Leikurinn í Grafarvogi var afar fjörugur þar sem sóknarleikurinn var í aðalhlutverki. Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 20:18. Sergei Serenko skoraði flest mörk Framara, níu, og Guðjón Drengsson kom næstur með fimm og Haraldur Þorvarðarson þar næst, skoraði fjögur mörk. Hjá Víkingi/Fjölni var Sverrir Hermannsson atkvæðamestur eins og svo oft áður, skoraði sjö mörk en Brjánn Bjarnason og Björn Guðmundsson gerðu fimm mörk hvor.
Jafnt hjá HK og Fylki í Digranesi
Fylkir og HK skildu jöfn í baráttuleik í Digranesi, 27:27. Eymar Krüger jafnaði metin fyrir Fylki þegar 20 sekúndur voru eftir með langskot í leik þar sem HK-liðið hafði frumkvæðið lengst af.Þegar líða tók á síðari hálfleik bitu Fylkismenn frá sér, náðu forystu um tíma en lánaðist ekki að halda henni gegn baráttuglöðum leikmönnum HK-liðsins.
Hlynur Morthens fór á kostum í marki Fylkis og varði um 20 skot og var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður liðsins.
Remigijus Cepulis skoraði átta mörk fyrir HK og Gunnar Jónsson kom næstur með 5 mörk. Hjá Fylki var Heimir Örn Árnason markahæstur með 6 mörk og þeir Ásbjörn Stefánsson og Eymar gerðu 5 mörk hvor.
Stjarnan fór upp fyrir Aftureldingu
Stjarnan hafði sætaskipti við Aftureldingu í þegar hún vann í uppgjöri liðanna í íþróttahúsinu Ásgarði, 26:22. Mosfellingar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 11:14, en leikmenn Stjörnunnar bitu í skjaldarrendur í síðari hálfleik og sneru taflinu sér í vil. Stjarnan er í 6. sæti með 13 stig eftir 12 leiki en Afturelding hefur 12 stig að loknum 13 leikjum.Þórólfur Nielsen og Tite Kalandadze skoruðu sex mörk hvor fyrir Garðbæinga. Einar Ingi Hrafnsson, línumaður Aftureldingar, skoraði níu mörk fyrir liðið og varð markahæstur. Næstur honum kom Hrafn Ingvarsson með fjögur mörk.
Eyjamenn fögnuðu sigri á Akureyri
ÍBV gerði góðan ferð til Akureyrar í gær þar sem þeir unnu öruggan sigur á Þór, 27:21, í Íþróttahöllinni. Eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 11:10, stungu Eyjamenn gestgjafa sína af í síðari hálfleik þannig að aldrei var neinn vafi á hvorum megin sigurinn hafnaði. Björgvin Gústavsson, markvörður ÍBV, fór á kostum.Rúnar Sigtryggsson skoraði 6 mörk fyrir Þór og Arnar Þór Gunnarsson kom næstur með 5 mörk. Mladen Cacic gerði 12 mörk fyrir ÍBV og Ólafur Víðir Ólafsson 9.