Þröng á þingi þegar ungt fólk skemmtir sér um verslunarmannahelgina árið 2002.
Þröng á þingi þegar ungt fólk skemmtir sér um verslunarmannahelgina árið 2002. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is HELDUR hefur dregið úr reykingum meðal framhaldsskólanema frá því árið 2000. Alls sögðust 19% framhaldsskólanema reykja daglega í könnun sem unnin var síðla árs 2004, en árið 2000 sögðust 21% reykja.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

HELDUR hefur dregið úr reykingum meðal framhaldsskólanema frá því árið 2000. Alls sögðust 19% framhaldsskólanema reykja daglega í könnun sem unnin var síðla árs 2004, en árið 2000 sögðust 21% reykja. Á sama tímabili stendur áfengisneysla í stað en eiturlyfjaneysla eykst örlítið.

Þetta kemur fram í viðamikilli rannsókn á högum framhaldsskólanema sem unnin var af Rannsóknum og greiningu fyrir menntamálaráðuneytið. Rannsóknin var unnin síðla árs 2004, en í nýútkominni skýrslu eru niðurstöður hennar m.a. bornar saman við sambærilega rannsókn sem gerð var árið 2000.

Reykingar virðast á undanhaldi hjá framhaldsskólanemendum, og hafa þær dregist saman um 2 prósentustig á fjórum árum. Árið 2004 sögðust 19% reykja daglega, en árið 2000 reyktu 21% framhaldsskólanema. Stelpur virðast líklegri til að reykja en strákar, tæp 21% stelpna sagðist reykja daglega, en 17% stráka.

Strákar eru á móti mun líklegri til að nota munntóbak, 26% höfðu notað það sex sinnum eða oftar, en aðeins 3% stelpna. Þrisvar sinnum fleiri strákar nota neftóbak, um 46% sögðust hafa notað það sex sinnum eða oftar, samanborið við 16% stelpna.

Áfengisdrykkja virðist haldast lítið breytt frá árinu 2000. Strákar virðast þó drekka oftar en stelpur, 31% höfðu orðið drukknir síðustu 30 daga fyrir könnunina, en 22% stelpna. Landadrykkja hefur þó dregist saman, um 34% höfðu einhvern tímann um ævina drukkið heimabrugg, samanborið við 51% árið 2000.

Fleiri hafa prófað kókaín

Strákar eru líklegri en stelpur til að reykja hass, tæplega 27% stráka höfðu prófað, og 13% hafa reykt hass sex sinnum eða oftar. Um 20% stelpna í framhaldsskólum hafa prófað, og 8% hafa notað það sex sinnum eða oftar. Kynin voru hins vegar jafn líkleg til að nota amfetamín, 6% aðspurðra sögðust hafa notað það sex sinnum eða oftar.

Kókaínneysla framhaldsskólanema virðist heldur færast í aukana, og hafa 8% stráka og 6% stelpna prófað kókaín, en árið 2000 höfðu 7% stráka og 4% stelpna prófað kókaín. Um 3% framhaldsskólanema hefur notað kókaín sex sinnum eða oftar.

Um 7% framhaldsskólanema hafa lent í einelti

SJÖ af hverjum hundrað framhaldsskólanemendum hefur einhverntíma fundist þeir vera lagðir í einelti í skólanum, og einn af hverjum hundrað segist oft eða alltaf vera lagður í einelti.

Strákar virðast frekar lenda í einelti en stelpur, 8% þeirra sögðu að þeim hefði einhverntíman fundist þeir vera lagðir í einelti í skólanum, og 1,3% sögðu að það ætti oft eða alltaf við. Um 7% stelpna sögðust hafa fundið fyrir einelti, en aðeins 0,5% sögðu það eiga oft eða alltaf við.

Tengsl virðast vera milli íþrótta- og líkamsræktarástundunar og andlegrar heilsu framhaldsskólanema. Þannig telja 37% þeirra sem stunda íþróttir eða líkamsrækt vikulega eða oftar að andleg heilsa þeirra sé mjög góð, en 25% þeirra sem ekki stunda íþróttir segja andlega heilsu sína mjög góða. Um 19% þeirra sem stunda íþróttir telja andlega heilsu sína sæmilega eða slæma, en um 32% þeirra sem ekki stunda íþróttir.

Þriðjungur í líkamsrækt

Athygli vekur að rúmur þriðjungur framhaldsskólanema segist sækja líkamsræktarstöð vikulega eða oftar, og mældist engin ein íþróttagrein með viðlíka ástundun. Rúmlega 23% sögðust stunda fótbolta, tæp 6% handbolta, 9% körfubolta og 10% sund.

Stelpur eru duglegri að blogga

TÆPUR þriðjungur stráka í framhaldsskólum landsins eyðir tveimur klukkustundum eða meira í tölvuleiki á degi hverjum, en aðeins 2% stelpna eyða viðlíka tíma í tölvuleiki. Stelpur eru hins vegar duglegri að blogga, og segist fjórðungur stelpna blogga daglega.

Þetta kemur fram í könnun Rannsókna og greiningar á högum framhaldsskólanema, sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið í október 2004, en niðurstöður hennar voru kynntar á dögunum.

Mikill meirihluti stelpna í framhaldsskólum, um 88%, eyðir nær engum tíma í tölvuleiki. Hlutfallið er öllu lægra hjá strákum, en aðeins rúm 36% segjast eyða litlum sem engum tíma í tölvuleiki. Tæplega 30% stráka sögðust eyða 2 klukkustundum eða meira við tölvuleiki á dag, samanborið við 2% stelpna.

Strákar eyða líka meiri tíma á Netinu, 38% eyða tveimur klukkustundum eða meira í að skoða Netið, samanborið við 25% stelpna. Hins vegar virðast stelpur frekar blogga en strákar, um 24% stelpna og 10% stráka sögðust blogga daglega.