BRESKI spretthlauparinn Dwain Chambers segir í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC , að hann hafi notað steralyfið THG reglulega í allt að 18 mánuði áður en hann féll á lyfjaprófi hinn 1. ágúst árið 2003, en hann var dæmdur í tveggja ára keppnisbann.

BRESKI spretthlauparinn Dwain Chambers segir í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC , að hann hafi notað steralyfið THG reglulega í allt að 18 mánuði áður en hann féll á lyfjaprófi hinn 1. ágúst árið 2003, en hann var dæmdur í tveggja ára keppnisbann. Chambers var því að nota ólögleg lyf er hann vann til gullverðlauna á Evrópumeistaramótinu í München í Þýskalandi en þar kom hann fyrstur í mark í 100 metra hlaupi og var í bresku boðhlaupssveitinni sem vann gull í 4x100 metra hlaupi.

"Ég á það á hættu að missa gullverðlaunin og að breska metið mitt í 100 metra hlaupi verði þurrkað út en ég verð að lifa með því. Ástandið verður ekki verra en það er í dag," segir Cambers en hann segir að árið 2002 hafi hann byrjað að nota THG steralyfið og það hafi verið Victor Conte frá BALCO lyfjafyrirtækinu sem hafi komið efninu til hans. Chambers segir að efnið hafi verið skilgreint sem fæðubótarefni og hann hafi því ekki spurt frekar um það sem hann var að taka inn. "Það var rangt af mér að gera það ekki og ég lagði mig ekki fram við að fá upplýsingar frá Conte," sagði Chambers. Conte var úrskurðaður í fjögurra mánaða fangelsisvist á þessu ári þar sem hann var dæmdur sekur um að hafa komið ólöglegum lyfjum með skipulögðum hætti til íþróttamanna.