Það verður ekki af Fríkirkjunni tekið að hún er einn magnaðasti tónleikastaður Reykjavíkurborgar. Kertaljós og fallegar ljósakrónur í bland við listilega málaða altaristöflu og aðrar guðsmyndir gera Fríkirkjuna fyrst og fremst heimilislega, og alls ekki óþægilega hátíðlega. Enda var ekki annað að sjá en Anton og Jónssynirnir létu fara vel um sig innst í kirkjuskipinu þótt þröngt væri.
Þetta er önnur heimsókn Anthonys hingað til lands og hún er kannski enn merkilegri en sú fyrri, því í millitíðinni hefur hann unnið Mercury-verðlaunin eftirsóttu fyrir plötuna I Am a Bird Now sem út kom snemma á árinu. Anthony var þó ekki með neina stjörnustæla, þessi sérstaki einstaklingur - gríðarlega hávaxinn og einhvers staðar mitt á milli þess að vera karl og kona - var afskaplega hógvær þegar hann gekk í salinn, augljóslega snortinn yfir góðu gengi sínu hér á landi.
Anthony er með einhverja sérkennilegustu en jafnframt fegurstu og bestu söngrödd sem fram hefur komið í popptónlist í áraraðir. Áður en tónleikarnir hófust hafði einn tónleikagesta á orði við mig að hann ímyndaði sér alltaf að Anthony væri blökkumaður kominn yfir miðjan aldur sem hefði sungið sálartónlist frá blautu barnsbeini. Sjálfur hef ég séð fyrir mér svarta djasssöngkonu, hvítan kórdreng og allt þar á milli. Það var því einstaklega ánægjulegt að heyra að rödd Anthonys er alveg jafnmögnuð á tónleikum og á plötu - sennilega enn magnaðri.
Þótt flutningurinn hafi verið nær óaðfinnanlegur allt frá upphafi tónleikanna - röddin tær, vibratóið á sínum stað, útsetningar einstaklega smekklegar (þótt þær hafi stundum verið fulllágstemmdar), sérstaklega frábær trommuleikur - þá voru heildaráhrif laganna upp og ofan. Stundum var eins og sviðið næði ekki sambandi við salinn, einhvern neista eða kraft vantaði. Lagið "Fistful of Love" féll t.a.m. kylliflatt þar sem maður saknaði blásturshljóðfæranna sem gera lagið svo frábært á plötunni sárlega. Strengjunum tókst ekki að bæta upp fyrir þau, þótt viljinn hafi eflaust verið til staðar.
Það var ekki fyrr en hljómsveitin flutti lag Leonards Cohen "Guests" sem tónleikarnir tókust virkilega á flug. Lagið er einkennilegt, í mörgum hlutum, en þar virtust allir hljómsveitarmeðlimir finna sig svo úr varð yndisleg stund í Fríkirkjunni. Í kjölfarið fylgdi "Bird Guhl", lokalag I Am a Bird Now, og hápunktur tónleikanna að mínu mati - allt frá mögnuðu píanóspili í upphafi til samræmdra strengja, píanós og strengja undir lokin. Ekki spillti fyrir að vindurinn gnauðaði fyrir utan gluggann og ég óskaði mér þess raunar að það skylli á blindbylur svo hlýjan í Fríkirkjunni yrði enn áþreifanlegri. Stærsti smellur Antons og Jónssonanna, "Hope There's Someone", uppskar síðan lófaklapp að lokum sem linnti ekki fyrr en hljómsveitin hafði gengið aftur inn á sviðið.
Þegar hljómsveitin kom aftur spjallaði Anthony við áhorfendur og fékk þá með sér í lið við flutning lagsins "Trust Your Mother". Hann bað karla um að syngja einn tón og konur annan, og ég gat ekki stillt mig um að spyrja sjálfan mig hvaða tón Anthony ætti þá eiginlega sjálfur að syngja. Þeirri spurningu þurfti þó ekki að svara, því meðan hann stjórnaði áhorfendakór Fríkirkjunnar söng hann sérdeilis magnaðan sálarsöng án hljómsveitar sem kæmi mér ekki á óvart að hafi hljómað á bómullarekrum Bandaríkjanna fyrir hundrað og fimmtíu árum. Tónleikunum lauk með "Candy Says" sem Velvet Underground fluttu upphaflega. Lokakafli lagsins ("dúúú...dú dúaaa...") varð að vel heppnuðu, eilítið djössuðu raddsólói hjá Anthony sem var viðeigandi endir á tónleikunum, góður vitnisburður um gæði raddarinnar.
Það var gaman að sjá hversu fjölbreyttur hópur fólks sótti tónleikana, þarna voru ekki einvörðungu meðlimir listaelítunnar heldur mátti sjá tveggja barna mæður um þrítugt, fimmtug hjón, nýríka, unglingsstráka með húfur ofan í augu o.s.frv. Tónlist Anthonys er aðgengileg og fögur og mun eflaust ná eyrum fleira fólks eftir Mercury-verðlaunin. Hann hefur augljóslega tekið ástfóstri við Ísland og það væri gaman ef hann gerði landið að föstum áfangastað á tónleikaferðalögum sínum.
Atli Bollason