Guðrún Elsa Gunnarsdóttir var á Safnasvæðinu í Görðum með dætrum sínum, Elvu Björk og Elísabetu Eiri.
Guðrún Elsa Gunnarsdóttir var á Safnasvæðinu í Görðum með dætrum sínum, Elvu Björk og Elísabetu Eiri. — Morgunblaðið/Ásdís Haraldsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásdísi Haraldsdóttur asdish@mbl.is MIKIÐ er um að vera á Akranesi á aðventunni bæði í bænum sjálfum en ekki síður á Safnasvæðinu að Görðum.
Eftir Ásdísi Haraldsdóttur asdish@mbl.is

MIKIÐ er um að vera á Akranesi á aðventunni bæði í bænum sjálfum en ekki síður á Safnasvæðinu að Görðum. Þar verður lifandi dagskrá um hverja helgi til jóla og meðal annars boðið upp á tónlist, markaði, upplestur úr nýjum bókum og fleira.

Guðrún Elsa Gunnarsdóttir er formaður Markaðsráðs Akraness en það hefur skipulagt jólastemninguna á Akranesi í samvinnu við kaupmenn í bænum og Safnasvæðið að Görðum.

Blað sent bæjarbúum og brottfluttum

"Markaðsráð hefur smám saman byggt upp átak til að efla jólastemninguna á Akranesi á aðventunni en nú var ákveðið að gera enn meira en áður," segir Guðrún Elsa.

"Meðal þess sem nú var gert í fyrsta sinn var að gefa út veglegt blað, Aðventan á Akranesi, í samvinnu við bókaútgáfuna Uppheima. Efni blaðsins er fjölbreytt en þar er að finna auglýsingar frá fjölmörgum fyrirtækjum, upplýsingar um hvað helst er á döfinni á Akranesi á aðventunni, hvaða þjónusta er í boði auk skemmti- og fræðsluefnis.

Blaðið er jafnframt happdrættismiði og verður dregið úr veglegum vinningum í hverri viku. Blaðið var borið í hvert hús á Akranesi og einnig var það sent til burtfluttra Akurnesinga."

Guðrún Elsa segir markmiðið með þessu átaki á aðventunni að beina viðskiptum bæjarbúa í heimabyggð. Hún segir að fólk eigi það til að fara beint til Reykjavíkur að versla án þess að kanna fyrst hvaða þjónusta er í boði í heimabænum og hvort hún sé á sambærilegu verði.

"Verslanir hér á Akranesi standast fyllilega samanburð við sérvöruverslanir í Reykjavík, en auðvitað verða verslunareigendur að láta vita af sér og sýna hvað þeir hafa í boði," segir Guðrún Elsa.

"Þá mættu fyrirtæki og stofnanir einnig vera duglegri að beina viðskiptum sínum við fyrirtæki í bænum í mun meiri mæli. Með því að versla í heimabyggð styrkjum við verslanir og fyrirtæki og sköpum atvinnu og þar með styrkjum við heimabyggðina."

Markaðsráð hefur verið ötult við að vekja athygli á verslunum og fyrirtækjum í bænum. Það hefur staðið fyrir margs konar uppákomum á ýmsum tímum ársins og verið í góðu samstarfi við Safnasvæðið að Görðum. Guðrún Elsa segist telja það búa yfir sérstöðu og þar sé hægt að skapa skemmtilega stemningu.

Skreytt í anda jólanna í gamla daga

Dagskráin sem boðið verður upp á hófst á laugardaginn og var Safnasvæðið opið frá kl. 13-17. Í boði var heitt kakó og kökur og flatbrauð. Lesnar voru jólasögur fyrir börn á öllum aldri í gamla húsinu að Görðum, en Skagaleikflokkurinn sér um að skapa sérstaka jólastemningu þar og er húsið skreytt í anda jólanna í gamla daga. Þá spilaði Skólahljómsveit Akraness syrpu af uppáhalds jólalögunum. Í gær var einnig jólamarkaður í Safnaskálanum, fleiri tónlistaratriði og jólasveinar á ferð.

Um næstu helgi getur fólk á öllum aldri látið taka mynd af sér með jólasveininum en hann ætlar að mæta á Safnasvæðið með hirðljósmyndastofuna sína, Myndsmiðjuna, með sér. Þá hefur jólasveinninn fengið verslunina Pennann til að afhenda myndirnar framkallaðar eftir helgina.

Jólasveinar og tónlistarfólk verður einnig á ferðinni í verslunum á Akranesi þar sem ýmislegt verður til skemmtunar á aðventunni.

Gjafakortin vinsælu

"Tekið var upp á þeirri nýbreytni í fyrra að bjóða gjafakort Markaðsráðs Akraness til sölu í Landsbankanum og Íslandsbanka á Akranesi. Þetta reyndist mjög vinsæl jólagjöf, enda hægt að versla fyrir gjafakortin í langflestum verslunum í bænum," segir Guðrún Elsa.

"Gjafakortin eru aftur til sölu núna, en það sem meðal annars gerir þau svo vinsæl er að hægt er að kaupa fyrir hluta þeirra í einni verslun og fyrir afganginn í annarri. Kaupmenn hafa sagt mér að þessi gjafakortasala sé hrein viðbót við þeirra eigin gjafakort."

Af öðrum viðburðum má nefna að á Þorláksmessu efna meðlimir í Endurhæfingarsmiðjunni Glóð til friðargöngu á Akranesi. Hún á að hefjast við Ráðhúsið við Stillholt kl. 18 og verður gengið í kyrrð og ró á Akratorg þar sem séra Eðvarð Ingólfsson mun ávarpa göngufólk. Kirkjukór Akraness syngur og Skólahljómsveit Akraness leikur nokkur lög.