Jólagjafir fyrir garðyrkjuáhugafólk og aðra ræktunarþenkjandi aðila geta verið af ýmsum toga.
Jólagjafir fyrir garðyrkjuáhugafólk og aðra ræktunarþenkjandi aðila geta verið af ýmsum toga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓLIN nálgast nú hraðar en nokkur getur gert sér í hugarlund, rétt eins og gerist á hverju ári.

JÓLIN nálgast nú hraðar en nokkur getur gert sér í hugarlund, rétt eins og gerist á hverju ári. Þetta er eins og fyrsti snjór vetrarins sem kemur almenningi alltaf í opna skjöldu, maður veit af jólunum rétt handan við hornið en allt í einu eru þau komin og farin, nýja árið gengið í garð og vorið knýr á dyrnar. Jólaundirbúningurinn er misumfangsmikill hjá fólki en val á réttu jólagjöfinni er alltaf svolítið snúið. Hér fylgja því nokkrar hugmyndir að jólagjöfum fyrir garðyrkjuáhugafólk og aðra ræktunarþenkjandi aðila.

Handbækur hvers konar eru sérlega mikilvægar fyrir þá sem leggja stund á garðyrkju. Það er nauðsynlegt að geta flett upp hinum ýmsu upplýsingum um plöntutegundir, jarðveg, meindýr og sjúkdóma sem herja á plöntur, áburðarþörf plantna og fleiri slík atriði. Íslendingar búa svo vel að til eru þó nokkrar slíkar bækur á íslensku en fyrir þá sem eiga leið til útlanda er alveg tilvalið að kippa garðyrkjubókum með sér heim og gefa þær í jólagjöf. Auðvitað er þá heppilegra að sá sem fær bækurnar í jólagjöf skilji tungumálið sem þær eru skrifaðar á, það auðveldar verulega notkun á bókunum.

Önnur hugmynd að jólagjöf eru fræ. Fræ eru nokkurs konar jólapakkar náttúrunnar. Innihaldi fræjanna er pakkað haganlega inn í fræskurnina sem getur verið ákaflega fjölbreytt og oft á tíðum kemur innihaldið verulega á óvart. Stærð fræjanna er ákaflega mismunandi, allt frá fræjum sem sjást varla með berum augum upp í fræ sem vega nokkur kíló. Velji maður það að gefa ástvini sínum fræ í jólagjöf er sniðugt að láta leiðbeiningar um meðhöndlun fræjanna fylgja með í pakkanum.

Þeir sem ekki hafa mikla peninga milli handanna en vilja samt gefa græna jólagjöf, geta gefið vinum og ættingjum ávísun á garðvinnu næsta sumar. Þarna mætti til dæmis gefa loforð um arfahreinsun í nokkra klukkutíma, kantskurð á grasflöt, upptöku á kartöflum, vökvun á plöntum í pottum og kerum á meðan garðeigandinn fer í frí og svo mætti lengi telja. Þetta er líka bráðsniðug gjöf handa fólki sem á allt nema kannski tíma.

Tjarnir hafa verið að ryðja sér til rúms í íslenskum görðum undanfarin ár. Falleg tjörn gæti verið alveg fyrirtaks jólagjöf enda eru tjarnirnar til í öllum stærðum og gerðum. Hægt er að fá litlar innitjarnir sem hafa róandi áhrif á hugann og gefa skemmtilega stemningu með vatnsnið sínum. Svo má splæsa í stórar tjarnir í garðinn og jafnvel láta vinnu við uppsetningu tjarnarinnar fylgja með í pakkanum. Varast ber þó að fylla tjarnirnar vatni áður en þeim er pakkað inn því jólapappír almennt er ekki mjög vatnsheldur.

Ljós í garðinn eru sívinsæl jólagjöf og þarna kennir svo sannarlega margra grasa. Allir ættu að geta fundið gjöf við hæfi pyngju sinnar í þessum flokki því hér má finna allt frá litlum útikertum upp í gullslegna og útflúraða lampa. Þar ræður smekkur hvort maður vill gefa lifandi ljós (rétt er þá að láta eldspýtur fylgja með) eða rafmagnsljós.

Vonandi nýtast þessar hugmyndir til þeirra sem vilja gefa grænar og vænar jólagjafir en rétt er að hafa í huga að þetta er alls ekki tæmandi listi, möguleikarnir eru óþrjótandi.

Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur