[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í kjölfar hækkunar á skuldabréfamarkaði hefur Íbúðalánasjóður og flestir bankar og sparisjóðir hækkað vexti sína á íbúðalánum frá 4,15% yfir í 4,35%, 4,45% og 4,60%.

Í kjölfar hækkunar á skuldabréfamarkaði hefur Íbúðalánasjóður og flestir bankar og sparisjóðir hækkað vexti sína á íbúðalánum frá 4,15% yfir í 4,35%, 4,45% og 4,60%. Spurningin er hvaða áhrif þessi vaxtahækkun hefur á hinn almenna lántakanda og einstaklinga sem hafa nú þegar tekið íbúðalán.

Fasteignamarkaðurinn hefur náð nokkuð góðu jafnvægi eftir gagngerar breytingar á húsnæðislánamarkaðnum síðastliðið ár. Undanfarið hafa vextir farið hækkandi í landinu, en þegar stýrivextir Seðlabankans hækka er verið að reyna að hafa áhrif á almenna vaxtahækkun á markaðnum til að draga úr lántökum og neyslu einstaklinga sem skapar verðbólgu.

Vaxtahækkunin nú mun að öllum líkindum draga úr eftirspurn á húsnæði sem að sama skapi dregur úr frekari hækkunum á húsnæðisverði. Það jákvæða við vaxtahækkunina á íbúðalánum er að verðbólguáhrifin munu minnka til hins góða fyrir einstaklinga með íbúðalán.

Einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar er útgjöld vegna húsnæðis eða afborganir lána, tryggingar, fasteignagjöld og gjöld til sveitarfélaga. Því skiptir greiðslubyrði íbúðalána miklu máli fyrir heimilin og þeir þættir sem hafa áhrif á greiðslubyrðina fyrir utan vexti, eru lánstími, tegund lána, áhrif verðbólgu og kaupmáttur.

Raunvextir og verðbólga

Íbúðalán á Íslandi eru verðtryggð, því bætist verðbólguþátturinn aukalega við höfuðstólinn. Þannig hefur þensla í þjóðfélaginu bein áhrif á íbúðalánin þar sem að þau eru neysluvísitölutryggð. Lántakendur finna minna fyrir áhrifum verðbólgunnar á langtímalánum en skammtímalánum þar sem hækkunin dreifist á allar afborganir lánsins út lánstímann. Þannig að það verður lítill munur á mánaðarlegri greiðslubyrði íbúðalána.

En til þess að sjá rétta mynd varðandi áhrif verðbólgu á lánið verður að taka inn launavísitölu og út frá því að skoða þróun kaupmáttar. Það er jú kaupmáttur einstaklinga sem segir til um hvað er hægt að kaupa fyrir þá fjármuni sem heimilin hafa til ráðstöfunar. Í gegnum árin hefur launavísitala eða ráðstöfunartekjur einstaklinga vaxið hraðar en neysluvísitala. Netbankinn býður upp á íbúðalán með 4,35% föstum vöxtum, hækkunin nú var einungis 0,20% og hefur því óveruleg áhrif á greiðslubyrði íbúðalána fyrir og eftir vaxtabreytingar. Einstaklingar sem eru í húsnæðiskaupahugleiðingum verða að skoða alla þá þætti sem hafa áhrif á heildarkostnað íbúðalánsins og meta út frá sínum aðstæðum greiðslubyrðina.

Veðhæfni og brunabótamat

Hjá Netbankanum miðast veðsetningarhlutfall íbúðalána við markaðsvirði fasteigna, sem miðast við verðmat fasteignasala eða kaupverð skv. kaupsamningi. Veðsetningarhlutfallið getur verið allt að 80% á höfuðborgarsvæðinu, en mismunandi á öðrum stöðum. Veðsetningarhlutfallið má þó aldrei vera hærra en brunabóta- og lóðamat.

Í kjölfar hækkunar á fasteignaverði er oft mikill munur á brunabótamati eigna og markaðsvirði. Í þeim tilvikum þegar brunabótamat er lægra en kaupverð er hægt að kaupa viðbótartryggingu hjá tryggingafélagi viðkomandi, einnig býður Netbankinn hana á góðum kjörum í gegnum Vörð Íslandstryggingu. Brunabótamat miðast við þau verðmæti húseignar sem geta eyðilagst í eldsvoða miðað við byggingarkostnað, eða hvað það kostar að byggja tiltekna eign út frá matsreglum Fasteignamats ríkisins.

Vátryggingarfjárhæðin er forsendur hinnar lögbundnu brunatryggingar húsnæðis. Netbankinn mælir með að einstaklingar skoði vel brunabótamat húsnæðis á söluyfirliti fasteigna, þar sem veðhæfni miðast einnig við brunabóta- og lóðamat. Einnig er nauðsynlegt að lántakendur hugi að því að bæta við brunatryggingu ef mikill munur er á markaðsvirði fasteignar og brunabótamatsins, til þess að tryggja að þeir fái tjónið bætt ef húsnæðið brennur.

Brunabótamat húsnæðis uppfærist mánaðarlega og fylgir breytingum á byggingarvísitölu og árlega í samræmi við þær breytingar sem hafa orðið á byggingarkostnaði í landinu. Einstaklingar hafa miklu meira val þegar kemur að fjármögnun húsnæðis en áður og því er nauðsynlegt er að leita ráðgjafar um húsnæðislán og tryggingar þess efnis, hægt er að panta viðtal hjá tryggingaráðgjafa Netbankans á www.nb.is einnig er hægt að hringja beint í þjónustufulltrúa í síma 5501800. Þjónustufulltrúar eru boðnir og búnir að ráðleggja einstaklingum sem eru að huga að fjármögnun á húsnæðiskaupum.

Eftir Soffíu Sigurgeirsdóttur, markaðsstjóra Netbankans/soffia@nb.is