Frá vinstri: Þórður Eyjólfsson, formaður Búhöfða, og smiðirnir Þórir Guðmundsson og Svavar Jósepsson.
Frá vinstri: Þórður Eyjólfsson, formaður Búhöfða, og smiðirnir Þórir Guðmundsson og Svavar Jósepsson. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Örn Þórarinsson ornalb@hvippinn.is Á ÞESSU ári hefur verið byggt af fullum krafti á vegum Byggingafélagsins Búhölda á Sauðárkróki, styttist nú í að þrítugasta íbúðin á vegum félagsins verði afhent.
Eftir Örn Þórarinsson ornalb@hvippinn.is

Á ÞESSU ári hefur verið byggt af fullum krafti á vegum Byggingafélagsins Búhölda á Sauðárkróki, styttist nú í að þrítugasta íbúðin á vegum félagsins verði afhent.

Búhöldar voru stofnaðir árið 2000 og er eina skilyrðið fyrir aðild að félagsskapnum að fólk sé orðið 50 ára að aldri. Hafa Búhöldar frá upphafi byggt við göturnar Forsæti og Hásæti sem eru skammt ofan við Sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Nú er svo komið að ekki eru tiltækar lóðir sem má byggja á við þær götur og því eru nú tvö hús í byggingu við götuna Laugartún sem er í beinu framhaldi af Hásætinu.

Að sögn Þórðar Eyjólfssonar formanns Búhölda er stöðug eftirspurn eftir að komast inní félagið og eignast íbúðir í hverfinu. Íbúðirnar sem Búhöldar byggja eru 101 ferm. að stærð ásamt 28 ferm. bílskúr og kosta fullfrágengnar um 15 milljónir króna. Þetta eru timburhús, tvær íbúðir eru í hverju húsi og bílskúrarnir á milli íbúðanna og er því nánast eins og um einbýlishús að ræða.Nú er unnið að krafti við íbúðir 29 og 30 og sagðist Þórður vonast til að þær verði afhentar í mars á næsta ári. Þá bíður tilbúin gólfplata fyrir næstu tvær íbúðir, en þetta nægir engan veginn til að anna eftirspurninni að sögn Þórðar.

Það er Trésmiðjan Björk sem byggir fyrir Búhölda og hefur gert frá því félagið byrjaði starfsemi, nema hvað fyrirtæki í Búðardal byggði fyrsta húsið.