ÆFINGAR eru hafnar í Borgarleikhúsinu á nýju íslensku leikverki eftir Jón Gnarr. Leikverkið nefnist Naglinn og fjallar á gráglettinn hátt um karlmennskuna á vorum dögum. Naglinn stendur á tímamótum í lífi sínu.

ÆFINGAR eru hafnar í Borgarleikhúsinu á nýju íslensku leikverki eftir Jón Gnarr. Leikverkið nefnist Naglinn og fjallar á gráglettinn hátt um karlmennskuna á vorum dögum.

Naglinn stendur á tímamótum í lífi sínu. Hann er að nálgast fimmtugt og þarf að gangast undir læknisrannsókn. Það fær hann til að staldra við og skoða líf sitt. Til hvers hefur hann verið að strita í sveita síns andlitis við að reyna að standa sig? Hvað þýðir það að vera karlmaður í dag? Hvar stendur hann eftir að hafa átt fimm börn með þremur konum, tvígiftur, búinn að flísaleggja sjö baðherbergi og slá upp svo mörgum milliveggjum að hægt væri að byggja úr þeim samanlagt tvö 200 fermetra einbýlishús?

Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Það er 540 Gólf leikhús í samvinnu við Borgarleikhús sem standa að sýningunni. Leikmynd gerir Þórarinn Blöndal, Helga Rún Pálsdóttir sér um búninga, aðstoðarleikstjórn og lýsing er í höndum Skúla Gautasonar, tölvuvinnsla Sigurþór A. Heimisson, hreyfimyndir og vídeó Sveinn M. Sveinsson. Með hlutverk Naglans fer Gunnar Sigurðsson. Jón Stefán Kristjánsson leikur öll aukahlutverkin í sýningunni sem eru um 20 talsins. Frumsýning er fyrirhuguð á bóndadaginn, 20. janúar. Sýnt verður á Litla sviðinu.