Vilhjálmur Einarsson
Vilhjálmur Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Páll Sigmarsson sem gerði garðinn frægan á árum áður sem kraftlyftinga-, aflrauna- og vaxtarræktarmaður er sá íþróttamaður sem er í mestum metum hjá Íslendingum í könnun sem IMG Gallup gerði fyrir VISA Europe.

JÓN Páll Sigmarsson sem gerði garðinn frægan á árum áður sem kraftlyftinga-, aflrauna- og vaxtarræktarmaður er sá íþróttamaður sem er í mestum metum hjá Íslendingum í könnun sem IMG Gallup gerði fyrir VISA Europe. Slík könnun var gerð í mörgum löndum á sama tíma þar sem spurt var um íþróttatengd málefni.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is

Jón Páll var efstur á blaði í íslensku könnuninni er spurt var: Hvaða íslenski, fyrrverandi afreksmaður í íþróttum er í mestum metum hjá þér? Alls voru 800 manns sem tóku þátt í könnuninni og fékk Jón Páll 14,1% atkvæða. Jón Páll lést í byrjun ársins 1993.

Vilhjálmur Einarsson frjálsíþróttamaður fékk 11% atkvæða og Ásgeir Sigurvinsson knattspyrnumaður var með 10% atkvæða. Vala Flosadóttir var efst kvenna í þessari kosningu en hún fékk 8% en Vala vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.

Listinn lítur þannig út:

Jón Páll Sigmarsson 14,1%

Vihjálmur Einarsson 11%

Ásgeir Sigurvinsson 10%

Vala Flosadóttir 8%

Jón Arnar Magnússon 3,8%

Albert Guðmundsson 2,9%

Einar Vilhjálmsson 2,1%

Bjarni Friðriksson 2,0 %

Guðni Bergsson 1,7%

Hreinn Halldórsson 1,5%

Gunnar Huseby 1,1%

Hermann Gunnarsson 1,1%

Arnór Guðjohnsen 0,9%

Magnús Scheving 0,9%

Ragnheiður Runólfsdóttir 0,9%

Sigurður Valur Sveinsson 0,9%

Það vekur einnig athygli að þegar spurt var um hvort fjárhagsstuðningur fyrirtækja væri íþróttum nauðsynlegur svöruðu 60,1% þeirri spurningu játandi og 37,2% svöruðu því til að fjárhagsstuðningur fyrirtækja myndu auka líkurnar á því að íþróttamenn og konur næðu betri árangri.

Aðeins 2,7% svöruðu því til að fjárhagsstuðningur fyrirtækja væri dragbítur á íþróttum.

Alls reyndust 97,3% svarenda því vera fylgjandi fjárhagsstuðningi fyrirtækja við íþróttir á Íslandi.

Í könnuninni var spurt um ýmsa þætti sem snúa að íþróttum og má þar nefna að spurt var um umfjöllun fjölmiðla hvað varðar Ólympíumót fatlaðra. Tæp 37% svöruðu því til að umfjöllun fjölmiðla væri hæfileg um þann viðburð en tæp 62% sögðu að Ólympíumót fatlaðra fengi of litla umfjöllun.

Norðmaðurinn Björn Dæhlie sem lét til sín taka á sínum tíma sem einn helsti afreksmaður sinnar kynslóðar er ekki í neinum vafa um gildi fjárhagsstuðnings fyrir íþróttir.

Dæhlie, sem var sigursæll í keppni í skíðagöngu, telur að afreksfólk eigi enga möguleika á að ná árangri án þess að hafa aðgang að sterkum fjárhagslegum samstarfsaðilum og bakhjörlum.

Björn Dæhlie segir ennfremur að hægt sé að leggja þátt styrktaraðila að jöfnu við gildi góðs keppnisútbúnaðar.