Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson skrifar um málsmeðferð forræðismála: "Málsmeðferð 20. aldarinnar á forsjár-, umgengnis- og meðlagsmálum hefur ósjaldan stuðlað að andláti foreldrasamvinnu."

Í PERLU íslenskra bókmennta, Njálssögu, er greint frá brennu sem leiddi Njál á Bergþórshvoli og fjölda annarra manna til dauða. Allir vissu hvaða menn frömdu illvirki þetta og voru þeir sóttir til saka á þingi. Sagan greinir listilega frá dómsmálinu þar sem rökræða lögmanna snerist ekki um efnið heldur hvort að formið væri rétt. Þegar Þórhallur Ásgrímsson áttaði sig á, að sókn málsins væri orðin ónýt, spratt hann upp úr sjúkrabeði sínu ,,og þreif tveim höndum spjótið Skarphéðinsnaut'', gekk rösklega frá búð sinni til fimmtardóms og í kjölfarið barst þingheimur allur á banaspjót.

Réttarfar nú á dögum er öllu haganlegra en reglurembingur þjóðveldisaldarinnar. Eigi að síður geta misvitrar málsmeðferðarreglur nútímans haft skaðlegar afleiðingar. Hér eru sérstaklega hafðar í huga reglur um meðferð mála er lúta að börnum. Sumir aðilar forsjár-, umgengnis- og meðlagsmála kannast örugglega við þá tilfinningu að mæta á fund hjá réttarkerfinu og fara af honum án þess að skilja hvað fram hafi farið. Þessi tilfinning getur verið rökrétt þegar rakin er í grófum dráttum hefðbundin meðferð forsjármáls fyrir dómi.

Eins og önnur einkamál hefst forsjármál með þingfestingu stefnu og er algengt að stefnandi fullyrði þá þegar að stefndi sé óhæfur einstaklingur gagnvart börnum. Stefnda er veitt svigrúm til að skila skriflegri greinargerð og algengt er að í henni sé haldið fram að stefnandi sé ekki verðugur þess að vera með börnunum. Við fyrirtöku máls í dómsal koma aðilar saman og hitta fyrir dómara sem spyr þurrlega: Er möguleiki á sáttum í málinu? Þegar nei er kveðið við beinir skikkjuklæddi dómarinn því til aðila að álit sérfræðings verði fengið um málið. Áfram heldur svo málareksturinn þar til dómur er kveðinn upp. Á meðan þessu ferli stendur hefur andúð foreldra á hvort öðru iðulega vaxið fremur en hitt. Hin efnislega niðurstaða hefur í för með sér að annað foreldrið verður sigurvegari en hitt verður tapari.

Þessi hefðbundna málsmeðferð er ekki náttúrulögmál og ef marka má tilraunarverkefni ástralska fjölskyldudómstólsins, Childrens Case Program, er þess virði að kanna nýjar leiðir. Verkefni þetta var sett á laggirnir fyrir um tveim árum og felur m.a. í sér að dómari hvers máls er óformlega klæddur, hann fær aðila fljótt á sinn fund og hann stýrir umræðu fundargesta. Svo virðist sem þetta auki líkurnar á að aðilar hafi skilning á því sem fram fer og að dómari öðlist skarpari sýn á það sem barni er fyrir bestu. Samkvæmt fyrstu tölum um verkefnið hafa sættir oft tekist og málsmeðferðartími hefur styst. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefslóðinni http://www.familycourt.gov.au/.

Á Íslandi hefur einn dómari við Héraðsdómstól Reykjaness náð frábærum árangri í að sætta aðila forsjármála. Frá því að sá dómari sérhæfði sig í meðferð slíkra mála fyrir nokkrum árum hefur hlutfall dómssátta af loknum dómsmálum aukist frá því að vera þriðjungur til þess að hlutfallið var komið í 96% árið 2004. Vinnubrögð dómarans eru um margt lærdómsrík og athyglisverð en ekki síst eru þau árangursrík.

Það var skiljanlegt á þjóðveldisöld að sönnun í dómsmálum væri formbundin í ritlausu samfélagi. Slík málsmeðferð hafði hinsvegar í för með sér að erfitt gat reynst að framfylgja réttvísinni. Málsmeðferð 20. aldarinnar á forsjár-, umgengnis- og meðlagsmálum hefur ósjaldan stuðlað að andláti foreldrasamvinnu. Þessi málsmeðferð býr til sigurvegara og tapara en barnið er þó iðulega stærsti taparinn. 21. öldin krefst þess að réttarkerfið hagi meðferðum slíkra mála með öðrum hætti og stuðli að upprisu foreldrasamvinnu. Takist að sætta foreldra verður barnið einatt stærsti sigurvegarinn.

Höfundur er lögfræðingur.