HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað íslenska ríkið af tæplega 25 milljóna bótakröfu 12 ára gamals drengs, sem greindist eftir fæðingu með spastíska lömun sem rakin var til súrefnisskorts fyrir fæðingu.
Bótakrafan var byggð á því að ekki hefði verið brugðist rétt við þegar móðir drengsins kom til mæðraskoðunar skömmu fyrir fæðingu hans. Kvaðst móðirin þar hafa sagt ljósmóðurinni, sem annaðist skoðunina, að hreyfingar fóstursins hefðu minnkað skyndilega, en henni verið tjáð að allt væri með eðlilegum hætti.
Drengurinn fæddist með keisaraskurði þremur dögum síðar og kom þá í ljós að naflastrengurinn var vafinn um háls hans auk þess sem "ekta" hnútur var á honum. Byggðist skaðabótakrafa drengsins á því að koma hefði mátt í veg fyrir fötlun hans ef rétt hefði verið staðið að skoðun og eftirliti við mæðraskoðunina.
Í dómi Hæstaréttar segir að í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, hafi verið talið ósannað að önnur viðbrögð við mæðraskoðunina hefðu skipt sköpum þar sem fullvíst þótti að skaðinn hefði átt sér stað í móðurkviði fyrr á meðgöngunni. Var það niðurstaða Hæstaréttar að staðfesta sýknudóm héraðsdóms þar sem þessu mati hafði ekki verið hnekkt.
Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sigurður G. Guðjónsson hrl. og Björn Þorri Viktorsson hdl. fluttu málið fyrir hönd drengsins og Skarphéðinn Þórisson ríkislögmaður fyrir ríkið.