Sigurður Hákonarson fæddist í Reykjavík 4. október 1945. Hann andaðist á heimili sínu laugardaginn 3. desember síðastliðinn. Hann var sonur Hákonar Péturssonar, verkstjóra frá Hákonarstöðum á Jökuldal, f. 12. ágúst 1914, bjó síðast í Kópavogi, d. júlí 1999 og Ásdísar Pálsdóttur, saumakonu frá Skálafelli í Suðursveit, f. 26. október 1920, bjó síðast í Kópavogi, d. 19. apríl 2005. Bróðir Sigurðar, sammæðra, er Stefán Stefánsson, f. 6. mars 1961. Bræður Sigurðar, samfeðra eru; Pétur Jökull, f. 5. júlí 1947 og Gunnar Jökull, f. 13. maí 1949, d. 22. september 2001.
Sigurður kvæntist 25. desember 1970 Kristrúnu Halldórsdóttur, f. 15. október 1943. Þau skildu. Börn Sigurðar og Kristrúnar eru: 1) Ásdís íþróttakennari, f. 12. febrúar 1970. Sambýlismaður Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri, dóttir þeirra er Líney Lára, f. 5. nóvember 2004. Sonur Ásdísar og Ólafs Guðmundssonar er Kristófer Rúnar, f. 15. október 1997. 2) Halldór Bogi sjómaður, f. 27. ágúst 1972. Dóttir Halldórs Boga og Dagnýjar Finnsdóttur er Sylvía Ósk, f. 28. júní 1997.
Sigurður ólst upp hjá móður sinni í Reykjavík. Þegar hann var átta ára fluttu þau í Kópavoginn. Bjuggu á Kópavogsbraut 61, sem var heimili Sigurðar til 1983, þá flutti hann í Ástún 8 þar sem hann bjó fram til æviloka. Hann gekk í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og í Kópavogsskóla. Sigurður fékk snemma áhuga á dansi og lærði hann til danskennara og lauk fyrsta danskennaraprófi 1968. Fljótlega eftir að hann lauk sínu fyrsta danskennaraprófi stofnaði hann dansskóla í sínu nafni og rak hann allt til ársins 2004. Á fyrstu árum dansskólans ferðaðist Sigurður vítt og breitt um landið og kenndi landsmönnun dans við góðar undirtektir. Dansskólinn er enn starfræktur í dag undir nafni Dansskóli Sigurðar Hákonarsonar. Sl. ár kenndi Sigurður dans við Digranesskóla og Smáraskóla, jafnframt því sem hann var með kennslu í dansskólanum. Sigurður hefur í gegnum tíðina þjálfað mörg af fremstu danspörum þjóðarinnar og hefur m.a. þjálfað danspör frá Dansfélaginu Hvönn sl. 10 ár eða allt frá stofnun þess. Að auki hefur hann þjálfað danspör frá Dansdeild ÍR, Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar og Dansíþróttafélagi Kópavogs.
Sigurður sótti fjöldann allan af dansnámskeiðum víða um heim og lauk 20 gráðum í alþjóðlegri dansmenntun á ferli sínum. Sigurður var félagi í þremur hæst settu dansíþróttakennarafélögum í heiminum; Imperial Society of Teachers of Dancing (ISTD), National Associtation of Teachers of Dancing (NATD) og International Dans Teachers Associtation (IDTA). Sigurður var einnig mjög virkur sem dómari í danskeppnum bæði hér heima og erlendis.
Sigurður verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku pabbi, okkur langar til þess að kveðja þig með nokkrum orðum. Stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskyldu okkar og þín er sárt saknað af okkur systkinunum og afabörnunum þínum, þeim Kristófer Rúnari, Líneyju Láru og Sylvíu Ósk. Þú varst alltaf svo stoltur af barnabörnunum þínum og hafðir gaman af því að spjalla við þau um daginn og veginn. Það er alltaf yndislegt að heyra þau tala um afa Sigga dans enda áttir þú stóran sess í lífi þeirra.
Þú varst alltaf svo lítillátur þegar eitthvað sneri að þér en ef það átti að gera eitthvað fyrir aðra þá varst þú alltaf tilbúinn til að gera stundina eftirminnilega og mikla. Það skorti aldrei ást, vináttu eða kærleik frá þér. Þú gafst þig alltaf allan í það sem þú varst að fást við hverju sinni, svo sem að njóta þess að vera í uppáhaldssveitinni þinni Suðursveit eða í dansskólanum þínum með öllum börnunum og vinunum sem þú eignaðist þar.
Síðustu ár annaðist þú ömmu sem lá á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð þangað til hún lést nú í vor.
Þú hafðir mikla unun af því að lesa alls kyns bækur og það var gott að sofna út frá röddinni þinni þegar þú varst að lesa fyrir okkur. Það var mikill styrkur í röddinni þinni og þú hafðir einstakt lag á að beita henni og leggja áherslu á það sem þú þurftir að koma til skila. Rómur þinn yljar manni þó svo rödd þín sé nú þögnuð. Röddin og fæturnir þínir voru aðalvinnutækin þín sem danskennari. Það voru oft þreyttir fætur og rám rödd sem komu heim í lok vinnudags. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá þér og eru margar stundirnar sem við höfum grátið saman af hlátri.
Þegar við vorum börn bjó pabbi í ferðatösku. Hann ferðaðist um landið og kenndi landsmönnum dans. Þú hafðir mikla unun af því að fara út á land og kenna dans og njóta náttúrufegurðar landsins, kynnast nýju fólki og hitta allt fólkið sem þú hafðir kynnst í gegnum tíðina. Aldrei gistir þú á hótelum heldur voru það fórnfúsar fjölskyldur sem tóku þig inn á heimilin sín og nutu þess að kynnast þér enn betur. Pabbi bar alltaf sérstakar tilfinningar til þeirra sem hann hafði búið hjá á þeim árum sem hann var á ferðinni um landið. Af því að þú varst oftast einhvers staðar úti á landi að kenna dans á afmælum okkar þá var alltaf gaman að fá sent afmæliskort frá hinum og þessum stöðum á landinu.
Það eru ófá gullkornin og heilræðin sem þú hefur skilið eftir í hjörtum fólks sem naut þess heiðurs að eiga þig sem danskennara, félaga og vin.
Það hefur verið sönn ánægja að fá að vera hluti af þínu lífi og sjá hvað þér hefur tekist að áorka með því að leggja alúð í verkin þín. Verkin þín lifa og líða um á dansgólfum um allan heim.
Minning þín mun lifa lengi í hjörtum fólks og á dansgólfinu. Ég veit að þú munt vaka yfir okkur öllum.
Við fjölskyldan söknum þín en huggum okkur við það að amma muni taka á móti þér hinum megin.
Megi Guð vera með þér, elsku pabbi. Dansinn mun duna að eilífu.
Ásdís og Halldór Bogi.
Siggi bróðir er allur. Það eru ekki nema tvö ár á milli okkar og alltaf hafði ég miklar tilfinningar til hans enda ekki annað hægt þar sem Siggi var mikill öðlingur og hafði einstaklega góða nærveru, hlýr og gefandi. Við hittumst alltaf yfir jólahátíðina og mun oftar hér áður fyrr en skammarlega lítið í seinni tíð. Öll fjölskylda mín dýrkaði hann og oft spurðu krakkarnir um hann og hans hagi og alltaf var mest spennandi að opna jólapakkana frá Sigga, svo úthugsað og rausnarlegt og alltaf fylgdu jólakort með og alltaf sagði Kolla konan mín: "sjáið þið hvað hann Siggi skrifar fallega".
Fyrir um 20 árum fórum við hjónin í danskennslu hjá Sigga ásamt vinum okkar og það gleymist aldrei, þvílík skemmtun að vera með honum á hans heimavelli, þar kom hans rétti karakter vel í ljós, stæltur og svífandi um gólfið. Frúin var svo heppin að fá að dansa við hann í eitt skipti og sælusvipnum á henni gleymi ég ekki og eftir það var ég að sjálfsögðu ómögulegur dansherra.
Elsku Siggi bróðir, við leiðarlok streyma minningar fram í hugann og ég kveð þig með söknuði. Þú fórst of fljótt úr þessum heimi, það eitt er víst.
Þinn bróðir
Pétur Jökull Hákonarson.
Nú hefur einn af okkar ágætustu félögum, Sigurður Hákonarson, kvatt þetta líf. Það má með sanni segja að hann hafi helgað dansinum líf sitt og krafta. Hann lauk sínu fyrsta danskennaraprófi árið 1968, þá 23 ára gamall. Upp frá því starfaði hann sem danskennari, lengst af við skólann sinn, Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Hin síðari ár kenndi hann dans við Smáraskóla og Digranesskóla, auk þess að þjálfa keppnispör úr hinum ýmsu íþróttafélögum.
Sennilega hafa fáir íslenzkir danskennarar haft jafn mikla menntun í samkvæmisdönsum og Sigurður Hákonarson, enda kom nafn hans jafnan upp í hugann þegar leita þurfti eftir dómara í sporaeftirlit. Þar sýndi hann svo ekki varð um villst hversu góður og mikill fagmaður hann var.
Sigurður var meðlimur í Dansráði Íslands frá stofnun, þ.e. þegar Danskennararsamband Íslands (DSÍ) og Félag íslenzkra danskennara (FÍD), voru sameinuð. Auk þess var hann meðlimur í þremur af virtustu danskennarasamböndum í heiminum: Imperial Society of Teachers of Dancing (ISTD), National Association of Teachers of Dancing (NATD) og International Dance Teachers Association (IDTA).
Meðlimir Dansráðs Íslands minnast Sigurðar Hákonarsonar með þökk og virðingu og vottum við eftirlifandi ásvinum hans okkar dýpstu samúð á sorgarstundu.
F.h. Dansráðs Íslands,
Bára Magnúsdóttir forseti.
Sigurður Hákonarson er látinn. Þegar vinir fara jafn snöggt og óvænt og raunin var með Sigurð, þá tekur það nokkurn tíma fyrir þá sem eftir eru að átta sig á því að við eigum ekki eftir að hittast á ný. Hann hefur verið til staðar í dansheiminum svo lengi, sem dansari, danskennari og einnig dansdómari. Þær eru nokkrar kynslóðir sem þekktu og muna eftir Sigurði Hákonarsyni, danskennara í Kópavogi og víða um land.
Hann var afar farsæll danskennari. Hann var þó umfram allt raunsær danskennari því hann lagði áherslu á þjálfun og aftur þjálfun í grunnsporum í hverjum dansi þannig að stundum þótti áköfum ungum dönsurum nóg um. Þau sóttu þá kannski um hríð til annarra danskennara en oftar varð raunin sú að reyndustu og árangursríkustu dansarar leituðu aftur til Sigurðar Hákonarsonar.
Sigurður Hákonarson var vel látinn dansdómari. Á undanförnum árum hefur hann ávallt verið sporadómari á öllum dansmótum Dansíþróttasambands Íslands. Það hefur verið mótanefnd ómetanleg aðstoð, sem hér er þakkað fyrir. Hann tók ennfremur að sér dómarastörf fyrir Íslands hönd á erlendri grund. Hann var dómari á mótum dansíþróttasambandanna sem og á dansmótum atvinnumanna. Það var honum ávallt mikil ánægja að fylgjast með dansnemendum sínum ná góðum árangri á dansmótum. Um miðjan síðasta mánuð var haldin nemendasýning Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar sem nú er rekinn af fyrrum nemanda Sigurðar. Á meðan við fylgdumst með hverjum danshópnum af öðrum af hliðarlínunni rakti Sigurður sögu hinna ýmsu dansara. Þótt hann væri sjálfur hættur að kenna þeim þá fylgdist hann grannt með árangri þeirra og auðheyrt hversu annt honum var um þá.
Fyrir hönd Dansíþróttasambands Íslands, DSÍ, færum við þakkir fyrir allar góðar stundir með Sigurði Hákonarsyni og færum fjölskyldu hans samúðarkveðjur við fráfall hans.
Birna Bjarnadóttir,
formaður stjórnar DSÍ,
Svanhildur Sigurðardóttir, formaður mótanefndar DSÍ.
Við vorum að ljúka dansæfingu í íþróttahúsinu við Kópavogsskóla. Klukkan er níu á fimmtudagskvöldi. Við sitjum í búningsklefanum og ræðum um Sigga. Hann er ekki mættur. Fimmtudagshópurinn hans er ekki mættur. Við verðum síðust út úr húsinu í kvöld.
Siggi var vanur að koma inn í salinn til okkar í lok æfinga. Hann gekk yfir salinn til Árna og spjallaði við hann. Síðan gekk hann stundum upp á pallinn þar sem foreldrar sátu. Svo tók hann við salnum þegar við hættum og kenndi til tíu. Hann var alltaf í svörtu íþróttabuxunum sínum, svörtum bol og leðurinniskónum. Siggi var alltaf mjög snyrtilegur til fara. Hann er ekki mættur núna. Þetta er fyrsti fimmtudagurinn í allan vetur sem hann er ekki mættur. Siggi var alveg eins og venjulega síðasta fimmtudag. Þeir Árni Þór ræddu saman eins og vanalega og svo kvöddum við hann. Svo fréttum við að hann hefði dáið seinna um kvöldið.
Siggi var duglegur að hrósa okkur. Hann sagði að við dönsuðum eins og englar. Okkur fannst hann alltaf skemmtilegur. Við strákarnir byrjuðum í dansi hjá Sigga þegar við vorum fimm ára. Siggi er ástæðan fyrir því að við erum ennþá í dansi.
Við tókum eftir því að hann stóð alltaf upp þegar pörin hans byrjuðu að keppa. Hann vildi sjá pörin sín frá hvirfli til ilja. Svo kom hann til okkar og sagði okkur hvað við þyrftum að læra. Við fundum vel fyrir því að honum þótti vænt um okkur þó við hefðum skipt um dansskóla. Það urðu líka miklar breytingar hjá honum. Hann mundi alltaf eftir okkur. Hann var alltaf að laga smáatriðin hjá okkur. Sporin áttu að vera fullkomin. Þannig vildi Siggi hafa það og þess vegna náðu pörin hans alltaf svo góðum árangri.
Við söknum Sigga. Við finnum það svo vel núna þegar hann er ekki mættur í búningsklefann. Við vitum að við eigum oft eftir að minnast Sigga.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
(Vald. Briem.)
Við sendum fjölskyldu Sigga og vinum samúðarkveðjur frá Dansdeild Breiðabliks.
Haraldur Örn Harðarson,
Hörður Örn Harðarson,
Karen Magnúsdóttir,
Kristján Kristjánsson.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
(Vald. Briem.)
Sigurður Hákonarson, danskennari Íslands, hefur kvatt okkur að sinni. Hann er farinn í ferðina miklu sem við vitum að bíður okkar allra. Þegar ég kynnti Sigga fyrir nýju fólki þá lét ég gjarnan fylgja með "danskennari Íslands". Hann fór svolítið hjá sér við þetta enda hógvær maður og kurteis. Fyrir mér var þetta augljóst. Stór hópur þeirra danskennara sem starfa á Íslandi í dag voru eitt sinn nemendur hans. Þannig áhrif hafði Siggi á unga fólkið, að þeir sem lærðu dans hjá honum kusu margir að gera dansinn að ævistarfi sínu. Þeir dansarar á Íslandi sem náð hafa lengst hafa flestir notið þeirrar sérstöðu að vera í einkatímum hjá Sigga. Þannig hefur Siggi mótað okkar besta dansíþróttafólk. Hann var kröfuharður og skapandi listamaður. Dansíþróttin á Íslandi á Sigurði Hákonarsyni mikið að þakka. Kópavogsbúar eiga Sigga mikið að þakka fyrir að hafa valið dansskólanum sínum stað í Kópavogi. Siggi hefur haldið dansnámskeið víða um land í gegnum árin. Margir hafa því notið hæfileika hans.
Það var mikið lán fyrir mig og mína fjölskyldu þegar sonur minn, þá nýorðinn fimm ára, byrjaði að læra dans hjá Sigga. Það gekk á ýmsu í byrjun eins og hjá mörgum. En Siggi tók öllu af æðruleysi og sagði jafnan: "Þetta kemur, hafðu engar áhyggjur." Hann var sannspár. Hann vissi af reynslunni að þetta kæmi. Við höfðum eignast tryggan stuðningsmann.
Um nokkurra ára skeið hittumst við Siggi nánast daglega á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. En mæður okkar beggja innrituðust á svipuðum tíma á hjúkrunarheimilið. Þar hittumst við mörg kvöldin, þegar við vorum að heimsækja mæður okkar. Þarna vorum við í öðrum hlutverkum en í dansskólanum. Tengsl Sigga við Ásdísi móður sína voru mjög sterk. Það var einstakt að fylgjast með honum í því nýja umönnunarhlutverki sem lífið hafði falið honum.
Það urðu miklar breytingar á lífi Sigga við andlát móður hans. Hann seldi dansskólann, sem hann hafði rekið í Kópavogi um áratuga skeið. Um svipað leyti bauð ég honum stöðu danskennara við Smáraskóla. Hann gegndi því starfi farsællega til æviloka. Hann naut þess að vera laus við áhyggjurnar sem fylgdu því að reka fyrirtæki. Þetta nýja líf átti mjög vel við Sigga. Hann fann fyrir miklu frelsi. Hann hafði oft orð á því við mig að hann hefði átt að gera þetta miklu fyrr. Hann gat nú loksins gert það sem hann vildi. Hann hélt áfram að gera það sem honum fannst skemmtilegast, þ.e. að kenna fólki á öllum aldri dans. Hann fékk inni í íþróttasal við einn af skólunum í Kópavogi. Þar hittumst við oft á fimmtudagskvöldum í vetur. Hann gat tekið sér frí nánast þegar hann vildi. Utanlandsferðir voru orðnar fastur liður í hinu nýja lífi. Hápunkturinn var í haust þegar hann var beðinn um að koma til Rómar að dæma á heimsmeistaramótinu í dansi. Það gladdi hann mjög að vera kvaddur til þessa ábyrgðarmikla verkefnis. Hann kom nýlega til mín til að kanna hvenær jólaleyfið byrjaði, því hann ætlaði til Kanaríeyja. Í síðustu viku sagði hann mér að hann væri búinn að kaupa miðann. Hann hlakkaði mikið til. Við vissum ekki að það væri svona stutt í annað og lengra ferðalag. Siggi var kvaddur í það ferðalag eins og hann hafði óskað sér. Hann hafði lokið sinni síðustu kennslustund á fimmtudagskvöldi og frídagurinn hans, föstudagurinn, var framundan. Siggi var ekki mikið fyrir að ónáða annað fólk. Hann var búinn að leggja vel inn á lífsins bók og uppskar í samræmi við það - en tuttugu árum of snemma að mínu mati. Sá sem öllu ræður ætlar honum víst sérstök verkefni annars staðar.
Ég þakka fyrir að hafa fengið að vera samferða Sigga á lífsins braut. Ég þakka fyrir störf hans við Smáraskóla.
Ég sendi börnum Sigurðar, barnabörnum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni og frá öllum í Smáraskóla.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Valgerður Snæland Jónsdóttir, skólastjóri Smáraskóla.
Það er með sorg í hjarta og söknuði sem við kveðjum Sigurð Hákonarson danskennara sem kvaddi allt of fljótt og óvænt.
Við þökkum samstarfið og biðjum þann sem öllu ræður að vera með góðum dreng.
Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Helgi Halldórsson
skólastjóri, starfsfólk og nemendur Digranesskóla.
Kveðja frá Dansfélaginu Hvönn
Sigurður, hafðu bestu þakkir fyrir allt sem þú gerðir fyrir krakkana hjá okkur frá stofnun félagsins fyrir 10 árum og að koma þeim í fremstu röð með þinni fagmennsku og þolinmæði. Saga félagsins verður ekki skrifuð án þess að þín verði minnst sem besta danskennara, þjálfara og vinar, sem við höfum haft.Ég var beðinn að koma innilegustu samúðarkveðjum til fjölskyldu Sigurðar frá Þýskalandi frá Andreu Kiefer, Thomasi Lindner, Ute Streicher og Manuelu Faller, með þakklæti og virðingu fyrir að hafa fengið að starfa með honum í 10 ár.
Við kveðjum Sigurð með söknuði um leið og við sendum börnum hans, Ásdísi og Hallóri Boga, ættingjum og vinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hafsteinn Örn Guðmundsson, formaður.
Enn á ný erum við minnt á hve stutt er milli lífs og dauða. Stórt skarð er komið í okkar litla danssamfélag. Genginn er einn af frumkvöðlum í íslenskri danssögu, Sigurður Hákonarson og verður það skarð sem hann skilur eftir sig seint fyllt. Siggi var einn virtasti danskennari Íslands og hafði aflað sér mikillar þekkingar í dansinum Siggi var strangur kennari og gerði miklar kröfur til nemenda sinna en þó ekki meiri en til sjálfs síns. Siggi var nákvæmur, vandvirkur og sinnti nemendum sínum af miklum áhuga og metnaði. Frá því Dansíþróttafélag Kópavogs var stofnað fyrir 5 árum, en það var stofnað í kringum keppnispör í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar, höfum við átt farsælt og gott samstarf við Sigga. Mikil hefð var í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar sem hann átti hvað mestan þátt í að skapa. En það voru opnar dansæfingar á laugardagskvöldum þar sem Siggi bauð upp á nýbakaðar vöfflur og kaffi. Hann tók glaður á móti unglingum okkar sem voru farnir að mæta til hans í opna húsið á laugardagskvöldum að dansa. Það er ekki langt síðan við samglöddumst honum í tilefni af sextíu ára afmælinu hans og ekki hvarflaði það að okkur þá að við þyrfum að kveðja hann í síðasta skipti aðeins tveimur mánuðum seinna.
Elsku Siggi, hvíldu í friði.
Börnum hans og öðrum aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Stjórn Dansíþróttafélags Kópavogs.
Siggi, þú varst okkur mikils virði og varst góður stuðningsmaður á framabraut okkar og alltaf til staðar. Þú sýndir okkur væntumþykju og áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur og einnig á framtíðaráformum okkar. Oft töluðum við tímunum saman um lífið sjálft, dansinn og deildum sameiginlegri þekkingu á faginu. Þú gafst góð ráð af þinni margra ára reynslu og þekkingu og fyrir það munum við ætíð vera þakklát. Við munum sakna samverustundanna yfir kaffibolla og einnig hlýjunnar frá nærveru þinni þegar við heilsuðumst og kvöddumst í hvert skipti, þegar við komum heim til Íslands. Við munum sakna þess að sjá stoltið í augum þínum þegar okkur gengur vel í keppnum og hvatningu þegar á móti blæs. En mest af öllu munum við sakna þín.
Við þökkum þér fyrir þann tíma sem við áttum með þér og erum þess fullviss að við munum hittast á ný.
Hinsta kveðja til þín. Fjölskyldu þinni vottum við okkar dýpstu samúð.
Adam og Karen.
Sigurður Hákonarson danskennari varð bráðkvaddur á heimili sínu hinn 3. des. sl. Hringt var í mig og mér sögð fréttin. Mér brá mjög við og setti hljóða. Siggi (eins og hann var kallaður) hafði nýlega orðið sextugur og því allt of ungur til að falla frá.
Það er þannig að þegar menn falla frá þá leitar hugurinn til baka. Ég kynntist Sigga fyrir um 30 árum. Bæði hófum við nám hjá Heiðari Ástvaldssyni og stofnuðum síðar okkar eigin dansskóla, hans Dansskóli Sigurðar Hákonarsonar. Á þessum tíma sátum við í prófnefnd Danskennarasambands Íslands, settum upp sýningar og stóðum að, ásamt Níelsi Einarssyni, fyrstu Íslandsmeistarakeppni í samkvæmisdönsum. Við áttum sameiginlegt áhugamál sem var dansinn og gerðum áhugamálið að ævistarfi. Við fylgdumst því vel með starfi hvor annars og áttum góð samskipti.
Mikil fagmennska var í störfum Sigga. Hann ferðaðist mikið erlendis og sótti bæði keppnir og námskeið, sérstaklega á Englandi. Á sínum yngri árum sótti Siggi dansnám í Newcastle. Þar kynntist hann m.a. Julie Tomkins danskennara. Þau sóttu tíma hjá sömu danskennurunum þar og menntuðu sig frekar sem danskennarar. Tókst með þeim mikil vinátta og kærleikur. Tóku þau upp þráðinn að nýju fyrir u.þ.b. tveimur árum er Julie kom hingað til lands sem gestakennari minn. Tilkynnti ég henni látið og var hún harmi slegin. Hún sagðist ekki hafa tök á því að vera viðstödd jarðarförina en bað fyrir bestu kveðju til vina hér á landi og ættingja Sigga.
Mikil sorg er í hjörtum manna, fjölskyldu, vina og ættingja. Ekki síst öllum þeim danspörum sem Siggi kenndi og þjálfaði af sínum dugnaði og metnaði. Hann var strangur þegar það átti við, en hafði stórt hjarta og gaf af sér mikla hlýju. Hann var mikill fagmaður. Siggi hafði sérstakt dálæti á ballroom dönsum. Til hans sóttu danskennslu m.a. pör frá mér. Það var erfið stund á laugardaginn að tilkynna börnunum andlát Sigga. Mikið var grátið og mikill er söknuðurinn. Þau sakna sárt góðs danskennara og jafnframt góðs vinar sem þau litu mjög upp til.
Elsku Siggi, þú markaðir stór spor í dansinn á Íslandi. Þar verður þín ætíð minnst og erfitt að ímynda sér hann án þín.
Siggi var búinn að kaupa ferð til Kanaríeyja nú um jólin til að dvelja í sól og hita. Góður Guð hefur kallað hann með svo skömmum fyrirvara til annarrar ferðar. Ferðar sem við fáum ekki breytt.
Ég og fjölskylda mín vottum börnum, barnabörnum og ættingjum hans öllum okkar innilegustu samúðar og biðjum þess að góður Guð veiti þeim styrk til að takast á við sorgina á þessum erfiða tíma. Einnig biðjum við góðan Guð um að styrkja danspörin hans sem sakna hans óendanlega mikið og barnanna í grunnskólunum.
Megi minningin um hjartahlýjan mann, einstakan vin og starfsfélaga verða ykkur styrkur í þessari miklu sorg.
Guð geymi Sigurð Hákonarson.
Auður Haraldsdóttir
danskennari.
Sigurður Hákonarson, eða Siggi eins og hann var ávallt kallaður, er allur. Þessi fregn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég kynntist Sigga fyrir 25 árum. Þá hafði hann nýlega stofnað dansskólann sinn og vantaði starfsfólk. Hann hafði hitt Hermann Ragnar Stefánsson danskennara í flugvél og kom hann Sigga í samband við mig. Ég gleymi aldrei hvernig Siggi leit út þegar ég sá hann fyrst. Búinn að taka sjálfan sig allan í gegn. Grannur, með yfirvaraskegg, keðju um hálsinn og sígarettu í hönd. Þetta átti allt eftir að breytast fram og til baka nema sígarettan sem fylgdi honum ávallt. Ef hann var spurður hversu mikið hann reykti á dag þá var svarið, "eins mikið og ég kemst yfir".
Siggi hóf danskennaranám hjá Heiðari Ástvaldssyni en fór síðan til Ipswich á Englandi og tók danskennarapróf þar. Hann hélt síðan ávallt sambandi við þann dansskóla og fór fjölda ferða með nemendur og kennara sína þangað til dansnáms. Hann tók öll próf sem í boði eru á Englandi í samkvæmisdönsum og nutum við sem höfum lært til danskennara hjá honum góðs af því. Það eru fáir sem hafa kunnað bóklegu hliðina á dansinum eins vel og hann og var hann eins og orðabók sem hægt var að fletta upp í ef mann vantaði svör við spurningum eins og: Á að stíga fram í hæl eða tá? eða, hvernig skiptist snúningurinn niður á milli sporanna? Siggi var félagsmaður í Danskennarasambandi Íslands og var síðar einn af stofnendum Félags íslenskra danskennara. Seinna sameinuðust þessi félög í Dansráð Íslands og sat Siggi í stjórn Dansráðsins um tíma. Hann sat í prófnefnd Dansráðsins til dánardags. Siggi var með alþjóðleg dómararéttindi WD&DSC sem eru alþjóðleg samtök atvinnumanna í dansi og er hann nýkominn frá Róm á Ítalíu þar sem hann var fulltúi Íslands og dæmdi heimsmeistaramót atvinnumanna í 10 dönsum.
Í lífi Sigga skiptust á skin og skúrir og átti Bakkus sinn þátt í því. Sem betur fer náði Siggi að slíta þeim vinskap sem hafði kostað hann of mikið. Hann var mjög náinn Ásdísi móður sinni og tóku veikindi hennar síðustu æviárin mikið á hann.
Ég sé núna Sigga svífandi um á skýjunum dansandi uppáhalds dansinn sinn, enskan vals.
Það er mikill missir fyrir okkur í dansheiminum á Íslandi að Siggi sé farinn frá okkur. Með honum fer mikil þekking og reynsla. Þó er missirinn meiri hjá fjölskyldu hans og vil ég að lokum senda samúðarkveðjur til barna hans og bræðra. Megi Guð vera með ykkur í sorginni.
Kara Arngrímsdóttir.
Elsku Siggi, ég veit varla hvar ég á að byrja, það er svo margt sem fer í gegnum hugann á stundum sem þessum sem sýna okkur hversu viðkvæmt lífið er. Eina stund erum við hlið við hlið, þá næstu ert þú farinn. Kynni okkar voru löng og góð, og byrjuðu fyrir 29 árum er ég byrjaði sem nemandi þinn í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar í Félagsheimili Kópavogs í Fannborg. Þá var ég aðeins 4 ára gömul, þú tókst á móti mér með sítt krullað bítlahár og alltaf flottur í tauinu.
Nú síðasta árið störfuðum við saman hjá Dansfélaginu Hvönn í Kópavogi og er það sannur heiður að hafa fengið að starfa við hlið þér, besta ballroom-danskennara landsins. Þitt sæti verður seint fyllt, ef það verður það nokkurn tímann.
Margar góðar minningar tengjast þér, Siggi, sem kennara, samstarfsmanni og ekki síst sem vini. Kennslustundir, sýningar og ferðalög um landið. Allar keppnis- og æfingaferðirnar til Ipswich í Bretlandi. Kvöldstundir í Ástúni horfandi á dansspólur. Blackpoolferðir. Undirbúningur fyrir kennarapróf í Auðbrekkunni og góðar vinastundir, talandi um allt milli himins og jarðar.
Siggi, ég kveð þig með sorg í hjarta, en þú lifir áfram hjá okkur í dansinum, hjá öllum þeim sem þú kenndir og mótaðir. Þau dansa áfram þér til heiðurs.
Hildur Ýr Arnarsdóttir,
danskennari.
Nú er komið að kveðjustundinni, miklu fyrr en ætlað var. Okkur langar að þakka þér fyrir allar þær stundir, sem við áttum saman.
Siggi minn, þolinmæði þín var ekki takmörkunum háð og húmorinn svo sannarlega á réttum stað. Þú varst mannþekkjari mikill og fagmaður á þínu sviði. Það eru fáir, sem geta fetað í fótspor þín, hvað það varðar. Dansinn var ekki aðeins atvinna þín, heldur einnig áhugamál þitt. Þú vildir að fólk stigi rétt í fæturna og bæri sig vel. Ef vafa- eða ágreiningsmál kom upp í dansinum, var viðtekin venja að segja: "Spyrjum bara Sigga." Þar var nú aldeilis ekki komið að tómum kofunum. Við vorum svo heppin að fá að njóta nokkurra brota af þinni miklu þekkingu. Þú varst gangandi alfræðiorðabók í samkvæmisdönsum.
Þú lagðir sífellt áherslu á að grunnsporin væru rétt. Þú vildir einnig og ekki síður að vinskapur væri byggður á góðum grunni. Þú varst vinur vina þinna, trúr og traustur.
Það var alltaf ánægjulegt að koma til þín í Auðbrekkuna á laugardagskvöldum og dansa eftir þeirri fallegu tónlist, sem þú valdir ekki síst í valsinum! Ekki má nú gleyma rjúkandi heitu vöfflunum góðu, sem þú bakaðir handa okkur eftir uppskrift mömmu þinnar.
Vertu sæll, Siggi minn. Við kveðjum þig með miklum söknuði, kæri vinur, með orðum Jóhannesar úr Kötlum:
Vort líf er svo ríkt af ljóssins þrá,
að lokkar oss himins sólarbrá,
og húmið hlýtur að dvína,
er hrynjandi geislar skína.
Vor sál er svo rík af trausti og trú,
að trauðla mun bregðast huggun sú,
þó ævin sem elding þjóti,
guðs eilífð blasir oss móti.
Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást,
að hugir í gegnum dauðann sjást.
- Vér hverfum og höldum víðar,
en hittumst þó aftur - síðar.
(Jóhannes úr Kötlum.)
Kristín og Ólafur,
Hólmfríður og Tómas.
Við vorum að velja okkur jólatré úr skóglendi og nýbúin að höggva það frá rótum sínum þegar síminn hringdi og okkur barst sú fregn að höggvið hefði verið skarð í vinahópinn okkar. Sigurður Hákonarson danskennarinn góði skyndilega fallinn frá. Viku áður fylgdist ég með kennslu hjá honum þar sem hann var að þjálfa stóran hóp af glæsilegum ungmennum og leiðbeindi þeim af nákvæmni fagmannsins til að auka tækni þeirra í vandasömum dansi. Hann sagði mér þá að laugardagarnir væru skipulagðir þannig að hann kenndi einkatíma fyrir hádegi, síðan kæmi tveggja klukkustunda þjálfunarlota með allmörgum pörum unglinga sem ég veit að eru í hópi færustu dansara landsins. Á hverju laugardagskvöldi var hann svo með opið hús í Auðbrekku 17 fyrir fullorðna sem vildu koma og dansa samkvæmis- og suður-ameríska dansa, og ekki nóg með það því að Sigurður bakaði líka vöfflur og veitti öllum kaffi með vöfflum og rjóma milli þess sem hann stjórnaði danstónlistinni.
Hann var nýlega orðinn 60 ára og við vonuðum svo sannarlega að hann ætti mörg ár eftir til að auka við dansmennt ungra og aldinna eins og hann hafði gert í tugi ára. En kallið kom öllum að óvörum í miðri hringiðu starfsins.
Það var fyrir meira en 20 árum að við tókum okkur saman allmörg vinapör og skráðum okkur í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Eftir það varð eitt eða fleiri kvöld í viku alla vetrarmánuði frátekið til að dansa undir leiðsögn Sigga Hákonar. Dansinn varð okkar tómstundaiðja og áhugamál því að danskennarinn hélt okkur föngnum við þjálfun danslistarinnar.
Sigurður átti stóran þátt í að farið var að keppa í dansi á Íslandi og við tókum þátt í keppnum undir hans handleiðslu í mörg ár. Keppnistímabil okkar hafði mikil áhrif til aukinnar þjálfunar sem við búum að. Hann þjálfaði ekki bara dansinn heldur líka hvaða lögmál gilda í keppnum þar sem einungis eitt par sigrar og hann lagði áherslu á að sá sem ekki kynni að tapa og gleðjast með sigurparinu gæti ekki tekið þátt í keppni.
Efnilegir dansarar lærðu að kenna dans hjá Sigurði og má þar meðal annarra nefna nokkra danskennara svo sem Jón Pétur Úlfljótsson, Köru Arngrímsdóttur, Jóhann Örn Ólafsson, Loga Vígþórsson, Ásdísi Björnsdóttur, Hildi Ýr Arnarsdóttur, Edgar K. Gapunay og Þröst Jónsson sem stofnaði dansskóla í Hong Kong.
Sigurður var mikils metinn danskennari bæði hér á landi og erlendis og sem dæmi um það má nefna að í haust var hann beðinn að koma til Rómar að dæma í alþjóðlegri keppni atvinnudansara 22. október. Ég saknaði þess að svo mikils heiðurs skyldi ekki vera getið í fjölmiðlum en Sigurður vann ævinlega í kyrrþey og vildi ekki eyða tíma í að auglýsa sjálfan sig, hann fór til Rómar og var þar landi okkar til sóma og kom til baka með sömu hógværðinni og alla tíð einkenndi hann. Hann var traustur vinur sem var eiginlegra að gera öðrum greiða en að biðja einhvers fyrir sjálfan sig.
Sigurður bjó lengi með móður sinni og sinnti henni af mikilli elskusemi allt þar til hún lést, þá orðin mikill sjúklingur og komin á Sunnuhlíð. Hann heimsótti hana þar á hverjum degi þrátt fyrir að hún gæti þá lítið tekið þátt í samræðum. Hann var hreykinn afi og varð alltaf mjög glaður þegar minnst var á barnabörnin.
Blessuð sé minning Sigurðar Hákonarsonar. Við Jón Freyr vottum fjölskyldu Sigurðar okkar innilegustu samúð.
Matthildur Guðmundsdóttir.
Í tæp tuttugu ár hef ég vitnað í Sigurð Hákonarson og haft að leiðarljósi í mínu starfi það sem hann kenndi mér. Siggi var danskennarinn minn, lærifaðir og meistari. Öll mín æskuár var mér ekið í Auðbrekkuna í danstíma og á sautjánda ári ákvað ég að feta í fótspor Sigga og verða danskennari. Þetta var á gullaldarárum skólans. Siggi hafði einstakt lag á að laða til sín ungt fólk til starfa og hann útskrifaði marga frábæra danskennara með hæstu einkunn. Árið 1986 var fyrst haldin Íslandsmeistarakeppni í samkvæmisdönsum. Margir nemendur Sigga kepptu og þeir sópuðu til sín verðlaunum. Keppnin var haldin árlega, keppendum fjölgaði gríðarlega og nemendur Sigga vöktu mikla athygli. Árangur hans sem þjálfara var ótrúlegur og verður varla leikinn eftir. En þrátt fyrir mikla velgengni í starfi var lífið ekki alltaf dans á rósum hjá Sigga. Hann bjó einn og var oft einmana. Áfengi hafði slæm áhrif og hann reykti auðvitað allt of mikið. Hann hefði eflaust lifað lengur hefði hann farið betur með sig. En Siggi hafði dansinn að lífsförunaut og í honum fann hann sína gleði. Siggi var yfirburða danskennari og lagði líf sitt og sál í kennsluna. Hann lærði á Englandi, í Ipswich School of dancing. Þangað fór hann á sumrin til að auka þekkingu sína og tók okkur krakkana sína með. Þaðan eru ótal góðar minningar um Sigga í návist við sína bestu vini. Síðustu árin var Siggi farinn að hægja ferðina. Einn af krökkunum hans tók við skólanum og Siggi starfaði sem danskennari hjá grunnskólum Kópavogs. Á sextugsafmælinu hans í haust bauð ég honum út að borða og við áttum saman ógleymanlegt kvöld. Það var létt yfir Sigga. Hann var á leið til Ítalíu að dæma heimsmeistaramót atvinnumanna í dansi og á jólunum ætlaði hann að hvíla lúin bein á Kanaríeyjum. Er við skildum sagðist hann búa lengi að þessu kvöldi. En nú hefur meistarinn kvatt og við sem fengum að njóta hæfileika hans og vináttu stöndum í eilífri þakkarskuld. Og á himnum er nú dansað sem aldrei fyrr og allir eru í takt.
Jóhann Örn Ólafsson.
Fyrir hönd nemenda dansskóla Sigurðar Hákonarsonar votta ég fjölskyldu og öllum ástvinum mína dýpstu samúð.
Takk fyrir allt,
Edgar K. Gapunay (Eddi).
Laugardagurinn 3. des. rann upp, hefðbundin kennsla í Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar var hafin og hið árlega jólahlaðborð hjá dansskólanum átti að vera um kvöldið. Við vorum að klára okkar aðra kennslustund þegar sorgarfréttin barst, að Siggi væri látinn. Ekki hefði mig órað fyrir því að þegar Siggi kom upp í dansskóla fyrir rétt rúmri viku og Arna dóttir mín tók svo vel á móti honum, faðmaði hann og knúsaði, að það yrði okkar síðasti fundur.
Kynni okkar Sigga hófust fyrir 24 árum þegar ég hóf danskennaranám hjá honum. Starfsvettvangur Sigga var mikið úti á landi á meðan hann var að byggja upp skólann sinn í Kópavogi og vann ég mikið með honum mín fyrstu ár í dansinum. Í vinnu sem þessari skapast mikil nálægð og tengslin verða öðruvísi en gerist í hefðbundinni vinnu. Siggi var sterkur persónuleiki og má líkja honum við íslensku náttúruna, sterkur og litríkur, kraftmikill og traustur. Hann lagði metnað sinn í að sinna sínum viðskiptavinum af alúð og af mikilli fagmennsku. Hann var góður kennari, hann þjálfaði alla nemendur sína eins og þeir væru að fara í keppni hvort heldur það voru hjónin sem komu í dans til þess að geta bjargað sér á dansgólfinu, keppnispör eða litlu krakkarnir. Allir útskrifuðust með réttan fótaburð og fallega dansstöðu, eins og hann sagði alltaf: "Það er ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin", enda sannaði það sig þegar danskeppnir hófust hér á landi að pörin úr dansskólanum hans stóðu sig alltaf vel. Þjálfaði hann mörg af okkar bestu ballroom dönsurum, enda var það hans sérgrein og hans uppáhalds dansar.
Siggi var vinsæll af nemendum sínum enda bæði harður kennari og skondinn í leiðsögn. Hann var mikill dansunnandi og fór reglulega til Englands í skólann þar sem hann nam dans á sínum yngri árum til þess að hlaða batteríin, dýpka þekkingu sína og halda sér í þjálfun. Hann gaf okkur kennurunum tækifæri til að koma með sér og þjálfa okkur, voru þetta stífar æfingabúðir sem skiluðu góðum árangri.
Síðar meir þróuðust þessar ferðir út í það að hann gaf nemendum sínum einnig tækifæri á að koma í æfingabúðirnar með sér sem hafði mikla þýðingu fyrir þróun dansíþróttarinnar hér á landi.
Að reka og byggja upp dansskóla krafðist alls hans tíma og tók hann þá ákvörðun fyrir einu og hálfu ári að söðla um og seldi skólann og sneri sér að því að kenna dans í grunnskólum, auk þess sem hann sinnti áfram einkatímum. Hann var orðinn þreyttur á því að vinna öll kvöld og allar helgar og vildi fara að slaka svolítið á en það tímabil í lífi hans stóð ekki lengi.
Elsku Siggi, um leið og ég kveð þig með söknuði vil ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér, ég mun búa að því alla ævi að hafa notið leiðsagnar þinnar og vináttu.
Dansíþróttin hefur misst mikið með þínum vistaskiptum en þín mun verða minnst sem fagmanns í greininni. Ég veit að á móti þér verður tekið með ljúfri sveiflu hjá almættinu.
Að lokum vil ég og fjölskylda mín votta aðstandendum okkar dýpstu samúð og biðjum algóðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Ásdís Björnsdóttir.
Ég fékk þær hræðilegu fréttir um hádegi laugardaginn 3. desember að elskulegi Siggi minn væri dáinn. Ég átti mjög erfitt með að taka því og var viss um að þetta væri bara hræðilegur draumur.
Ég kveikti á fallegu kerti fyrir þig, elsku Siggi minn, og þá kom skellurinn, ég áttaði mig á að þú værir ekki lengur hér. Ég mundi eftir mynd af okkur saman sem ég á heima og er hún komin í ramma sem stendur hjá kertinu þínu. Á myndinni eru við tvö á flugvellinum í Svíþjóð og þú ert að knúsa mig svo mikið og fast eins og þú varst vanur að gera.
Það ríkir mikil sorg hjá nemendum þínum í Smáraskóla og hafa þau miklar áhyggjur af því hver eigi nú að kenna þeim dans. Börnin í mínum bekk eru búin að ákveða það að þetta verði allt í lagi því að þú munir kenna öllum hinum englunum að dansa.
Það er ótrúlegt hvað litlu englarnir okkar í bekknum mínum eru búnir að hjálpa mér mikið, litlu englarnir sem þú varst svo stoltur af. Ég grét mikið í skólanum á mánudaginn og alltaf komu þau og tóku utan um mig að hugga mig.
Hún Lára Angele litla frænka þín sem þér þótti svo mikið vænt um er búin að tala mikið um hann Sigga frænda sem hún leit mikið upp til. Hún er ótrúlega sterk og dugleg og sagði mér að nú yrði hún bara að geyma Sigga frænda í hjartanu sínu og það mun ég líka gera.
Ég er svo þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk að eyða með þér og þá sérstaklega tímanum sem við áttum saman í dansinum. Strangur kennari en um leið ofboðslega hlýr og góður maður eru orðin sem koma upp í huga mér núna þegar ég hugsa um þig. Við gátum talað mikið saman um lífið og tilveruna og alltaf gat ég treyst þér fyrir öllu sem mér lá á hjarta. Ég á eftir að sakna þess mikið að geta ekki talað við þig, leitað til þín og fengið knús frá þér.
Að lokum vil ég votta öllum þínum ástvinum mína dýpstu samúð og megi guð gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma.
Ég kveð þig í síðasta skipti með orðunum sem þú kvaddir mig alltaf, "See you baby".
Þín
Kristíana Kristjánsdóttir (Nana).