Jólatónleikar sönghópsins Hljómeykis. Stjórnandi: Marteinn H. Friðriksson. Föstudaginn 9. desember kl. 20.

EINHVER notalegasta af nýlegri kirkjum höfuðborgarsvæðisins er Háteigskirkja, búin breiðu skipi studdu gylltum súlum og gluggabogum í norður-indverskum mógúlastíl. Eitthvað rámar mann í að teppalagning gólfsins hafi á sínum tíma þótt draga úr æskilegum endurómi til kórsöngs. En varla hefur það verið til stórskaða, miðað við hversu fallega hljómaði á þokkavel sóttum jólatónleikum Hljómeykis á föstudag. Í sönghópnum að þessu sinni voru 20 manns í nokkuð góðu raddsamvægi (7-4-4-5), s.s. fyrir jafnt fjögurra sem fimm radda skipan, og virtist almennt í ágætu formi, þó að hann þyrfti heyranlega (sem langflestir aðrir blandaðir kórar nú á tímum) að sæta æ minnkandi framboði á úrvals karlaröddum. Og þó að bólaði hlutfallslega oftar á misjafnri inntónun karla en kvenna, voru sópran og alt né heldur jafnörðulausar og vænta mætti af einum fremsta kammerkór landsins. Að vísu aðeins endrum og eins, því oftast sungu þær eins og englar. Á hinn bóginn var samhljómurinn aðdáunarlega mjúkur og tær og unun á að hlýða, jafnvel þótt staka innkoma gæti verið svolítið loðin og bassinn hefði í heild mátt skarta meiri fyllingardýpt.

Dagskrárefnið var hins vegar af vönduðustu sort og blessunarlega laust við útjöskuðustu lummur aðventumarkaðarins. Er sannarlega þakkarvert þá sjaldan aðstandendur þora að leita ögn út fyrir troðnustu slóðir - því þó að almennir hlustendur fari varla á fleiri en eina til tvenna jólatónleika á sama ári, þá væri sízt til að örva aðsókn ef menn ættu alltaf von á nauðalíku lagavali. Hér var aldrei þessu vant um tiltölulega fáheyrð lög að ræða, en á móti úr fremstu gæðaröð. Bar valið vott um næman tónlistarsmekk, hvort heldur úr fórum þjóðlagagersema sem gimsteina kirkjutónlistar.

Á stikli mætti fyrst nefna upphafsatriðið, íslenzka sálmalagið Með gleðiraust og helgum hljóm; afar vandmeðfarið í útsetningu en samt furðuvel heppnað í meðförum kórstjórans (er steingleymdist að geta í tónleikaskrá). Samlenda sálmalagið Immanúel oss í nátt situr í mér - og ugglaust fleirum af sömu kynslóð - hvað sterkast eftir í litríkri þjóðlagatríóútsetningu Jóns bassa Sigurðssonar, en þó gutlaði á mörgu frumlegu í þjóðlegri úttekt Jóns Hlöðvers Áskelssonar. Katalónska lagið Avinticinc de desembra (E. Cervera), hér betur þekkt sem "Á jólunum er gleði og gaman, fó, fó, fó!" í úts. Jóns fyrir Eddukórinn sáluga, var talsvert hægar sungið en ekki til lýta. Það aldin út er sprungið (Hugo Distler) var meðal hápunkta í tærum söng kórsins, en O magnum mysterium og Hodie Christus natus est (Poulenc) hefðu mátt vera hreinni í tónstöðu.

Þá kom til skjala blandaði kvartettinn "Vox fox", að ¾ skipaður Hljómeykisfélögum, og söng tvær nútímajólaballöður: Jólin alls staðar eftir fyrrgetinn Jón Sigurðsson og Have Yourself a Merry Little Christmas; hvort tveggja af vel samstilltum þokka, þó að millilagið - lútu-Bourrée Bachs í synkópun Jethros Tull - næði ekki nógu afslappaðri sveiflu. Síðan sungu kvenraddir Hljómeykis dáfallega tvö tékknesk lög í úts. Petrs Eben, áður en sönghópurinn lauk dagskrá með þrem lögum eftir Cornelius, Max Reger og Giovanni Gabrieli - hinu síðasta, Jubilate Deo, í bráðfallegum feneyskum tvíkórastíl.

Ríkarður Ö. Pálsson