa, sem er sama upphæð og í fyrra. "Við erum mjög svekkt yfir því að við skulum ekki fá neina viðurkenningu á því mikilvæga starfi sem við erum að sinna," segir Gunnar og bendir á vopnin hafi svo að segja verið slegin úr hendi þeirra þegar fjárhæðin var færður af þeirra lið. "Við erum svekktust með það að loksins þegar til eru 10 milljónir til að auka starf sjálfstæðu leikhúsanna þá eru þær settar í opinbera stofnun, en ekki til einkaframtaksins," segir Gunnar og bendir á að 17 milljónum af upphæðinni hafi þegar verið ráðstafað til Hafnarfjarðarleikhússins samkvæmt þríhliða samningi leikhússins, menntamálaráðuneytisins og Hafnarfjarðarbæjar.

"Þannig að leiklistarráð hefur í raun aðeins 30 milljónir til ráðstöfunar til annarra hópa, en þess má geta að meðal uppsetningarkostnaður við hverja leiksýningu er um 12 milljónir. Þannig að 10 milljóna kr. hækkun skiptir okkur miklu máli til eflingar á starfsemi SL," segir Gunnar og bendir á að árlega berist leiklistarráði allt að 80 umsóknir, en í fyrra voru 13 leikhópar styrktir, en samkvæmt úthlutunarreglum leiklistarráðs er engin leiksýning styrkt fyrir minna en 50% af heildarkostnaði við uppsetninguna. "Undanfarin ár hefur verið mikil gróska hjá sjálfstæðu leikhópunum sem birtist m.a. í því að heildaráhorfendafjöldi SL hefur verið um 170 þúsund manns á ári, sem er álíka margir áhorfendur og Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið fá til samans," segir Gunnar og bendir á að leikhópar SL þjónusti allt landið og flesta aldurshópa. "Þrátt fyrir þetta öfluga starf hafa einungis 4% af heildarfjármunum sem veittir eru til leiklistarstarfsemi í landinu farið til starfsemi SL," segir Gunnar og bendir á að brýnt sé að auka fjárframlagið til þess að sjálfstæðu leikhúsin geti orðið hið raunverulega þriðja afl og starfað á mun sterkari atvinnugrundvelli.

Þurfum að kynna starf okkur betur fyrir ráðamönnum

Að mati Gunnars er ljóst að sjálfstæðu leikhúsin þurfi að kynna starf sitt betur fyrir þing- og ráðamönnum til þess að þeir átti sig á hlutverki og framlagi þeirra. "Nú í vikunni funduðum við með menntamálaráðherra sem tók vel í aukna samvinnu ráðuneytisins og SL, en við þurfum að standa saman í því að kynna okkar málstað fyrir þingmönnum," segir Gunnar og bendir á að ein leiðin til þess að gera Sjálfstæðu leikhúsin sýnilegri sé að laga aðstöðuna í Tjarnarbíó til þess að gera það að ákjósanlegri sýningarstað og miðstöð SL. "Við núverandi aðstæður stefnir allt í að húsinu verði lokað vegna skorts á brunavörnum þannig að það liggur fyrir að það þurfi undir öllum kringumstæðum að gera ákveðnar breytingar á húsnæðinu. Við erum með hugmyndir um að breyta leikhúsinu í "blackbox" leikhús, byggja við húsnæðið í hliðarporti, bæta aðstöðu listamanna og koma upp skrifstofu SL í húsinu. En samtals myndi slíkar breytingar kosta á bilinu 50-60 milljónir króna," segir Gunnar og tekur fram að hann vonist eftir góðu samstarfi við bæði ríki og borg í þessu samhengi.