Einar Olgeirsson
Einar Olgeirsson
Ævisaga Einars Olgeirssonar eftir dóttur hans, Sólveigu Kristínu Einarsdóttur, ætti að verða ungum sagnfræðingum hvatning til að rannsaka og skrifa um tengslin á milli Sjálfstæðisflokks og sósíalista, sem eru augljóslega áhugavert rannsóknarefni.

Ævisaga Einars Olgeirssonar eftir dóttur hans, Sólveigu Kristínu Einarsdóttur, ætti að verða ungum sagnfræðingum hvatning til að rannsaka og skrifa um tengslin á milli Sjálfstæðisflokks og sósíalista, sem eru augljóslega áhugavert rannsóknarefni.

Bók Sólveigar sýnir, að þessi tengsl hafa verið meiri og persónulegri en menn hafa kannski áttað sig á.

Samstarf Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks í nýsköpunarstjórn er vel þekkt en augljóst af bók Sólveigar að persónuleg tengsl hafa verið til staðar á milli Einars og Ólafs Thors fyrir þann tíma.

Halldór Blöndal, alþingismaður, skrifar ritdóm um bókina í Morgunblaðið í gær, sem einkennist af væntumþykju í garð höfundar og virðingu gagnvart sögupersónunni.

Hugmyndir Bjarna Benediktssonar á síðustu árum Viðreisnarstjórnarinnar um samstarf við Alþýðubandalagið í ríkisstjórn má skoða í nýju ljósi þegar höfð eru í huga gömul tengsl fjölskyldu Bjarna við Einar og fjölskyldu hans.

Ólafur Thors gekk með mikilli reisn út af sviði stjórnmálanna í nóvember 1963 eftir að hafa í síðasta sinn notað sambönd sín við sósíalista til þess að koma á friði í samfélaginu.

Hringdi hann fyrst í Einar og svo í Eðvarð Sigurðsson eða hringdi Eðvarð í Ólaf eftir ábendingu frá Einari? Eru þeir menn lifandi sem vita þetta? Frá þessu var sagt með mismunandi hætti í þingflokkunum.

Áþreifingar um samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags í desember 1979 leiddu í ljós mjög áhugaverð tengsl á milli Inga R. Helgasonar, náins samstarfsmanns Einars Olgeirssonar, og einstaklinga, sem stóðu mjög nærri forystu Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma.

Það er tímabært að skoða þessi tengsl og kannski má ekki seinna vera, því að sennilega er lítið sem ekkert til um þau af skriflegum heimildum.