— Morgunblaðið/Jim Smart
Rétti jólaandinn ÉG bý í blokk í Grafarvogi og við keyptum jólaseríur á alla blokkina í Húsasmiðjunni. Síðan gerist það að krakkar eða unglingar hafa tekið perur úr seríunum í miklum mæli, og hefur þetta gerst tvisvar sinnum.

Rétti jólaandinn

ÉG bý í blokk í Grafarvogi og við keyptum jólaseríur á alla blokkina í Húsasmiðjunni. Síðan gerist það að krakkar eða unglingar hafa tekið perur úr seríunum í miklum mæli, og hefur þetta gerst tvisvar sinnum. Veit ég að þetta hefur verið vandamál annars staðar í hverfinu. Eins og áður sagði versluðum við seríurnar í Húsasmiðjunni og fór ég því þangað til að kaupa perur í seríurnar. Þeir í Húsasmiðjunni voru svo elskulegir að gefa okkur perur úr gölluðum seríum til að bæta okkur skaðann.

Vil ég fyrir hönd húsfélagsins þakka fyrir þessa frábæra þjónustu. Þetta er rétti jólaandinn.

Grafarvogsbúi.

Rétt skal vera rétt

Það birtust í Blaðinu nýlega skemmtisögur um Halldór Laxness, teknar úr bók Hannesar Hólmsteins.

Þar er m.a. sagt að Halldór hafi verið á nýjum og glæsilegum bíl sem stoppaði á ljósum, og hann hafi ekki getað sett bílinn í gang. Þegar græna ljósið kom flautaði sá sem var fyrir aftan hann í sífellu. Fór Halldór þá út og sagði við manninn: getur þú nokkuð startað bílnum fyrir mig, ég skal flauta á meðan.

Þessi saga er ekki rétt, í fyrsta lagi voru ekki götuljós á þessum tíma og í öðru lagi var þetta ekki Halldór heldur Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari.

Rétt skal vera rétt.

Kristín Guðmundsdóttir.

Íslensk-færeysk orðabók - þakkir

INNILEGT þakklæti til Jóns Hilmars Magnússonar fyrir frábærlega vel unnið starf með útgáfu íslensk-færeyskrar orðabókar.

Þetta var þarft verk og ég sem Færeyingur í móðurætt er ómetanlega þakklátur fyrir þetta framtak.

Með kærri kveðju,

Vestarr Lúðvíksson.

Frábært starfsfólk í Bláfjöllum

Strákurinn minn skellti sér á snjóbretti upp í Bláfjöll sl. þriðjudag en þar varð hann fyrir því óláni að handleggsbrotna.

Vil ég þakka starfsmönnum Bláfjallasvæðisins fyrir góða þjónustu og umönnun á drengum mínum. Það er greinilegt að þetta fólk er vel þjálfað ef slys ber að höndum. Gott er að vita að maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af börnunum sínum ef þau lenda í óhöppum þarna.

Sólveig Snæland.