Allar dreifilagnir í Viking-sprinklerkerfinu eru úr plaströrum.
Allar dreifilagnir í Viking-sprinklerkerfinu eru úr plaströrum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara enn einu sinni að predika brunavarnir og kynna hér í pistlunum vatnsúðakerfi, sem í daglegu tali er nefnt sprinklerkerfi og er hér með viðurkennt að það orð sé búið að fá þegnrétt í íslensku máli.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara enn einu sinni að predika brunavarnir og kynna hér í pistlunum vatnsúðakerfi, sem í daglegu tali er nefnt sprinklerkerfi og er hér með viðurkennt að það orð sé búið að fá þegnrétt í íslensku máli.

Flestir kannast við slagorðið "þú tryggir ekki eftirá" og það gildir ekki síst þegar bruni eyðir eignum manna. En það er fleira sem glatast en veraldleg gæði, lífið sjálft er í veði eins og nýleg dæmi sanna. Samt eru Íslendingar ótrúlega kærulausir um brunavarnir og þar virðist annað slagorð hljóma hljótt í hugum margra eða "það kemur ekkert fyrir mig". Það er ekki síst ástæða til að kveða þetta andvaraleysi gegn brunavá niður nú þegar jólahátíðin gengur í garð.

Nýlega bauð Egill Ásgrímsson pípulagningameistari til kynningar á Viking-sprinklerkerfi, sem segja má að sé alþjóðlegt enda starfar þetta fyrirtæki í 60 löndum. Kynningin var haldin í húsakynnum Lagnakerfamiðstöðvar Íslands á Keldnaholti og átti það svo sannarlega vel við að hittast þar. Þar var mættur sænskur verkfræðingur með því sterka nafni Per Slagbrand og kynnti Viking-kerfið í máli og myndum. Að vísu afsakaði hann það að kynningartextar á tjaldi voru á sænsku en tók sérstaklega fram að hann mundi þýða þá jafnharðan sem hann og gerði, auðvitað á ensku! En án gamans; þetta var ágæt kynning á Viking-sprinklerkerfinu og vonandi eitt kornið enn til að fylla mæli óforsjálni og kæruleysis landans í brunavörnum, vekja menn af doðanum og minna þá á að "það tryggir enginn eftirá".

Fyrirlestur hins sænska sérfræðings var hinn athyglisverðasti, en tvennt skal hér sérstaklega tíundað. Annarsvegar það að á síðustu árum hefur hvarvetna í iðnþróuðum löndum verið lögð aukin áhersla á íbúðasprinkler, á vatnsúðakerfi til brunavarna í heimahúsum. Látum síðan þróunina skera úr um það hvort við köllum þetta íbúðasprinkler eða heimasprinkler. Höfuðáherslan með heimasprinkler er ekki að bjarga verðmætum, þó það sé auðvitað alltaf á dagskrá í öllum brunavörnum. Þar er meginmarkmiðið að bjarga mannslífum því alltaf verða þau verðmætari en nokkur veraldleg eða efnahagsleg gæði.

Ef eldur verður laus á heimili hafa oft orðið manntjón. Oft er það ekki sjálfur eldurinn, sem verður fólki að fjörtjóni, miklu fremur sonur eldsins, reykurinn, og sú súrefnisnauð sem honum fylgir. Þess vegna er það mikilvægt að til staðar sé kerfi sem grípur strax inn í og kæfir eldinn í fæðingu. Enginn eldur og þar með enginn reykur eða banvænar gufur af ýmsum efnum sem eru að brenna. Eitt einbýlishús kostar í dag milljónatugi í byggingu og þar er oft ekkert til sparað í ýmiss konar þægindum. Þá vaknar sú spurning hvort þeir, sem eiga það mikið í handraðanum að geta byggt sér slík hús, ættu ekki að fórna nokkrum krónum í að tryggja líf sitt og sinna með öruggri brunavörn, með heimasprinkler.

Annað mikilvægt atriði við Viking-sprinklerkerfið er að allar dreifilagnir eru úr plasti. Vissulega hefur borið á barnasjúkdómum í sprinklervæðingu hérlendis og ófyrirsjáanlegar bilanir komið fram og valdið skaða. Með því að nota öruggar plastleiðslur, tengdar með múffusuðu, er hættan á slíkum óhöppum hverfandi. Einhverjum kann að þykja plaströr og brunavarnarkerfi ósamrýmanlegt, plaströr standast ekki eld á sama hátt og málmrör. Vissulega er það rétt út af fyrir sig, en það er einmitt kerfið sjálft sem ver og verndar leiðslurnar, þess vegna er fengur að því að nota plaströr í sprinklerkerfi.

Nú er bara að vona að "Eyjólfur hressist" og landsmenn almennt, sérstaklega þeir sem eiga fasteignir, fari að rumska. Eyðandi eldur hefur valdið milljarða tjóni á undanförnum árum. Hvergi hefur þá andvaraleysið verið verra en hjá fiskvinnslunni, þessum löngum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Vonandi að jafnvel í þeirri grein fari menn að rumska og huga að brunavörnum.

Eftir Sigurð Grétar Guðmundsson pípulagningameistara/sigg@simnet.is